Stjórnum notkun snjallsímans

Snjallsímavæðingin hefur tekið flug eftir að fyrsti síminn kom á markað árið 2007 og nú er svo komið að mikill meirihluti Íslendinga á snjallsíma. 

Snjallsímar bjóða upp á endalausa möguleika og leika sífellt stærra hlutverk í lífi fólks. Rafrænu samskiptin hafa óneitanlega margar jákvæðar hliðar en einnig neikvæðar.

Til eru alltof mörg dæmi um það að fólk verði háð símanum sínum og geti varla án hans verið og er í þessu samhengi stundum talað um snjallsímafíkn. Mörg störf krefjast þess líka að við séum sítengd. Könnun sem prófessor Leslie Perlow við Harvard Business School framkvæmdi árið 2012 meðal 1600 stjórnenda og sérfræðinga leiddi í ljós að:

 • 70% þeirra segjast skoða símann sinn innan við klukkutíma eftir að þeir vakna.
 • 56% segjast tékka á símanum innan við klukkutíma áður en þeir fara að sofa.
 • 48% skoða símann sinn reglulega um helgar, þ.m.t. föstudags- og laugardagskvöld.
 • 51% tékka á símanum sleitulaust í fríinu.
 • 44% sögðust myndu upplifa mikinn kvíða ef þeir týndu símanum.

Við erum forvitin að eðlisfari og tékkum á símanum í gríð og erg, stundum jafnvel án þess að átta okkur á því. Á biðstofunni hjá tannlækninum, á fundi, meðan við erum að elda matinn, á klósettinu í miðju partíi, jafnvel í umferðinni þó að við vitum að með því stofnum við lífi okkar og annarra í hættu. Því meira sem við notum símann þeim mun meiri þörf vaknar fyrir að skoða tölvupóstinn eða Fésbókina, senda eina mynd á Instragram, kíkja á fyndið myndband á YouTube eða spila tölvuleik. Snjallsíminn skapar umhverfi stöðugra truflana og gerir okkur erfitt fyrir að halda einbeitingunni. Rannsóknir hafa auk þess sýnt að því meiri tíma sem við verjum í snjallsímum okkar þeim mun verri svefngæði. Þegar glápt er á skjáinn skömmu fyrir háttatíma kemur það verulega niður á svefni. Ljósið sem síminn gefur frá sér minnkar framleiðslu hormónsins melatóníns sem hjálpar okkur að sofna.

Notkun snjallsíma virðist einnig hafa talsverð áhrif á gæði samverustunda fjölskyldna. Snjallsímanotkun foreldra getur haft áhrif á tengslamyndun foreldra og barna, sér í lagi ef foreldri er andlega fjarverandi sökum símanotkunar. Árið 2014 settu þrjár af tíu fjölskyldum í Danmörku reglur til um notkun þeirra á aðfangadagskvöldi til að koma í veg fyrir að heimilisfólkið gleymdi sér í símanum og nyti nærverunnar af hálfum huga. 

Hér fyrir neðan eru nokkur góð ráð til að ná betri stjórn á snjallsímanum:

 • Vertu meðvitaður/-uð um ástæður þess að þú viljir tékka á símanum. Er það vegna þess að þér leiðist, ert einmana, finnst þér þú vera að missa af einhverju? Eða er þetta einfaldlega ávani?
 • Sýndu sjálfsstyrk þegar síminn gefur frá sér hljóð. Þú þarft ekki alltaf að skoða allt strax. Enn betra væri að slökkva á öllum tilkynningum frá Facebook, Instagram, Snapchat o.s.frv.
 • Sýndu sjálfsaga og notaðu símann ekki í vissum aðstæðum, eins og t.d. í umferðinni, þegar þú ert með börnum þínum eða í matarboði. Einnig er gott að ákveða að leggja hann frá sér á ákveðnum tímum, t.d. milli kl. 17 og 20 á kvöldin. 
 • Æfðu þig í að tékka ekki á símanum í 15 mínútur og lengdu tímann síðan í 30 mínútur og svo klukkutíma eða lengur. 
 • Tékkaðu bara á símanum á fyrirfram ákveðnum tímum.
 • Forðastu að hafa símann í svefnherberginu.
 • Forðastu að nota vefsíður í símanum nema þegar þig bráðnauðsynlega vantar upplýsingar eins og t.d. símanúmer eða heimilisfang.

Snjallsíminn er frábær uppfinning sem býður upp á óteljandi notkunarmöguleikum. Við þurfum bara að læra að stjórna honum í stað þess að láta símann stjórna okkur. 

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 26. febrúar 2017.