Sex venjur hamingjusamra einstaklinga

Þrátt fyrir ýmis afrek á 19 ára ferli sínum tókst höfundinum og forstjóranum Laura DiBenedetto ekki að finna hamingjuna. 

Hún ákvað því að fara í smá ferðalag, kynnti sér rannsóknir, las bækur og ræddi við fólk til að komast að því sem hamingjusamir einstaklingar eiga sameiginlegt.

Niðurstaðan er sex venjur sem geta stuðlað að lífi sem einkennist af tilgangi og fullnægju: 

  1. Að sýna sjálfum sér umhyggju og vinsemd: Þessi venja snýst um það hvernig við komum fram við okkur sjálf með hugsunum okkar, orðum og gjörðum. Þegar við sýnum umhyggju, vinsemd og kærleika í eigin garð finnst okkur við vera sjálfsörugg, fær, hugrökk og verðug.

  2. Að sýna sjálfsvirðingu: Sjálfsvirðing hefur að gera með það hvað okkur finnist um okkur sjálf og hvernig við elskum, heiðrum og virðum okkur sjálf skilyrðislaust. Það að viðurkenna og samþykkja eigin hugsanir, tilfinningar og athafnir gefur okkur leyfi til að vera sönn, sátt og frjáls til að vera 100% eins og við erum.

  3. Að sýna þakklæti: Þessi venja snýst um það hvernig við lítum á lífið. Þakklæti er linsan sem við sjáum lífið í gegnum, sérstaklega erfiðu hlutina og allt það sem við tökum sem sjálfsögðum hlut. Þegar við erum þakklát virðast vandamál léttvægari og við finnum fyrir meiri lífsánægju og raunverulegum styrk. 

  4. Að vera til staðar í eigin lífi: Að vera til staðar í eigin lífi snýst um það hvert við beinum fókus okkar og athygli. Þegar við höfum athyglina á líðandi stundu erum við meðvituð um það sem er að gerast hér og nú og látum ekki truflast af fortíðinni né framtíðinni. Afleiðingin er að við fáum meiri ánægju út úr lífinu.

  5. Að einblína á góða hluti: Þessi venja snýst um það að passa orkuna og gefa sér tíma til að endurnærast með því að bæta góðum hlutum inn í líf sitt og fjarlægja slæma hluti á meðvitaðan hátt. Við setjum okkur í fyrsta sætið og sinnum okkur sjálfum án þess að finna fyrir samviskubiti. 

  6. Að hafa skýran ásetning: Ásetningurinn snýst um það hvernig við vinnum úr löngunum okkar þannig að við verðum metnaðarfull og áhugasöm um að ná settum markmiðum. Með skýrum ásetningi finnum við fyrir eigin krafti og losnum við óttann. Draumar okkar lifna við.

Laura DiBenedetto segir að þessar sex venjur breyti lífi okkar þar sem þær setji sviðið fyrir það sem við skilgreinum sem hamingju. Við getum stjórnað þeim öllum. Hver einasta venja sé öflug ein og sér en saman hafi þær margföldunaráhrif. Markmiðið sé að samræma, skilja og ná tökum á þessum venjum. Við þurfum því að læra um venjurnar, kortleggja hvar við séum stödd í dag, finna út hvað við viljum í lífinu og lifa síðan ofangreindar venjur til hins ítrasta. Þannig getum við stuðlað að aukinni hamingju.

Hægt er að horfa á fyrirlestur Laura DiBenedetto hér.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Greinin birtist á Kjarnanum 19. desember 2020.