Orð hafa mátt – vöndum valið

Orð geta ekki breytt raunveruleikanum, en þau breyta því hvernig við skynjum raunveruleikann. Í gegnum síuna sem orðin skapa sjáum við heiminn í kringum okkur.

Eitt orð getur gert útslagið um það hvort okkur líkar eða mislíkar manneskju. 

Tökum dæmi:

Ef góður vinur sem við tökum mark á lýsir þeim sem við erum að fara að hitta í fyrsta skipti sem óáreiðanlegum og lötum höfum við tilhneigingu til að sjá viðkomandi þannig, burtséð frá því hvort hann er óáreiðanlegur og latur eða ekki. Orðin „óáreiðanlegur og latur“ skapa síu eða fyrirfram mótaða skoðun sem hefur áhrif á hvernig við túlkum það sem viðkomandi segir eða gerir.

Ef aftur á móti góður vinur okkar segir að sá sem við erum að fara að hitta sé vingjarnlegur munum við sjá hann þannig, burtséð frá því hversu vingjarnlegur hann er í reynd. Ef við hittum þennan „vingjarnlega“ einstakling nokkrum sinnum og upplifum ekki vingjarnlegheit af hans hálfu munum við líklega réttlæta hegðun hans með því að segja t.d.: „Þetta hefur líklega verið slæmur dagur hjá honum“ eða „Ég hitti líklega ekki vel á hann í dag.“ Óvingjarnlegur einstaklingur sem er lýst sem vingjarnlegum græðir þar af leiðandi á því þar sem fólk hefur tilhneigingu til að gefa óvingjarnlegri manneskju margföld tækifæri til að sýna umræddan vingjarnlegheit.

Í amstri dagsins leitum við oft ekki margra heimilda til að mynda okkur skoðun á atburðum í heiminum. Við sjáum hlutina í gegnum það dagblað sem við erum með áskrift af eða þá útvarpsstöð sem við hlustum á. Þeir sem hlusta á Línan laus á Útvarpi Sögu fá sem dæmi aðra hlið á málum en þeir sem hlusta á Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Fjölmiðlar geta haft mikil áhrif á skynjun okkar á heimsins atburði. Ef dagblað færir lesendum sem dæmi aðeins einhliða fréttir munu lesendur sjá atburðinn í gegnum þá síu. Þessi sía verður á sínum stað þangað til lesendur fá yfirvegaðri frétt eða annað sjónarhorn. Það er hins vegar ólíklegt að það gerist vegna þess að við leitum oft ekki heimilda á mörgum stöðum.

Fjölmiðlamaður sem tekur viðtal við mann grunaðan um hvítflibbaglæp og er þegar búinn að ákveða í huganum að hann sé sekur mun túlka allt sem viðkomandi segir eða gerir sem vísbendingu um sekt, jafnvel þó að sönnunargögnin sýni hið gagnstæða, og virða að sama skapi að vettugi vísbendingar sem styðja ekki við fyrirfram mótaðar skoðanir hans. Því meiri þrýsting sem fjölmiðlamaðurinn beitir, þeim mun stressaðri verður viðmælandinn, ekki vegna þess að hann er sekur heldur vegna þess að fjölmiðlamaðurinn trúir honum ekki og hann heldur að hann muni verða fundinn sekur fyrir eitthvað sem hann er saklaus um. Þannig skapast neikvæður spírall.

Næst þegar þú ræðir við umsækjanda, hittir nýjan samstarfsmann eða kaupir nýja vöru hugsaðu þá um hvernig þú myndaðir skoðun þína á þeirri manneskju eða vöru. Það eru miklar líkur á því að þú hafir verið með fyrirfram mótaðar skoðanir sem hugsanlega voru byggðar á viðhorfi annarra. Ef þú hefur heyrt neikvæðar sögur um umsækjanda hefur það áhrif á hvernig þú kemur fram við og metur viðkomandi í viðtalinu. Þegar starfsmaður er færður til hefur orðspor hans áhrif á hvernig honum verður tekið á nýjum stað. Nýja sjampóið hlýtur að vera gott af því af uppáhaldsleikkonan þín Julie Roberts mælir sérstaklega með því.

Orð hafa mátt – vandaðu því valið. 

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman