Margt í einu eða eitt í einu?

Við státum okkur oft af því að geta gert margt í einu. Á meðan við horfum á sjónvarpið skoðum við Facebook í snjallsímanum eða svörum tölvupóstum. Við þrífum baðherbergið á meðan við burstum tennurnar.

Við lesum dagblöðin á meðan við borðum hádegismatinn og spjöllum við samstarfsmenn á sama tíma. En komum við meiru í verk með því að sinna mörgum verkefnum á sama tíma?

Nýlegar rannsóknir sýna svo ekki verður um villst að svo er ekki. Shauna Shapiro, sem er sálfræðiprófessor og sérfræðingur í núvitund, bendir til dæmis á að „múltítasking“ eða það að gera margt í einu sé gott dæmi um sjálfsblekkingu. Við höldum að við komum meiru í verk en staðreyndin sé sú að þetta dregur úr afköstum, eykur líkur á mistökum og leiðir til þess að verkefnin taka þrefalt lengri tíma. Hver einasti tölvupóstur sem dettur inn sem dæmi rýfur einbeitingu okkar í um fjórar mínútur. Við þurfum að koma okkur úr því sem við vorum að gera, svara erindinu, og koma okkur svo aftur inn í það sem við vorum að sinna áður en við urðum fyrir truflun. 

Earl Miller, sem er taugavísindamaður við MIT, segir að stöðugar truflanir og það að fara úr einu í annað dragi úr skilvirkni, einbeitingu og virkni heilans. Þegar við ljúkum við lítið verkefni eins og að senda tölvupóst eða pósta texta á Facebook spýtist dópamín um líkamann. Heilinn okkar elskar dópamín þar sem það framkallar ánægju, og hvetur okkur þannig til að halda þessar hegðun áfram. Dópamínið fær okkur til að líða eins og við höfum lokið við mikið magn verkefna, á meðan við erum í raun að afkasta litlu. Það að sinna mörgum verkefnum í einu örvar líka framleiðslu stresshormóna á borð við kortísól, sem getur veikt ónæmiskerfið og dregið úr viðnámi líkamans gegn sjúkdómum. 

Athyglisverð rannsókn við Háskólann í London sýndi að greindarvísitalan lækkar þegar við sinnum mörgum verkefnum á sama tíma. Lækkunin er sambærileg því að reykja marijúana eða sleppa því að sofa í eina nótt. Þetta hefur í för með sér að við eigum erfiðara með að halda athygli, skipuleggja hugsanir okkar og muna upplýsingar. Heilinn okkar virðist einfaldlega skapaður til að gera eitt í einu.    

Tökum þátt í þeirri áskorun að gera eitt í einu næstu þrjár vikurnar. Ekki athuga með Facebook á fimm mínútna fresti þegar þú ert að lesa skáldsögu. Forðastu að lesa Séð og heyrt þegar þú ert á þrekhjólinu í ræktinni. Skildu iPodinn eftir heima þegar þú ferð í göngutúr. Skoðaðu tölvupóstinn á ákveðnum tímum, t.d. tvisvar eða þrisvar á dag, en ekki í hvert skipti sem hann dettur inn.

Vonandi verður árangurinn meiri afköst, betri líðan, meiri einbeiting og minni streita.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 19. desember 2016.