Kjarnahæfileikar

Í fjölda bóka um stjórnun hefur verið fjallað um mikilvægi þess að starfsfólk fái hrós og viðurkenningu fyrir vel unnin störf.

Í bókinni Mínútustjórnun eftir Kenneth Blanchard og Spencer Johnson er því lýst hvernig hægt er að gera það á einni mínútu með því að horfa í augu fólks, snerta það o.s.frv. Hvatning virðist nær alltaf fjalla um hinn aðilann, um það hvernig maður getur hvatt aðra. Stjórnandinn er talinn vera einhvers konar "hvatningarvél" sem hægt sé að kenna eða réttara sagt forrita til að hvatning hans hafi sem best áhrif á aðra. Sjaldan er rætt um þarfir og nauðsyn stjórnandans til að ná sambandi við sjálfan sig eða aðra og hvernig hann geti fundið eigin hvatningu.

Stjórnandinn er ábyrgur fyrir eigin hvatningu og innblæstri. Hann veit að besta framlag hans til annarra er að læra að þekkja sjálfan sig. Því betur sem hann þekkir sjálfan sig því færari er hann í að skilja aðra og því betur getur hann tekið að sér hlutverk leiðbeinandans. Mikilvægasta ábyrgð stjórnandans liggur því í að hann þroskist sjálfur. Þekking á sjálfum sér þýðir m.a. að stjórnandinn veit í hverju hann er góður og í hverju kjarnahæfileikar hans eru fólgnir. Fyrir utan innsýn í jákvæða hæfileika er einnig mikilvægt fyrir hann að hafa innsýn í þau atriði sem betur mega fara. Að læra að þekkja eigin hæfileika og annarra er ekki aðeins gagnlegt fyrir stjórnandann sjálfan því hópar, deildir og fyrirtæki hafa einnig kjarnahæfileika og eiginleika sem gagnlegt er að þekkja.

Kjarnahæfileikar
Kjarnahæfileiki er sérstakur hæfileiki sem okkur dettur fyrst í hug þegar við hugsum um viðkomandi einstakling. Dæmi um kjarnahæfileika er framtakssemi, þor, skipulagshæfni, hluttekning, sveigjanleiki, ýtni, hroki o.s.frv. Kjarnahæfileika má m.a. þekkja á svörum viðkomandi einstaklings um eigin kjarnahæfileika en hann segir gjarnan: "Allir gætu gert þetta." En í raun geta það ekki allir og ef við tækjum þennan kjarnahæfileika burt þekkti fólk viðkomandi persónu ekki lengur. Ástæðan er að þessi eini kjarnahæfileiki gagntekur aðra hæfileika sem eru síður áberandi.

Kjarnahæfileiki er alltaf til staðar. Ekki er hægt að slökkva eða kveikja á honum eftir þörfum en hægt er að fela hann. Greinarmunurinn á hæfileika og færni liggur aðallega í því að hæfileikar koma innan frá á meðan færni er lærð utan frá. Því tileinkar maður sér færni og þroskar hæfileika.

Því skýrari mynd sem við höfum af kjarnahæfileikum okkar því auðveldara er að láta þá koma fram á meðvitaðan hátt í hinu daglega amstri. Sá sem hefur til dæmis "þrautseigju" sem kjarnahæfileika veit að hann getur staðið sig vel, einkum í aðstæðum sem krefjast úthalds. Hann veit einnig að hann á alltaf að geta sýnt þrautseigju, bæði í vinnu og í einkalífi.

Kjarnahæfileikinn og gryfjan
Hver kjarnahæfileiki hefur sína ljósa og sína dökka hlið. Dökka hliðin er kölluð afmyndun. Afmyndun er ekki andstaða kjarnahæfileikans á sama hátt og "sterkur" er andstaðan við "veikur". Afmyndun er það sem kjarnahæfileiki breytist í sé honum beitt of mikið. Kjarnahæfileikinn "hjálpsemi" getur orðið að "afskiptasemi" séu menn of hjálpsamir. Þannig verður kjarnahæfileiki eða styrkleiki einhvers að veikleika hans eða gryfju.

Í daglegu tali heitir það "of mikið af því góða". Einhver sem er vandvirkur á það til að vera of vandvirkur og því smámunasamur. Gryfja einhvers er stimpillinn sem viðkomandi fær reglulega frá öðrum. Sem dæmi er stundum sagt um þá sem hafa kjarnahæfileikann "framtakssemi" að þeir eigi ekki að vera svona "ýtnir".

Hvort sem það er réttmætt eða ekki tilheyra gryfjan og kjarnahæfileikinn hvort öðru eins og birta og skuggi. Erfitt getur verið að viðurkenna skuggahliðina á sjálfum sér, sérstaklega ef í ljós kemur að maður er ekki eins fullkominn og maður hefur talið sér trú um. Að læra að umgangast kjarnahæfileika og afmyndun þeirra getur verið lærdómsríkt og spennandi ferli.

Kjarnahæfileikinn og áskorunin
Fyrir utan tilheyrandi gryfju fær hver persóna einnig "áskorun" gefins. Áskorunin er jákvæð andstaða gryfjunnar. Áskorunin "þolinmæði" fylgir t.d. gryfjunni "ýtni".

Eins og myndin hér að ofan sýnir bæta kjarnahæfileikinn og áskorunin hvort annað upp. Málið snýst þannig um að finna jafnvægi milli framtakssemi og þolinmæði. Ef framtakssemin er of mikil er líklegt að hún verði að ýtni. Með öðrum orðum; til að koma í veg fyrir að menn detti í gryfjuna er mikilvægt að þróa áskorunina.

Að finna jafnvægi þýðir að maður þarf að hugsa "og/og" en ekki "annaðhvort/eða". Listin er að vera bæði framtakssamur og þolinmóður. Þetta snýst þannig ekki um að vera framtakssamari vegna þess að þá er hætta á ýtni, heldur um þolinmóða framtakssemi. Sá sem er þolinmóður og framtakssamur á ekki á hættu að verða ýtinn; það er eðlileg afleiðing þess að hann er "heill" á þessu sviði. Mönnum reynist oft erfitt að sjá hvernig þessir tveir hæfileikar geta farið saman, þ.e. oft snýst þetta annaðhvort um þolinmæði eða framtakssemi. Þá er litið á báða hæfileikana sem andstæður frekar en hæfileika sem bæta hvorn annan upp.

Oft eru gryfja og áskorun uppspretta ágreinings sem viðkomandi á í við fólk í kringum sig. Ágreiningur, deilur og spenna orsakast oft af blindni á eigin hæfileika og hæfileika annarra.

Kjarnahæfileikinn og ofnæmið
Út frá kjarnahæfileika einhvers er oftast hægt að spá fyrir um á hvaða sviði megi búast við mögulegum ágreiningi í samskiptum við aðra. Meðalmaðurinn virðist nefnilega vera "með ofnæmi" fyrir of miklu af eigin áskorun, sérstaklega ef hann sér of mikið af henni í annarri manneskju.

Framtakssamur einstaklingur hefur þannig tilhneigingu til að æsast upp þegar hann mætir aðgerðaleysi hjá annarri manneskju. Hann er með ofnæmi fyrir aðgerðaleysi vegna þess að hún er of stór þáttur af áskorun hans þ.e. þolinmæði. Hann veit oftast ekki hvernig hann á að bregðast við.

Því meira sem maður mætir eigin ofnæmi í öðrum því meira aukast líkurnar á að lenda í eigin gryfju. Einstaklingur með "framtakssemi" sem kjarnahæfileika á þá á hættu á að vera enn ýtnari og saka hinn aðilann um aðgerðaleysi. Þannig skapast vítahringur sem erfitt getur reynst að komast út úr án aðstoðar þriðja aðila. Báðir einstaklingar eiga það á hættu að lenda í erfiðum ágreiningi. M.ö.o. þegar maður mætir ofnæmi sínu í annarri manneskju er hætta á að falla í eigin gryfju. Það sem gerir okkur viðkvæm er ekki gryfjan heldur ofnæmi okkar, ofnæmið sem fellir mann í gryfjuna.

Kjarnaferhyrningurinn er hjálpartæki til að uppgötva kjarnahæfileikann og áskorunina í okkur sjálfum og öðrum. Hann sýnir okkur einnig að það er mjög líklegt að leiðtogi geti lært mest af því fólki sem honum geðjast síst að (er með ofnæmi fyrir), m.ö.o. stjórnandi getur oft lært mest (um sjálfan sig) af þeim sem hann á erfiðast með að umgangast.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 14. júní 2000.