Ertu alveg viss?

Hugsanavilla er ályktun, trú, niðurstaða, ákvörðun eða tilfinning sem brenglar skynjun okkar og hefur áhrif á skoðanir okkar og ákvarðanir. 

Við erum oft fullkomlega ómeðvituð um það sem hefur áhrif á skoðanir okkar. Í menningu okkar leggjum við mikla áherslu á fordómaleysi, hlutleysi, rökvísi og skynsemi. Frá blautu barnsbeini reynum við að beita skynsemi og finna „rétta“ svarið. Við viljum trúa því að við greinum hluti faglega og byggjum skoðanir okkar og hegðun á réttum ályktunum. Raunveruleikinn er hins vegar oft annar.

Hér fyrir neðan eru dæmi um nokkrar tegundir af hugsanavillum:

Réttlætingarvillan 
Hér er um að ræða tilhneiginguna til að veita sönnunum og röksemdum sem staðfesta manns eigin niðurstöðu athygli, og virða á sama tíma að vettugi sannanir sem sýna hið gagnstæða. Við leitum með öðrum orðum rökstuðnings sem hentar okkar málstað. Þetta skýrir til dæmis að hluta til tilhneigingu margra til að halda tryggð við einn og sama stjórnmálaflokkinn, sama hvað á dynur. Þegar við tökum ákvörðun erum við ekki mjög hrifin af því að skipta um skoðun.

Sannfæringarvillan
Sannfæringarvillan er tilhneiging sumra að styrkjast í sinni skoðun eða sannfæringu þegar yfirgnæfandi sannanir berast um hið gagnstæða. “Mér er alveg sama hvað þessir svokölluðu sérfræðingar segja, þessar loftslagsbreytingar eru bara bull.”

Eftirhyggjuvillan
Þetta er tilhneigingin að líta til baka á atburði eða aðstæður og halda því fram að þú hafir skilið þær betur en þú í raun gerðir. „Ég vissi alveg að þetta myndi gerast vegna þess að...“

Tengslavillan
Tilhneigingin að trúa eða vera sammála hugmyndum þeirra sem þér líkar við eða lítur upp til, og virða að vettugi eða vera ósammála þeim sem þér líkar ekki við. „Hann er góður karl og flottur leikari, ég er viss um að hann verði góður ráðherra.“

Mótþróavillan
Mótþróavillan er tilhneigingin til að gera hið gagnstæða af því sem einhver ráðleggur þér að gera eða vill fá þig til að gera. Þetta endurspeglar yfirleitt vilja til að halda sjálfstæðinu og áhyggjur af því að láta ráðskast með sig, missa stjórn eða verða tilneydd til að gera eitthvað. „Ég ætla sko ekki að fara að hreyfa mig af því að læknirinn sagði mér að gera þetta.“

Lygavillan
Fjölmiðlar og í seinustu tíð samfélagsmiðlar bjóða endalaus tækifæri fyrir fólk til að mynda sér skoðanir og draga ályktanir sem geta verið fullkomlega rangar. Flokksholl stjórnmálaleg fjölmiðlun er sem dæmi oft morandi af alls kyns sönnunum sem sýna bara aðra hlið málsins, brengla staðreyndir, og segja jafnvel lygar. Um leið og kolrangri „staðreynd“ er komið í umferð fer hún að lifa sjálfstæðu lífi og öðlast stöðu óumdeilanlegs sannleika. Okkur reynist oft erfitt að sannreyna réttmæti eða sennileika fréttanna. 

 „Hinir vitleysingarnir“-villan
Tilhneigingin að halda að aðrir gerist sekir um fleiri hugsanavillur en við sjálf.  

Besta leiðin til að forðast hugsanavillur er að vera vakandi fyrir eigin hugsanavillum og hugsanavillum annarra. 

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 4. ágúst 2014.