Að þróa með sér jákvætt viðhorf

Margir eru þeirrar skoðunar að viðhorf þeirra sé afleiðing ytri aðstæðna. Þeir gleyma því að viðhorf okkar er afleiðing þess hvernig við ákveðum að túlka það sem gerist í kringum okkur.

Tökum sem dæmi veðrið. Margir hér á Íslandi láta t.d. haglél eða snjókomu hafa neikvæð áhrif á skapið. Og skipta aftur um skap þegar sólin tekur að skína. Tökum síðan fólk sem býr í Kaliforníu þar sem eru 360 sólskinsdagar á ári. Einn góðan dag í nóvember dró skyndilega fyrir sólu. Það varð dimmt og síðan kom haglél. Börnin þeyttust út og fögnuðu á meðan haglið féll til jarðar. Sami atburðurinn, mismunandi túlkun.

Viðhorf okkar er sía sem ræður því hvernig við lítum á heiminn. Þegar maður velur að finnast rigning leiðinleg upplifir maður slæman dag þegar það rignir. Sumir sjá alltaf sólina í gegnum skýin á meðan aðrir sjá dökku hliðarnar á þessu eina skýi á himninum. Flestir eru kannski einhvers staðar mitt á milli. Hér að neðan eru tíu leiðir sem geta gagnast við að þróa með sér jákvæðara viðhorf:

Leið 1: Endurskilgreindu merkingu ytri aðstæðna
Margir láta ytri aðstæður hafa neikvæð áhrif á skap sitt. Listin er að breyta þessum atburðum í eitthvað jákvætt. Þegar maður lendir t.d. í umferðarteppu gæti verið gott að hugsa hversu skynsamlegt það hafi verið að leggja svona tímanlega af stað. Einnig er hægt að líta á mótlæti sem tækifæri til að læra. Henry Ford sagði einu sinni: “Mótlæti er tækifæri til að byrja upp á nýtt, en með aðeins meira vit í farteskinu.”

Leið 2: Byrjaðu daginn á einhverju jákvæðu
Byrjaðu daginn á einhverju jákvæðu, t.d. kafla í uppbyggilegri bók eða skemmtilegu myndbandi. Hressandi tónlist virkar einnig vel þar sem hún kemur manni ósjálfrátt í gott skap.

Leið 3: Forðastu neikvæð skilaboð
Maður þarf ekki meira en bara að skoða blöðin til að fá stóran skammt af upplýsingum sem láta manni líða illa. Mun minna er af uppbyggilegum og jákvæðum fréttum. Blaðamaður spurði Sam Walton, stofnanda Wal Mart, einu sinni út í kreppuna. Hann svaraði: “Kreppa, ég tek ekki þátt í henni.” Gott er að forðast neikvæð skilaboð og fóðra sig á jákvæðu efni. 

Leið 4: Forðastu neikvætt fólk
Rannsóknir hafa sýnt að foreldrar hafa frekar lítil áhrif á hegðun barna sinna. Í gegnum genin erfa þau í kringum 50% af persónuleikanum. Restin ræðst af ytra umhverfinu – skólanum og vinum. Þannig virkar það einnig hjá fullorðnu fólki.  Við látum smitast af neikvæðu viðhorfi annarra án þess að átta okkur á því. Fýlupúkar eru orkusugur sem hafa þann eiginleika að draga aðra niður með sér. Forðastu fólk sem á það til að nöldra, kvarta og klaga og taktu ekki þátt í nöldrinu.

Leið 5: Talaðu af öryggi
Bjartsýnt fólk talar af öryggi. Það segir t.d. ekki: “Ég gæti kannski reynt að sjá hvort þetta virki hugsanlega.” Orðaval okkar getur haft áhrif á skapið og orkustigið. Segðu ekki: “Þetta er erfitt, ég veit ekki hvort ég geti það.” Segðu frekar: “Þetta verður örugglega ekki einfalt. Ég ætla að gera það sem í mínu valdi stendur til að láta það takast.” Forðastu orð eins og “en” og “reyna”, sem gefa til kynna að þú hafir ekki stjórn á aðstæðunum.

Leið 6: Breyttu hugsunum þínum
Sumir hafa tilhneigingu til að hafa áhyggjur og dvelja við neikvæðar hugsanir. Þessi straumur neikvæðra hugsana getur orðið að vítahring sem erfitt er að brjóta. Bjartsýnt fólk hefur annað viðhorf: það réttir úr sér, gengur hraðar og með meiri orku. Temdu þér bjartsýni jafnvel þó að þér líði ekki þannig. Það er líka alltaf hægt að finna eitthvað jákvætt í erfiðleikum eða neikvæðri reynslu.

Leið 7: Einblíndu á það sem þig langar að gera
og ekki á það sem þig langar ekki að gera. Þegar tekist er á við vandamál er hægt að hugsa um hversu slæmt ástandið er og hversu mikið það getur versnað, en það gerir ekki gagn og kostar þar að auki mikla orku. Einblíndu frekar á það hvernig þú getir breytt aðstæðum þínum. Gerðu einnig hluti sem þú hefur ánægju af því oft eru það hlutir sem þú gerir vel og gefa lífinu tilgang.

Leið 8: Einblíndu á framtíðina
Sumir geta ekki slitið sig frá fortíðinni. Þeir leita að sökudólgum og aðstæður þeirra eru alltaf einhverjum öðrum um að kenna. Mikilvægt er að átta sig á því hvar maður er í dag og hvert mann langar. Síðan að búa til skýra mynd í huganum og láta svo verkin tala.

Leið 9: Einblíndu á lausnir
Þegar maður stendur andspænis áskorun er miklu skynsamara að einblína á lausnina en vandamálið. Vandamál eru óþægilegar hindranir sem geta komið í veg fyrir að maður sjái takmarkið. Um leið og maður einblínir á lausn er maður farinn að vinna á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

Leið 10: Dragðu lærdóm af neikvæðri reynslu
Neikvæð reynsla felur oft í sér mikilvægan lærdóm. Þeir sem dvelja við fortíðina festast í sama farinu, fá sömu neikvæðu útkomuna og halda áfram að kvarta. Albert Einstein sagði einu sinni: “Það er ekkert skýrara merki um geðveiki en að gera sömu hlutina aftur og aftur og vænta þess að útkoman verði öðruvísi.” Dragðu lærdóm af neikvæðri reynslu með því að gera lista yfir nýja innsýn sem þessi reynsla gefur þér.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman