Hvernig borð vill Bára? - af íslenskum orðatiltækjum

Íslenskan er full af orðatiltækjum sem setja skemmtilegan blæ á samskiptin. Þau auðga og skreyta málið en Bibba á Brávallagötunni á það til að stinga sér niður enda getur verið erfitt að fóta sig í heimi orðatiltækjanna því margir þekkja ekki hver upprunaleg merking þeirra er. Dæmi um skemmtilegt orðatiltæki er „að eiga borð fyrir báru“.

Auðvelt er að ímynda sér að hana Báru vanti borð en orðatiltækið er komið úr sjómannamáli og vísar til þess að alltaf verður að vera nægilega mikið borð (spýta í árabát) til að taka ölduna sem skellur á bátnum. Ef ekki er gert ráð fyrir bárunni þá fyllist báturinn auðvitað af sjó og sekkur! 

Eitt skemmtilegasta orðatiltækið sem mikið er notað er „að leggja höfðið í bleyti“. Það er auðvitað nokkuð sérstakt að leggja höfuðið í bleyti ef maður vill hugsa eitthvað. Skýringin á þessu er byggð á lélegri þýðingu úr dönsku „að lægge sit hoved i blød“, en það merkir að menn leggja höfuðið á eitthvað mjúkt, t.d. kodda, og hugsa djúpt. En blød var einfaldlega þýtt á íslensku sem bleyti! 

Í þessum klukkustundarlanga fyrirlestri er farið yfir algeng rammíslensk orðatiltæki sem allir hafa gagn og gaman af að þekkja. Margt er bráðfyndið.

Fyrirlesari: Eyþór Eðvarðsson, MA í vinnusálfræði, þjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun