Af kynslóðabilunum og öðrum bilunum í samskiptum fólks

Það er hreint með ólíkindum hvað kynslóðirnar eru ólíkar. Eldgamla liðið sem fætt er fyrir 1943 mætir bara á réttum tíma, hlýðir öllum og meira að segja lögunum. Ofdekraða kynslóðin (1981-2000) nennir ekki neinu nema vera í tölvum og safna stigum, hlýðir ekki nema stundum og vill láta skutla sér.

Skyndikynslóðin (1961-1980) vill helst ekki gera neitt nema dekra við ofdekruðu kynslóðina enda gerði hún hana ofdekraða með því að vera endalaust að skutla henni og hafa ofan af fyrir henni. Skyndikynslóðinni er auðvitað vorkunn enda hefur hún ekki borðað matarbita í mörg ár og nærist eingöngu á fæðubótarefnum. Ofdekruðu kynslóðinni er svo sem vorkunn líka því hún þurfti að vera í fótbolta, ballett, tónlist, handbolta, körfu, kór og hvað þetta allt hét. Hún þurfti að gera allt það sem skyndikynslóðin sjálf gat ekki fengið því eldgamla kynslóðin var alltaf að vinna enda vinnan dyggð. Ábyrgðarlausa kynslóðin fór með allt til fjandans, eða var kannski allt farið til fjandans? En sem betur fer þá er okkar kynslóð ekki með neina vitleysu og eins og einhver sagði þá eru vitleysingarnir allir á hinni vaktinni. Ekki að furða að allt sé á niðurleið. 

Í fyrirlestrinum er farið á fræðilegan og háalvarlegan hátt yfir rannsóknir á kynslóðabilunum. Niðurstaða hennar er að það er með ólíkindum að þetta skuli geta gengið.

Fyrirlesari: Ingrid Kuhlman, MSc í hagnýtri jákvæðri sálfræði, þjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun (skyndikynslóðin)