Veljum meðvitað hegðun sem ýtir undir jákvæðar tilfinningar

Hegðun okkar getur haft bein áhrif á tilfinningar okkar og viðhorf. Með því að velja meðvitað hegðun sem ýtir undir jákvæðar tilfinningar getum við haft veruleg áhrif á tilfinningalegt ástand okkar og almenna vellíðan.

Þegar við sýnum ákveðna hegðun túlkar heilinn hana sem merki um hvernig okkur ætti að líða. Til dæmis, ef við brosum, jafnvel þótt við séum ekki sérlega glöð, túlkar heilinn brosið sem vísbendingu um hamingju og byrjar að skapa jákvæðar tilfinningar. Hlátur, hvort sem hann er ósvikinn eða gervihlátur, getur hrundið af stað losun endorfíns og annarra taugaboðefna sem fá mann til að líða vel.

Kraftstöður auka sjálfsöryggi

Amy Cuddy, sem er félagssálfræðingur, gerði rannsóknir á því hvernig líkamstjáning getur haft áhrif á tilfinningar okkar og sjálfstraust, t.d. áður en maður fer í atvinnuviðtal eða heldur ræðu. Hún komst að því að það að taka „kraftstöðu“ í aðeins nokkrar mínútur getur aukið testósterón og minnkað kortisól, en ofangreind hormón tengjast aukinni sjálfsöryggistilfinningu og minni neikvæðum áhrifum streitu. Algengar kraftstöður eru að standa með fæturna í sundur, setja hendurnar á mjaðmirnar eða mittið og ýta bringunni út. Þessi staða er oft tengd tilfinningu um styrk og sjálfstraust. Einnig má nefna sigurstellinguna en þá lyftir maður upp handleggjunum í V-formi, svipað og sigursæll íþróttamaður fagnar sigri, en þessi staða er tengd tilfinningu fyrir árangri og krafti.

Jákvæð hegðun skapar jákvæða endurgjöf

Að leggja áherslu á jákvæða hegðun getur skapað jákvæða endurgjöf. Þegar við gerum eitthvað sem leiðir til jákvæðrar niðurstöðu styrkir það jákvæðar tilfinningar. Ef við sem dæmi hreyfum okkur reglulega og lifum heilbrigðum lífsstíl er líklegt að við upplifum bætta líkamlega og andlega vellíðan, sem aftur getur gert okkur hamingjusamari. Líkamleg áreynsla er þekkt fyrir að losa endorfín, sem er náttúrulegt geðlyf.

Samkvæmt sjálfsskynjunarkenningunni ályktum við oft um viðhorf okkar og tilfinningar út frá hegðun okkar. Þetta þýðir að með því að fylgjast með því sem við gerum myndum við skoðanir á okkar eigin tilfinningum og viðhorfum. Ef við sinnum til dæmis reglulega sjálfboðaliðastarfi lítum við á okkur sem samúðarfulla og umhyggjusama manneskju, sem getur leitt til aukinnar hamingju og ánægju.

Tenging hugar og líkama

Líkamlegar aðgerðir okkar hafa áhrif á lífeðlisfræðilegt ástand okkar. Djúp öndun og slökunaræfingar geta til dæmis hjálpað til við að draga úr neikvæðum áhrifum streitu og kvíða. Þannig getum við haft áhrif á tilfinningaleg og lífeðlisleg viðbrögð okkar. Líkamleg snerting, eins og að knúsa ástvin, getur losað oxýtósín, oft nefnt „ástarhormónið“ eða „tengslahormónið“. Knús og snerting geta ýtt undir tilfinningar um tengsl, traust og hamingju.

Sjónsköpun

Önnur aðferð sem getur ýtt undir jákvæðar tilfinningar er sjónsköpun (e. visualisation) en í því felst að við notum ímyndunaraflið til að sjá fyrir okkur velgengni eða jákvæða niðurstöðu. Þannig er hægt að auka sjálfstraust og bjartsýni, sem getur aftur leitt til jákvæðra tilfinninga. Klassískt dæmi er þegar sundmaður ímyndar sér sundlaugina fyrir keppni og sér fyrir sér ferlið eins og t.d. þegar keppnin er ræst og hann kafar í vatnið. Hann upplifir keppnina í huganum, sér sjálfan sig sigrast á áskorunum, eins og t.d. þreytu eða því að vera á eftir keppanda, og ímyndar sér að sigrast á þessum hindrunum með styrk og festu. Hann sér fyrir sér að snerta sundlaugabakkann og ná tilætluðum árangri og finnur fyrir árangurstilfinningum eins og gleði, stolti og ánægju. Sjónsköpun virkar vegna þess að heilinn gerir ekki mikinn greinarmun á raunverulegri og ímyndaðri upplifun. Þess vegna getur sjónsköpun örvað sömu taugabrautir og upplifun atburðarins og haft þar með áhrif á hugsanir, tilfinningar og hegðun.

Með því að velja meðvitað hegðun sem ýtir undir jákvæðar tilfinningar getum við stuðlað að bættri líkamlegri og andlegri líðan, aukinni bjartsýni og meiri seiglu.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Greinin birtist á heimildin.is 21. desember 2023.