Vá-tilfinningin

Viðhorf okkar spilar stórt hlutverk á öllum aldri og öllum lífsskeiðum. Það getur verið besti vinur okkar en einnig okkar versti óvinur.

Það eru í raun tvær leiðir til að líta á nærri allt það sem við tökum okkur fyrir hendur. Svartsýnismenn reyna að finna erfiðleikana í tækifærinu á meðan einstaklingar með jákvæða og uppbyggilega lífssýn leita að tækifærunum í erfiðleikunum.

Svartsýnir trúa því að erfiðleikar vari í langan tíma. Þeir gera lítið úr flestu og hafa neikvætt viðhorf til tilverunnar. Þeir eru á móti því að stofna áhugafélag svartsýnismanna vegna þess að þeir eru sannfærðir um að það muni ekki virka! Það sem einkennir bjartsýnismenn á hinn bóginn er að þeir eru meðvitaðir um hindranir en leita lausna, vita af erfiðleikum en telja að hægt sé að vinna bug á þeim, sjá gallana en einblína á kostina, eru útsettir fyrir því versta en búast við því besta, hafa ástæðu til að kvarta en kjósa að brosa. 

Neikvæðni veldur vanheilsu
Neikvætt hugarfar og óhamingja valda sjúkdómum og vanheilsu. Menn geta valdið sér veikindum með hugsunum sínum. Rannsóknir hafa sýnt að svartsýnir gefast auðveldar upp og glíma oftar við þunglyndi. Þeim gengur ekki eins vel í skóla, starfi og leik. Heilsa þeirra er ekki eins góð og þeir upplifa oftar líkamlega kvilla. Samkvæmt rannsókn John Hopkins árið 2001 er jákvætt viðhorf besta vörnin fyrir fólk í áhættuhópi fyrir hjartasjúkdóma. Þeir sem voru með jákvætt viðhorf voru helmingi ólíklegri til að verða fyrir ótímabært andlát, hjartaáfall eða hjartaverki. Niðurstöðurnar voru óháðar aldri, kynþætti eða kyni. Í rannsókn háskólans í Toronto frá árinu 2001 sagðist 60% kvenna sem höfðu lifað af brjóstakrabbamein vera sannfærðar um að jákvætt viðhorf hefðu haldið þeim heilbrigðum eftir að þær læknuðust. 

Við uppskerum eins og við sáum
Margir búast við því versta og verða sjaldnast fyrir vonbrigðum; þeir sá neikvæðni og uppskera í samræmi við það. Lýsandi dæmi um það er um konu með nýrnasjúkdóm sem var sett á biðlista til að láta fjarlægja annað nýrað. Eftir að hún var svæfð gerðu læknarnir síðustu rannsóknina og þá kom í ljós að það var ekki nauðsynlegt að framkvæma uppskurðinn. Nýrað var ekki tekið en þegar konan vaknaði var það fyrsta sem hún sagði: „Ah, mig verkjar svo í bakinu, þetta er svakalega sárt, ah, mér líður svo illa.” Hún bjóst við að finna fyrir verkjum þegar hún vaknaði og það var nákvæmlega það sem gerðist. 

Óbilandi trú
Uppbyggilegt viðhorf hefur jákvæð áhrif á frammistöðu okkar á öllum sviðum lífsins. Samkvæmt höfundinum og fyrirlesaranum Walter Hailey eru innflytjendur til Bandaríkjanna fjórum sinnum líklegri til að verða milljónamæringar en innfæddir, sama hvaðan innflytjendurnir koma. Þeir ná þessum áfanga þrátt fyrir hindranir vegna lélegrar tungumálakunnáttu, skorts á tengslaneti, menningarmunar og aðskilnaðar frá fjölskyldu. Ástæðan er að þeir verða fyrir miklum hughrifum þegar þeir lenda í Bandaríkjunum. Þeir trúa varla sínum eigin augum. Þeir sjá fegurð, lúxus og tækifæri sem þá hefði ekki getað dreymt um. Þeir upplifa „vá-tilfinninguna“ hvert sem þeir fara. Þeir eru furðulostnir yfir magni atvinnuauglýsinganna í blöðunum og byrja af ákafa að sækja um. Þeir átta sig á því að þeir fá aðeins lágmarkslaun en vita þó að lágmarkslaunin í Bandaríkjunum eru hámarkslaun samanborið við mörg önnur lönd. Þeir eru tilbúnir til að lifa ódýrt og fá sér ef með þarf aukavinnu. Þeir leggja mikið á sig, sýna ótrúlegan sjálfsaga, eru sparsamir og fórna ýmsu. Þeir taka ábyrgð á því að framtíðin verði eins björt og þeir sjálfir kjósa. Þeir hafa óbilandi trú á að þeir muni yfirvinna allar hindranir.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 22. apríl 2014.