Þekkingartap í uppsögnum

Þetta eru umbreytingatímar fyrir marga vinnustaði. Fyrir utan þann tilfinningalega skaða sem hlýst af uppsögnum er einnig um að ræða áþreifanlegan kostnað þegar margra ára þekking og reynsla fer út.

Mikil hætta er á að uppsagnir geti skapað ófyrirséð vandamál þegar fólk með verðmæta þekkingu hverfur á brott.

Uppsagnir geta haft áhrif á menninguna á þann hátt að þekkingunni er ekki deilt og hagnýtt eins vel og áður. Oft eykst álagið eftir uppsagnir á meðan þekkingarstarfsmönnum fækkar, sem þýðir að þekkingin þynnist út.

Tap á leyndri þekkingu
Til eru tveir flokkar þekkingar: ljós þekking („know what”) og leynd þekking („know how”). Ljós þekking er oft sýnileg og hana er hægt að geyma í gagnagrunnum og skjölum. Leynd þekking er oft ósýnileg og á rætur sínar að rekja til reynslu, lífsgilda og tilfinningarinnar að „svona eigi að gera hlutina”. Þegar kemur að þekkingartapi í uppsögnum er mikilvægt að huga að eftirfarandi atriðum:

  1. Mannlegri þekkingu –því sem starfsmenn vita eða kunna.
  2. Félagslegri þekkingu (tengsl) –því hvernig vinnustaðurinn deilir þekkingu, byggir upp tengsl og vinnur saman sem heild.
  3. Menningarlegri þekkingu - því hvernig vinnustaðir nýta sameiginlega þekkingu og hver gildi þeirra eru.
  4. Ferlum og kerfum –varðar áþreifanlega þekkingu sem byggist á reglum.

Yfirleitt eru vinnustaðir ekki vel undirbúnir þegar kemur að fyrstu þremur atriðunum sem flokkast sem leynd þekking.

Sem dæmi um fyrirtæki sem stendur sig vel í að halda í þekkingu á þessum umrótatímum er Toyota Motor Company. Stjórnendur þar þurftu að draga verulega úr framleiðslu vegna minnkandi eftirspurnar. Ákveðið var að láta hæfileikaríka starfsmenn verja tíma í þjálfun og taka þátt í umbótaverkefnum, eitthvað sem þeir höfðu ekki mikinn tíma til þegar allt var á uppleið. Forstjóri fyrirtækisins segir að það sé fjarstæða að halda að leiðin upp á við verði auðveld ef starfsfólki er sagt upp en þurfi svo að fara í gegnum endurráðningu og þjálfun nokkrum mánuðum seinna. 

Að sjálfsögðu komast ekki allir vinnustaðir hjá því að segja upp. Í þeim tilfellum er mikilvægt að tryggja að verðmæt og nauðsynleg þekking tapist ekki með því að:

  • Skilgreina hvaða þekking er mikilvæg hlutverki og samkeppnisforskoti vinnustaðarins.
  • Ákveða kerfisbundið hverjum er sagt upp þannig að þeir sem búa yfir mikilvægri þekkingu séu ekki á listanum.
  • Koma fram af virðingu við þá sem fá uppsagnarbréfið. Það gæti þurft að endurráða þá seinna.

Í öllum krísum felast tækifæri. Niðursveiflan og uppsagnirnar geta haft þau áhrif að vinnustaðir verði miklu leiknari í að safna, varðveita, deila og hagnýta þekkingu. Þetta gæti fleytt þeim áfram næstu áratugina. 

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 28. apríl 2009.