Temjum okkur jákvætt og þakklátt lífsviðhorf

Það eru margar góðar ástæður fyrir því að temja sér jákvætt og þakklátt lífsviðhorf. Raunverulegt þakklæti felur í sér að koma auga á og þakka fyrir hið sjálfsagða, það sem er allt í kringum okkur alltaf og við höfum tilhneigingu til að taka sem gefnu.

Þakklæti ber að rækta eins og allt annað. Hér fyrir neðan eru fimm atriði sem geta hjálpað þér við að bera kennsl á hvað þú ert þakklát(ur) fyrir. 

1. Þitt Plan B
Ímyndaðu þér að þú eigir við hlaupameiðsli að stríða. Hlaup hafa vanalega góð áhrif á streitulosun hjá þér en nú kemstu ekki út að hlaupa í nokkrar vikur, sem er vissulega svekkjandi. Gott er þó að hafa í huga að í staðinn fyrir að hlaupa ertu fær um að gera t.d. fjölbreyttar styrktar- eða teygjuæfingar. Þú getur valið að vera þakklát(ur) fyrir að hafa plan B.

Við einblínum oft það mikið á að geta ekki framkvæmt plan A að við vanrækjum gjarnan að átta okkur á því hversu heppin við erum að hafa plan B. Það er kannski ekki í fyrsta sæti hjá okkur en stundum getur plan B fært okkur óvæntar uppgötvanir og persónulegan vöxt.

2. Verð að gera eða Fæ að gera
Stundum pirrumst við á ábyrgð okkar. Þegar það gerist er gott að breyta því hvernig við hugsum og tjáum okkur. Í stað þess að hugsa „Ég verð að skrifa grein“ er gott að snúa þeirri hugsun við með því að segja „Ég fæ að skrifa grein“. Ég upplifi það sem dæmi sem gífurleg forréttindi að fólk vilji lesa ráð mín og að ég hafi vettvang til að ná til lesenda. Ég hef líka lagt mikið á mig til að öðlast þekkingu mína og er þakklát fyrir að hún nýtist öðrum.

Ímyndaðu þér að þú sért með samstarfsmann sem á í einhverjum erfiðleikum. Í stað þess að hugsa „Ég verð að styðja Magga“, reyndu þá að hugsa „Ég fæ að styðja Magga.“ Þú hefur líklega frábært tækifæri til að laða fram það besta í Magga og hjálpa honum við að bæta frammistöðu sína.

3. Að vera ófullkomin(n) án mikilla afleiðinga
Við ásökum okkur oft og berjum okkur í huganum fyrir andlausa hegðun eins og að hámhorfa á heila þáttaröð í einni setu. Þú gætir sagt við sjálfan þig: „Í stað hámhorfs hefði ég átt að mála bílskúrinn eða elda þennan nýja grænkerarétt sem mig hefur lengi langað til að matreiða.“

Að vera ofurgagnrýninn á sjálfa(n) sig er ekki líklegt til að leiða til minna sjónvarpsgláps. Það er auk þess gott að hafa í huga að lífið gerir okkur kleift að vera ófullkomin og eiga samt möguleika á að fylgja markmiðum okkar. Að horfa á ofgnótt sjónvarpsefnis kemur ekki í veg fyrir að þú getir matreitt grænkerarétt eða málað bílskúrinn. Lífið veitir næg tækifæri til að gera hvort tveggja og það er sannarlega ástæða til að vera þakklát(ur) fyrir.

4. Gnægð
Þegar fólk er í viðkvæmri stöðu er það oft upptekið af því sem það skortir. Þegar það gerist er gott að reyna að sjá gnægðina sem þú hugsanlega missir af. Ef þú fékkst sem dæmi ekki starfið sem þú sóttist eftir eða þegar sá eða sú sem þú varst í rómantísku sambandi með ákveður að hætta með þér, reyndu þá að hugsa um öll þau fjölbreyttu og spennandi störf þarna úti og allt það fólk sem hægt er að elska - það eru fleiri fiskar í sjónum.

5. Færni sem hjálpar þér að bæta upp veikleika
Við höfum öll styrkleika og veikleika. Ef þú ert ekki góð(ur) í einhverju er auðvelt að festast í því. Þegar það gerist lítur þú hugsanlega fram hjá því hvernig þú notar aðra færni til að bæta upp veikleikana og koma því í framkvæmd sem skiptir þig máli. Reyndu að bera kennsl á þá færni sem hjálpar þér við að sigrast á veikleikum þínum og vertu þakklát(ur) fyrir hana. Þegar kvíðinn yfirbugar þig sem dæmi er gott að velta fyrir þér hvaða færni gæti hjálpað þér við að takast á við hann? Hvernig endurspeglar þessi færni undirliggjandi styrkleika þína?

Þakklæti breytir því hvernig við hugsum og hjálpar okkur að finna lausnir. Það að koma auga á það sem við erum þakklát fyrir eykur almenna ánægju með lífið.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Kjarnanum 3. janúar 2021.