Taktu lífinu brosandi

Bros virðist ekki vera sérlega flókin athöfn. Þegar við upplifum jákvæða tilfinningu lyftast munnvikin og augun krumpast. Heildaráhrifin gefa umheiminum þau skilaboð að okkur líði vel.

Að brosa er einföld og í langflestum tilfellum algjörlega sjálfsprottin athöfn. Við brosum yfirleitt án mikillar áreynslu.

Reyndar hrífast flestir ekki af brosi sem virðist þvingað. Það er ekki erfitt að taka eftir gervibrosi, þegar við lyftum munnvikunum en augun brosa ekki með. Ekta bros hefur verið kallað „Duchenne“-bros eftir taugasjúkdómafræðingnum Guillaume Duchenne en hann bar árið 1862 kennsl á þá andlitsvöðva sem taka þátt í alvöru, sjálfsprottnu brosi. 

Rannsóknir undanfarna áratugi hafa reyndar sýnt fram á það að það er viss ávinningur af því að kreista fram bros. Sífellt fleiri eru sannfærðir um að bros sé ekki aðeins ytri tjáning á jákvæðum tilfinningum heldur geti jafnvel létt lundina og haft jákvæð áhrif á líkama og sál. Heilinn gerir nefnilega lítinn greinarmun á ekta brosi og gervibrosi. 

Einn af þeim sem hefur mikið rannsakað brosið er sálfræðingurinn Robert Zajonc sem árið 1989 birti einu mikilverðustu rannsóknarniðurstöður um áhrif bross á tilfinningar. Þátttakendur áttu að bera fram sérhljóð eins og langt „e“, sem líkist brosi, og langt „u“, sem líkist meira fýlusvip. Í ljós kom að þeir sögðust líða vel eftir að hafa borið fram langt „e“ hljóð en illa eftir að hafa borið fram langt „u“.

Aðrar rannsóknir hafa sýnt svipaðar niðurstöður. Í einni þeirra áttu þátttakendur að sýna jákvæða og neikvæða tjáningu með því að hafa penna í munninum, sem annaðhvort sneri fram þannig að varirnar gerðust framstæðar og mynduðu stút, eða þversum þannig að munnvikunum var ýtt út í bros. Í ljós kom að síðastnefndu aðstæður sköpuðu ánægjulegar tilfinningar.

Ástæðan fyrir því að rannsókn Zajonc er talin þyðingarmikil er að hann setur fram nákvæma sálfræðilega skýringu á niðurstöðunum. Samkvæmt honum hefur andlitssvipurinn bein áhrif á vissa virkni í heilanum sem tengist hamingju. Zajonc segir að þegar hitastigið í ákveðnum hluta líkamans breytist, breytist einnig efnafræðileg virkni. Rannsóknir hafa sýnt að lægra hitastig í heilanum skapar jákvæðar tilfinningar á meðan hærra hitastig skapar neikvæðar tilfinningar. Zajonc bendir á að innri hálsslagæðin, sem flytur meirihluta blóðsins til heilans, liggur í gegnum holu sem inniheldur margar andlitsæðar. Þegar við brosum spennast vissir andlitsvöðvar og þrengt er að æðunum. Við það minnkar blóðflæðið til heilans, sem hefur þau áhrif að hitastig blóðsins lækkar. Þegar kaldara blóð nær heilanum lækkar einnig hitastig heilans, sem skapar jákvæðar tilfinningar. Kenningin virkar líka í hina áttina; þegar vöðvarnir sem við notum til að mynda skeifu herpast eykst blóðflæðið til heilans og hitastig hans hækkar, sem veldur neikvæðum tilfinningum.

Niðirstöður Zajonc þýða ekki að við getum forðast depurð þar sem eftir er ævinnar með því einfaldlega að gera okkur upp bros heldur einungis að bros getur fært okkur í áttina að jákæðum tilfinningum. 

Taktu því lífinu brosandi.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 11. febrúar 2014.