Starfsmenn forgangsraða í þágu heilsu og vellíðanar

Society of Human Resource Management greindi frá því nýlega að tæplega fjórar milljónir bandarískra starfsmanna hefðu sagt starfi sínu lausu í hverjum mánuði ársins 2021. 

Þróunin hefur haldið áfram á þessu ári en tæplega 4,3 milljónir starfsmanna hættu sjálfviljugir störfum í janúar einum og það er ekkert sem bendir til þess að þessari starfatilfærslu muni ljúka í bráð. Þróunin virðist vera á heimsvísu samkvæmt gögnum frá OECD. Hér heima leiddi könnun Gallup, sem framkvæmd var í febrúar sl. meðal starfandi fólks á aldrinum 25-64 ára, í ljós að 50% svarenda eru að leita að eða opnir fyrir nýjum starfstækifærum.

Þegar við hægðum aðeins á okkur vegna heimsfaraldursins fengu margir rými til að líta inn á við, endurmeta líf sitt og skoða áhrif starfs síns á andlega heilsu og líðan. Margir fundu fyrir löngun til að finna meiri lífsfyllingu í lífi og starfi. Könnun Pew Research Center leiddi í ljós að meira en helmingur þeirra sem hættu störfum árið 2021 gerðu það vegna þess að þeir upplifðu skort á virðingu eða töldu sig ekki hafa næg tækifæri til að þróast í starfi. Aðrar ástæður voru skortur á sveigjanleika, of langir vinnudagar og umönnunarvandamál.

Líklega mun þessi mikla breyting marka þáttaskil fyrir framtíð vinnunnar. Hún sendir vinnuveitendum skýr skilaboð. Ef vinnustaðir vilja halda í samkeppnishæfustu starfsmennina munu þeir þurfa að breyta menningu sinni í þágu samþættingar starfs og einkalífs og sveigjanleika. En hvað getur hún kennt starfsmönnum um það hvernig störf þeirra samræmast því hvernig þeir vilja lifa lífinu? Hér eru fimm atriði sem starfsmenn þurfa að hafa í huga:

1. Kulnun er ekki sjálfbær
Að sögn American Psychological Assiciation upplifðu margir bandarískir starfsmenn kulnun á árunum 2020 og 2021. Í könnun félagsins á vinnu og vellíðan frá 2021 greindu 36% svarenda frá vitsmunalegri þreytu, 32% sögðust upplifa tilfinningalega þreytu og 44% greindu frá líkamlegri þreytu, sem er 38% aukning frá 2019.

Fyrir heimsfaraldurinn gætu sumir hafa sætt sig við stanslausa streitu og möguleikann á kulnun en núna hafa margir áttað sig á því að vinnustaður sem reiðir sig á útkeyrðum og útbrunnum starfsmönnum er ekki sjálfbær til lengri tíma litið. Auk þess kemur þetta í veg fyrir að við getum blómstrað á öðrum sviðum lífsins. Síðustu tvö ár hafa því kennt vinnustöðum, stjórnendum og starfsmönnum mikilvægi þess að hlúa að sjálfum sér og finna vinnu- og lífshætti sem þjóna þeim betur.

2. Persónuleg ábyrgð er lykilatriði
Heimsfaraldurinn kenndi okkur að það að forgangsraða þörfum okkar eykur ekki bara vellíðan heldur stuðlar líka að betri frammistöðu. Sýn okkar á samþættingu starfs og einkalífs hefur breyst og við þurfum að spyrja okkur hvernig við getum blómstrað óháð því sem við kunnum að lenda í. Fyrir suma hefur það að blómstra þýtt að hefja nýjan starfsferil eða finna nýjan vinnustað. Persónuleg ábyrgð okkar felur í sér að taka skref til baka, íhuga málin og forgangsraða í þágu heilsu og vellíðanar.

3. Við búum yfir meiri seiglu en við héldum
Það getur verið ógnvekjandi að yfirgefa starf sem þú hafðir náð góðum tökum á og þekkingu til að sinna. Það krefst líka hugrekkis að tjá sig um þarfir sínar við yfirmann. Heimsfaraldurinn hefur verið mikið námskeið í seiglu og aðlögunarfærni og þessa reynslu er hægt að nota til að gera nauðsynlegar breytingar, hvort sem það er að skipta um starf eða ræða við yfirmann um líðan sína og þarfir.

4. Starfsmenn hafa sterkari samningsstöðu
Þar sem margir vinnustaðir hafa misst starfsmenn frá sér undanfarið eru starfsmenn komnir með nýja og sterkari samningsstöðu til að hanna starfsferil sem gerir þeim kleift að búa til rými fyrir það sem þeir óska eftir í lífi og starfi. Þegar öllu er á botninn hvolft vilja stjórnendur og vinnustaðurinn halda í samkeppnishæfa starfsmenn og ná fram því besta hjá öllum starfsmönnum. Það er því þess virði að koma á framfæri hvað muni hjálpa þér við að komast á þann stað, hvort sem það er með aðgangi að geðheilbrigðisþjónustu, því að fá að taka reglulega andlegan heilsudag, sveigjanleika í vinnutíma og því hvar þú vinnur verkefnin af hendi eða hægfara endurkomuáætlun á skrifstofuna eftir faraldurinn.

5. Félagsleg tengsl skipta öllu
Á meðan á heimsfaraldrinum stóð varð eitt ljóst: Tengsl okkar við aðra skipta sköpum fyrir hamingju okkar. Við upplifðum töluverðar takmarkanir á félagslegum samskiptum og það hafði neikvæð áhrif á andlega heilsu okkar. Það er því mikilvægt að hafa tengslin við okkar nánustu í huga í vinnusambandinu. Við ættum ekki að upplifa skömm eða ótta við að taka frí til að fara á tónleika barnanna okkar eða stimpla okkur fyrr út til að njóta kvöldverðar með fjölskyldunni. Það eru jú þessu tengsl sem veita okkur orku og fá okkur til að standa okkur vel í vinnunni.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman
 
Birtist á kjarninn.is 25. mars 2022