Sjö tegundir hvíldar

Stundum reynum við að laga orkuleysi með því að sofa meira, en upplifum okkur samt örmagna. Ástæðan er að svefn og hvíld er ekki sami hluturinn.

Við höldum að með því að fá nægan svefn séum við að hvíla okkur en í raun erum við ekki að sinna öðrum tegundum hvíldar sem eru bráðnauðsynlegar fyrir endurheimt. Hvíld er ein öruggasta og áhrifaríkasta leið til að endurheimta orku.

Í bók sinni Sacred Rest: Recover Your Life, Renew Your Energy, Restore Your Sanity, skýrir Saundra Dalton-Smith, læknir, fræðimaður og fyrirlesari, frá sjö tegundum hvíldar:

1. Líkamleg hvíld
Fyrsta tegund hvíldar sem við þurfum að sinna er líkamleg hvíld en hún skiptist í virka og óvirka hvíld. Óvirk líkamleg hvíld felur í sér hágæða sjö til níu klukkutíma svefn og lúr á meðan virk líkamleg hvíld innifelur endurnærandi athafnir eins og jóga, öndunaræfingar, teygjur, heit og köld böð og nuddmeðferð en þær hjálpa til við að auka blóðrásina og liðleika líkamans.

2. Sálræn hvíld
Önnur tegund hvíldar er sálræn hvíld. Það er algengt að eiga erfitt með að slökkva á heilanum á kvöldin þegar lagst er á koddann þar sem samtöl og úrlausnarefni vinnudagsins fylla hugann. Afleiðingin er að okkur finnst við ekki endurnærð þrátt fyrir að sofa sjö til níu tíma. Eða þá að við glímum við einbeitingarskort þegar við förum í matvörubúðina og munum ómögulega þá þrjá hluti sem við ætluðum að kaupa. Til að draga úr sálrænu orkuleysi og auka einbeitinguna er gott að reyna að jarðtengja sig með því að hægja á sér og skipuleggja regluleg hlé yfir daginn. 

3. Skynfærahvíld
Þriðja tegund hvíldar sem er nauðsynleg fyrir endurheimt er skynfærahvíld frá stöðugu áreiti. Björt ljós, tölvuskjáir, tilkynningar á samfélagsmiðlum, símhringingar og ógrynni samtala, hvort sem þau fara fram í raunheimum eða á Teams, geta skapað of mikla örvun og orðið skynfærunum ofviða. Hægt er að vinna gegn þessu áreiti með því að loka augunum í eina mínútu nokkrum sinnum yfir daginn, slökkva á útvarpinu á leiðinni heim úr vinnunni og leggja snjalltækin til hliðar í lok dagsins. Einnig með því að fara í göngutúr eða lesa góða bók (á pappír).

4. Skapandi hvíld
Þessi tegund hvíldar er sérstaklega mikilvæg fyrir þá sem vinna við að leysa vandamál eða koma með nýstárlegar hugmyndir. Skapandi hvíld endurvekur undrun og ástríðu innra með okkur. Að leyfa sér að njóta fegurðar náttúrunnar er ein leið til að ná skapandi hvíld. Að njóta listar er önnur leið. Gott er að breyta vinnusvæðinu í stað sem veitir þér innblástur, t.d. með því að hengja upp myndir af landslagi eða stöðum sem næra þig og listaverk sem tala til þín. Einnig getur verið endurnærandi að lesa bók, hlusta á tónlist, heimsækja safn eða dansa.

5. Tilfinningaleg hvíld
Tilfinningaleg hvíld felur það í sér að hætta að vera allt fyrir alla og gera öllum til hæfis. Að segja nei og standa með sjálfum sér. Einnig að sýna hugrekki til að tjá sig um tilfinningar sínar og líðan á opinn og heiðarlegan hátt. Fá einhvern til að hlusta á sig. Hætta að bera sig saman við aðra. Vera maður sjálfur.
 
6. Félagsleg hvíld
Þeir sem hafa þörf fyrir tilfinningalega hvíld eru oft einnig með félagslegt orkuleysi. Mikilvægt er að greina á milli samskipta sem næra okkur og samskipta sem eyða orku. Til að upplifa aukna félagslega hvíld er gott að umkringja sig jákvæðu og styðjandi fólki og gefa sér tíma fyrir vini sem vilja ekkert heitar en að vera í návist manns. Þegar við hittum fólk í netheimum er gott að velja að vera virkur í samskiptunum með því að kveikja á myndavélinni og veita fólkinu sem við erum að tala við óskipta athygli.

7. Andleg hvíld 
Síðasta tegund hvíldar er andleg hvíld, sem er hæfileikinn til að finna djúpa tilfinningu um ást, viðurkenningu, tilgangi og að tilheyra. Til að ná andlegri hvíld er gott að taka þátt í einhverju sem er stærra en við sjálf, til dæmis með því að gefa af sér til samfélagsins. Við höfum öll þörf fyrir að finnast við tilheyra og gera gagn.

Af ofangreindu er klárt að svefn er aðeins einn hluti af heildarmyndinni. Einn og sér er hann ekki nægjanlegur til að endurnæra okkur. Gott er að greina á hvaða sviði maður notar mestu orkuna yfir daginn og einbeita sér síðan að þeirri hvíld sem maður þarfnast. 

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á kjarninn.is 9. desember 2022.