Sátt við sjálfan sig

Sálfræðingar við háskolann í Hertfordshire fundu í könnun sem þeir gerðu meðal 5000 einstaklinga í mars sl. tíu lykla að hamingjusamara lífi ásamt daglegum venjum sem gera fólk raunverulega hamingjusamt. 

Sú venja sem tengist mest hamingju og ánægju með lífið er sátt við sjálfan sig. Á sama tíma er það líka sú venja sem flestir þeirra sem tóku þátt í könnuninni iðkuðu minnst. Til að verða sáttari við okkur sjálf og auka hamingjuna til muna getum við að mati Karen Pine, sálfræðings og prófessors við Hertfordshire háskólann, gert þrennt:

 1. Verið eins góð við sjálf okkur og við aðra. Litið á mistök sem tækifæri til að bæta okkur. Veitt því sem við gerum vel eftirtekt, hversu lítið sem það er.
 2. Spurt góðan vin eða samstarfsmann hverjir styrkleikar okkar séu eða hvað þeir kunni að meta við okkur.

Varið smá tíma ein. Tekið eftir hvernig okkur líður og sættast við hver við erum. 

Venjurnar tíu sem rannsóknarteymi Pine bar kennsl á eru:

 1. Gefðu af þér og gerðu hluti fyrir aðra.
 2. Myndaðu félagsleg tengsl.
 3. Hreyfðu þig og hugsaðu vel um líkamann.
 4. Taktu eftir heiminum í kringum þig.
 5. Haltu áfram að prófa og læra nýja hluti.
 6. Settu þér markmið svo þú hafir eitthvað til að hlakka til. 
 7. Finndu leiðir til að auka seiglu.
 8. Temdu þér jákvætt viðhorf. 
 9. Vertu sátt(ur) við sjálfa(n) þig.
 10. Finndu tilgang og vertu hluti af einhverju stærra. 

Á meðan allar þessar venjur sýndu marktæk tengsl við ánægju með lífið kom í ljós að sátt við sjálfan sig (nr. 9) hefur mest forspárgildi þegar kemur að hamingu. Þegar þátttakendur voru beðnir um að meta hversu oft þeir iðkuðu venjurnar kom hins vegar í ljós að hún var iðkuð minnst af þeim öllum. 

Það að vera sáttur við sjálfan sig þýðir ekki að við getum ekki haldið áfram að bæta okkur. Þetta snýst ekki um það að segja „ég bara fæddist svona og það er ekkert sem ég get gert“ heldur um það að átta sig á því að sumt erum við ánægð með í okkar fari á meðan annað viljum við halda áfram að bæta og breyta. Mikilvægt er að finna línuna þarna á milli. 

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 21. maí 2014.