„Nei" er svo einfalt orð...

...aðeins þrír stafir. Samt reynist það flestum erfitt að hafna óskum og segja „nei". Flest vorum við góð í því að segja „nei" þegar við vorum tveggja ára. Það er jú hlutverk tveggja ára krakka að segja „nei" og foreldrar okkar bjuggust jafnvel við því.

Síðan, þegar við vöxum úr grasi, hverfur orðið „nei" smám saman úr orðaforðanum. Við viljum flest svo gjarnan hjálpa vinum, fjölskyldumeðlimum og vinnufélögum og það er okkur þvert um geð að segja „nei" þar sem við viljum ekki móðga þá, særa eða valda vonbrigðum. Eða við viljum ekki stofna áframhaldandi góðum samskiptum í hættu eða erum smeyk við neikvæðar afleiðingar höfnunar. Því er fyrsta hugsunin að segja „já" þegar við ættum að segja „nei".

Hér fyrir neðan eru tíu ráðleggingar fyrir þá sem vilja læra að segja „nei":

  1. Þegar einhver kemur með bón er gott ráð að biðja um umhugsunarfrest. Í stað þess að gefa svar strax er gott að segjast ætla að hugsa málið og verða í sambandi síðar. Þetta gefur þér tækifæri til að íhuga málið og athuga með skuldbindingar þínar og forgangsröðun. Minntu þig á að ákvörðunin er alfarið í þínum höndum.
  2. Jafnvel þó að þú hafir smá tíma á þínum höndum til að sinna því sem þú ert beðin(n) um er mikilvægt að velta fyrir þér hvort þú viljir ráðstafa dýrmætum tíma þínum með þessum hætti. Tími þinn er takmarkaður og því er mikilvægt að forgangsraða rétt. Að segja nei við einhvern gæti verið að segja já fyrir þig sjálfa(n).
  3. Vertu kurteis en skýr og ákveðin(n). Sýndu sjálfsstyrk og beittu röddinni rétt til að undirstrika „nei-ið". Það má ekki fari ekki á milli mála að þú sért að segja „nei". Vertu viss um að raddbeitingin sé ákveðin og afdráttarlaus. Haltu augnsambandi þegar þú segir „nei" og hristu hausinn.
  4. Muntu eftir að „nei" er heiðarlegt svar. Ef þú ákveður að „nei" er svarið sem verður fyrir valinu er einlægt og heiðarlegt að segja „nei". Ef þú segir „já" þegar þig langar að segja „nei" muntu sjá eftir því.
  5. Ef þú segir „nei" við einhvern sem þú myndir undir öðrum kringumstæðum  aðstoða er gott að sýna hluttekningu til að milda höfnunina, t.d. með því að segja: „Ég get því miður ekki passað börnin þín í kvöld. Ég geri mér grein fyrir að það geti verið erfitt að finna einhvern með stuttum fyrirvara en ég hef þegar gert ráðstafanir fyrir kvöldið." Síðan gæti verið gott að stinga upp á annarri lausn: „Þú gætir hugsanlega athugað með Jón?"
  6. Það hljómar kannski mótsagnarkennt en gott er að byrja á „já-i". Síðan fylgirðu því eftir með annaðhvort: „allt í lagi, ég er upptekin(n) núna en gætirðu haft samband aftur eftir mánuð eða svo? Ég vil ekki skuldbinda mig nema ég geti lagt mig 100% fram." Eða „allt í lagi, en gætir þú þá gert X, Y og Z fyrst þannig að við fáum að sjá hvort þetta muni virka áður en við setjum allt í gang?" Í báðum tilfellum hafnarðu ekki bóninni afdráttarlaust heldur kastar boltanum til baka. Þú ættir aðeins að nota þessa aðferð ef þú ert einlæg(ur) í vilja þínum til að framkvæma verkið en getur ekki gert það núna. Þetta léttir undir með þér án þess að þú þurfir raunverulega að segja „nei".
  7. Ef þig langar að fresta ákvörðun þinni í stað þess að gefa afdráttarlaust svar er gott að segja: „Þetta hljómar mjög spennandi, ég vildi að ég gæti verið hluti af þessu. Ég hef því miður ekki tíma fyrir þetta eins og staðan er í dag. Gætirðu haft samband aftur í lok næstu viku?" Ef málið er mjög mikilvægt mun viðkomandi endurtaka bónina viku seinna.
  8. Byrjaðu setninguna á „nei" við fólk sem er mjög ýtið. Það er auðveldara að standa á þinu ef það er fyrsta orðið út úr munninum á þér: „Nei, ég var búin(n) að kaupa miða í bíó og því kemst ég ekki."
  9. Ekki biðjast afsökunar eða fara út í málalengingar með því að setja fram fullt af ástæðum fyrir „nei-inu". Það er algengt að segja: „Mér þykir það leitt en...", „Ég get það ekki vegna þess að..." af því að fólki þykir það kurteisara. Þó að kurteisi sé mikilvæg dregur afsökunin úr „nei-inu" og sendir þau skilaboð að þú gerir eitthvað rangt með því að segja „nei", að þú hafir ekki sterkan rétt til að segja „nei. Slíkar málalengingar leiða oft til þess að maður er þráspurður. Leyfðu þér að finnast það vera í lagi að hafna bón. Þú hefur fullan rétt á að segja „nei". Stattu með sjálfum/sjálfri þér.
  10. Æfingin skapar meistarann. Æfðu þig daglega í að segja „nei". Það er góð leið til að bæta sig í því og líða betur með það. Og stundum er endurtekningin eina leiðin til að koma skilaboðunum til skila, sérstaklega við þá þrjóskustu. Haltu áfram að segja „nei" við þá þangað til skilaboðin síast inn.

Hafa skal samt í huga að þó að gott sé að geta sagt „nei" þá er líka mikilvægt að segja „já" :-) 

 Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 26. febrúar 2010.