Nærumst og verslum með núvitund

Um jólin eru freistingarnar oft margar, sem hefur þau áhrif að við borðum, drekkum og eyðum meiru en æskilegt væri. Á nýja ári kemur svo eftirsjáin þegar við stígum á vigtina og reikningarnir byrja að berast. 

Dr. Brian Wansink, sérfræðingur í matarsálfræði við Cornell háskólann og höfundur bókarinnar Mindless Eating: Why We Eat More Than We Think, bendir á að djúp gjá er á milli matarlystar og matarvenja.Við tökum um 200 ákvarðanir dag hvern sem tengjast mat. Flestar þessara ákvarðana eiga rætur að rekja til hárfínna atriða sem fá okkur til að halda áfram að borða, jafnvel þó að við séum búin að mettast. Um er að ræða atriði eins og lykt og litur fæðunnar, tónlist, fjölda borðfélaga, umbúðir, merkingar o.fl.

Wansink gerði tilraun sem hann kallaði „botnlausu súpuskálina“ en í tilrauninni var á leynilegan hátt stöðugt fyllt á súpuskálarnar hjá þátttakendum. Þetta hafði þær afleiðingar að þeir borðuðu miklu meira en þeir héldu. Við virðumst greinilega treysta augunum betur en maganum.

Wansink segir að mikilvægt sé að átta sig á muninum á því að vera ekki lengur svangur og því að vera saddur. Gott er t.d. að nota smærri diska heima við, fá sér bara tvo rétti á veitingastað og skipta stórum pakkningum niður í tvo eða þrjá hluta. Það tekur um mánuð að festa nýjar venjur í sessi og með því að halda matardagbók gerum við allt sem við borðum sýnilegt í stað þess að treysta á minnið eingöngu. 

Núvitund í verslunarferðum
Dr. April Lane Benson, sálfræðingur og höfundur bókarinnar To Buy or Not to Buy: Why We Overshop and How to Stop, segir að það að versla sé fyrir marga hvatvís atburður og nokkurs konar dægrastytting, sérstaklega í jólamánuðinum þegar verslunarmiðstöðvar og búðir fyllast af fólki sem er tilbúið að verða þessari ómeðvituðu venju að bráð. Í dag sé auk þess miklu meiri hætta á að kaupa of mikið en áður fyrr þar sem við þurfum ekki einu sinni að yfirgefa heimilið heldur getum keypt allt sem okkur langar í á netinu. 

Benson segir að mikilvægt sé að undirbúa verslunarferðir m.a. með því að forgangsraða því sem á að kaupa. Gott ráð sé einnig að ákveða fyrirfram hvar maður ætlar að versla, hve lengi, með hverjum, hvað á að kaupa, og hverju maður ætlar að eyða.

Benson mælir með að svara eftirfarandi sex spurningum áður en við tökum ákvörðun um kaup til að auka eigin vitund: 

  1. Hvers vegna er ég hér?
  2. Hvernig líður mér? (vel, illa, óörugg/ur, með samviskubit, pirraður/pirruð o.s.frv.)
  3. Hef ég þörf fyrir þennan hlut?
  4. Hvað ef ég myndi bíða?
  5. Hvernig ætla ég að greiða fyrir þetta?
  6. Hvar mun ég hafa þetta? 

Svo er líka mikilvægt að átta sig á því að allt það verðmætasta í lífinu fæst ekki keypt. Mikilvægustu hlutirnir í lífinu eru ókeypis. Þeir birtast í formi fábrotinnar ánægju á handahófskenndum augnablikum. Þetta snýst um það að gefa sér tíma til að taka eftir litríku sólarlaginu í vatninu á meðan þú heldur í hendinni á þeim sem þér þykir vænt um, eða veita eftirtekt eftirvæntingunni og tilhlökkuninni í augum barnanna þegar jólamaturinn er kominn ilmandi á borðið.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 12. desember 2016.