Mýtur um extróverta

Helsti munurinn á extróvertum (úthverfum) og intróvertum (innhverfum) er að þeir fyrrnefndu fá orku úr ytri heimi og umhverfi og endurnærast með samskiptum við annað fólk á meðan þeir síðarnefndu fá orku úr sínum innri heimi, hugsunum og íhugun. 

Extróvertar eru oft misskildir eða verða fyrir fordómum. Hér fyrir neðan eru nokkrar algengar mýtur. 

Mýta 1: Extróvertar elska að umgangast fólk og skemmta því 
Extróvertar eru ekki alltaf í sviðsljósinu í veislum og líkar ekki alltaf að vera innan um annað fólk. Extróvert fær orku út úr því að blanda geði við fólk sem honum finnst athyglisvert eða getur tengt við, en tæmist ef hann er innan um fólk sem honum líkar ekki við eða finnur enga tengingu við. Hann þarf að vera innan um hvetjandi og jákvæða einstaklinga til að hlaða batteríin.

Mýta 2: Extróvertum líkar ekki að vera einir 
Extróvertar geta tæmst við að verja löngum stundum einir. Ef þeir fá hins vegar örvun frá öðrum (ekki mannlegum) þáttum, eins og bókum eða áhugamálum eru þeir mjög sáttir við að verja tíma einir. Þeir þættir geta verið jafn örvandi og mannleg samskipti og gefa extróvertum orku.

Mýta 3: Extróvertar vilja alltaf vinna í hópum
Flestöll höfum við gaman af samskiptum við aðra, burtséð frá persónuleikatýpu okkar. Extróvertum líkar oft betur að vinna í hópum en einir, en það fer þó allt eftir hópnum. Rafhlaða extróverta getur t.d. tæmst ef þeir finna enga tengingu við meðlimi hópsins. 

Mýta 4: Extróvertar eru háværir og tala mikið
Þetta fer allt eftir einstaklingnum. Þegar extróvert finnur fyrir örvun getur hann talað hátt og mikið. Extróvertar eru líklegri til að tala með höndunum þegar þeir fá orku úr umhverfinu eins og t.d. öðru fólki eða viðfangsefninu sem þeir eru að tjá sig um. Intróvertar nota líka handahreyfingar og geta talað mikið, en rafhlaða þeirra tæmist þó fyrr. 

Mýta 5: Extróvertar hafa meira sjálfstraust og eru félagslega færari 
Að vera extróvert hefur ekkert að gera með sjálfstraust eða félagsfærni. Intróvertar geta verið jafn opnir og félagslega færir ef þeir fá örvun. Ef intróvert fær að ræða það sem hann hefur virkilegan áhuga á getur hann talað klukkutímum saman við einhvern ókunnugan. Hann myndi þó líklega ekki gera þetta reglulega. Extróvertar þrífast á samskiptum við aðra og eru líklegri til að blanda geði við fólk sem þeir þekkja ekki, sem er ástæðan fyrir því að fólk telur þá oft færari í samskiptum. 

Mýta 6: Extróvertar hafa meiri orku en intróvertar
Þetta fer allt eftir aðstæðunum. Extróvert getur tæmst ef hann fær of mikla örvun og verður yfir sig æstur. Extróvertar búa ekki endilega yfir meiri orku en intróvertar; þeir virka einfaldlega þannig á fólk þegar þeir komast á flug, líklega af því að þeir tala meira með höndunum og með meiri raddblæ.

Við erum öll blanda af extróvert og intróvert. Enginn fær 100% orku úr samskiptum við aðra eða innri heimi. Það er ekki betra eða verra að vera extróvert eða intróvert. Við erum öll ólík og mikilvægt að virða það. 

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 23. janúar 2015.