Mótlætisbjartsýni og þakklæti eru verndandi þættir

Heimsfaraldurinn og örvæntingarfull leit okkar að „eðlilegu lífi“ hafa tekið sinn toll af tilfinningu okkar um vellíðan. En hvernig er hægt að auka vellíðan á þessum undarlegu tímum?

Rannsóknir Kleimann o.fl. frá árinu 2020 á 140 enskum háskólanemum sýndu fram á tengsl á milli þess að fá stuðning frá öðrum og háskólanum annars vegar og daglegrar bjartsýni í garð heimsfaraldursins hins vegar. Nýlegar rannsóknir hafa einnig sýnt að þakklæti og undirtegund bjartsýni, svokölluð „mótlætisbjartsýni“ (e. tragic optimism) geta verndað vellíðan. En hvað er átt við með mótlætisbjartsýni?

Mótlætisbjartsýni viðurkennir að lífið felur í sér bæði jákvæðar stundir og mótlæti
Viktor Frankl, austurríski sálfræðingurinn og geðlæknirinn sem lifði af helförina, var fyrstur til að nota hugtakið mótlætisbjartsýni árið 1985. Í útrýmingarbúðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni hjálpaði Frankl fólki að finna eitthvað sem það hafði til að lifa fyrir og jafnvel merkingu í þjáningunni sjálfri. Dr. Paul Wong skilgreinir mótlætisbjartsýni sem bjartsýni og von þrátt fyrir vanlíðan, sársauka, sektarkennd, þjáningu og dauða.

Mótlætisbjartsýni er ekki það sama og eitruð bjartsýni (e. toxic optimism) sem snýst um það að brosa og viðhafa ávallt jákvætt hugarfar, sama hvað dynji á, og hafna þannig margs konar óþægilegum eða erfiðum tilfinningum eins og sorg, kvíða og missi. Eitruð bjartsýni lítur fram hjá og vanrækir erfiðleika eða vandamál á meðan mótlætisbjartsýni viðurkennir að lífinu fylgja bæði góðar stundir og krefjandi. Það að sitja með minna notalegum tilfinningum, viðurkenna þær og leyfa þeim að vera getur leitt til persónulegs þroska og aukinnar hugarró. 

Mótlætisbjartsýni endurómar á vissan hátt skilaboð æðruleysisbænarinnar. Í nýjum mælikvarða Paul Wong, The Life Acceptance Scale, má sjá tvær spurningar sem endurspegla hana: „Ég sætti mig við það sem ég get ekki breytt í lífi mínu“ og „Ég hef lært hvernig á að takast á við og laga mig að því sem lífið færir mig í fang“.

Þakklæti stuðlar að vellíðan
Þakklæti er önnur leið til að auka vellíðan. Í bók sinni Thanks! greinir Robert A. Emmons frá niðurstöðum sínum á áhrifum þakklætis á fólk, heilsu, hamingju og samskipti. Í stuttu máli leiðir þakklæti til betri heilsu, betri svefns, minni streitu, meiri gleði og hamingju, betri samskipta, aukinnar ánægju með lífið, meiri bjartsýni og meiri ákveðni. Nýleg rannsókn Dr. Giacomo Bono, prófessors við ríkisháskólann í Kaliforníu, sýndi að meira þakklæti snemma í heimsfaraldrinum eða á tímabilinu janúar til mars 2020 spáði fyrir um minni sálrænan skaða og betri huglæga líðan í apríl og maí þetta sama ár. 

Þegar fólk hefur þakklátt lífsviðhorf er það meðvitað um hversu brothætt lífið er og kann betur að meta fólkið í lífi sínu, sem ýtir undir félagslega hegðun. Þegar við erum þakklát og gerum okkur grein fyrir mikilvægi félagslegrar þátttöku er líklegra að við leggjum okkur fram um að mynda tengsl, sem leiðir til þess að við upplifum félagslegan stuðning. 

Mótlætisbjartsýni og þakklæti eru mikilvægir þættir til að takast á við þjáningu og stuðla að vexti þegar við stöndum andspænis mótlæti. Jessica Mead o.fl. komust að því í rannsókn meðal 138 bandarískra háskólanema að mótlætisbjartsýni og þakklæti voru þær breytur sem stuðluðu marktækt að aukinni vellíðan. Þeir sem viðurkenna að lífinu fylgja erfiðleikar og eru undirbúnir undir þá, takast sem dæmi betur á við einangrun og sóttkví en þeir sem gera það ekki.

Æfingin Þrír góðir hlutir
Það er margt í lífi okkar, bæði stórt og smátt, sem hægt er að líta á sem blessun. Ein leið til að stuðla að aukinni vellíðan er að gera æfingu sem heitir Þrír góðir hlutir. Æfingin felst í því að skrifa niður daglega, í lok dagsins og í eina viku, þrjá góða hluti sem áttu sér stað yfir daginn og hver þáttur okkar var í þeim. Með því að skrifa niður hlutdeild okkar beinum við athyglinni að því hvernig við getum haft áhrif á daglegar jákvæðar upplifanir.  

Endurskoðum væntingar okkar
Til að þróa með okkur mótlætisbjartsýni er gott að endurskoða þær væntingar sem við höfum gagnvart því sem við stöndum frammi fyrir í lífinu. Síðan er mikilvægt að skoða hvernig þessar væntingar draga úr getu okkar til að vera í núinu og sætta okkur við lífið með öllum sínum yndislegu augnablikum og tímabundnu mótlæti. Enn fremur er gott að íhuga hvaða merkingu og tilgang erfið reynsla hafi haft og hvað við höfum lært um okkur sjálf og aðra. Oft er hægt að draga mikilvægan lærdóm af erfiðleikum og áskorunum.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á kjarninn.is 11. október 2021.