Listin að lifa í núinu

Lífið gerist í núinu. En allt of oft látum við núið renna úr greipum okkar með því að hraða okkur fram hjá mikilvægum augnablikum og eyða dýrmætum sekúndum lífs okkar í áhyggjur af framtíðinni eða vangaveltur um fortíðina.

Við erum alltaf að og gefum okkur lítinn tíma til að koma kyrrð á hugann. Við berum ekki virðingu fyrir núinu vegna þess að „apahugurinn okkar“ - eins og búddistar kalla hann - stekkur um eins og apar sem sveifla sér á milli trjáa.   Til að ná betri tökum á hugsunum okkar og lífi er mikilvægt að finna jafnvægi, komast undan strauminum, og kyrra hugann  – einblína einfaldlega á það að vera hér og nú.

Við erum ekki það sem við hugsum
Gjörhygli eða árvekni (e. mindfullness) er ástand þar sem við höfum athygli í núinu á opinn og virkan hátt. Þegar við erum árvökul áttum við okkur á því að við erum ekki hugsanir okkar heldur lifum þær frá augnabliki til augnabliks, án þess að taka afstöðu eða dæma þær. Í stað þess að láta lífið líða hjá án þess að lifa því, vöknum við til meðvitundar og upplifum það á virkan hátt.Hér fyrir neðan eru sex góð ráð til að þjálfa gjörhygli:

  1. Ef þú vilt bæta frammistöðuna, hættu þá að hugsa um hana
    Það þekkja eflaust allir þá tilfinningu að líða ekki vel í ákveðnum aðstæðum, t.d. á dansgólfinu. Hreyfingarnar virðast klaufalegar og maður vill sleppa sér, en nær því ekki. Ef hugsunin er of mikið um það sem verið er að gera, verður frammistaðan lakari og kvíðinn eykst. Kúnstin er að einblína minna á innri samræður og meira á líðandi stund. Það kemur líka í veg fyrir að við hugsum um of.
  2. Ef þú vilt forðast áhyggjur, einblíndu þá á núið
    Við erum oft það upptekin af framtíðinni að við gleymum að upplifa hvað þá heldur njóta þess sem er að gerast hér og nú. Við drekkum kaffi og hugsum: „Þetta kaffi er ekki eins gott og kaffið í síðustu viku.“ Við heimsækjum fallegan stað og hugsum: "Mig langar að koma hingað aftur einhvern tímann seinna." Mikilvægt er að láta vel fara um sig í því sem maður er að gera á núlíðandi stundu, t.d. í heita pottinum, í fjallgöngu eða þegar hlustað er á tónlist.
  3. Ef þú vilt bæta samskiptin við aðra, taktu þá núið inn
    Gjörhygli hefur mögnuð áhrif á samskiptin við aðra. Hún virkar sem bólusetning gegn ofbeldisfullum viðbrögðum. Með því að einblína á núið endurræsum við hugann þannig að við getum brugðist við af íhygli í stað þess að bregðast við á sjálfvirkan hátt. Í stað þess að ráðast á einhvern í reiðikasti, láta undan af ótta eða tapa sér í einhverri þrá sem líður hjá fáum við tækifæri til að segja við okkur sjálf: „Þetta er tilfinningin sem ég er að upplifa. Hvernig ætti ég að bregðast við?“ Gjörhygli gerir okkur betur í stakk búin til að stjórna eigin hegðun.
  4. Ef þú vilt gera sem mest  úr tímanum, gleymdu þér þá
    Kannski er heilsteyptasta leiðin til að lifa í núinu það sem sálfræðingar kalla hugflæði (e. flow). Hugflæði er þegar við erum það altekin af einhverju að við sogumst inn í það og gleymum öllu og öllum í kringum okkur. Það er eins og við stöndum utan við okkur. Við veltum ekki fyrir okkur hugsanlegum mistökum og upplifum algjöra stjórn á aðgerðum okkar. Tímaupplifunin breytist og tíminn virðist fljúga. Það er eins og meðvitundin falli saman við það sem fengist er við.
  5. Ef eitthvað angrar þig, takstu þá á við það
    Við upplifum öll erfiðleika í lífinu, hvort sem um er að ræða skilnað, börn sem yfirgefa hreiðrið eða kvíða sem yfirbugar okkur þegar við þurfum að halda mikilvæga ræðu. Slíkir atburðir – ef við leyfum þeim það -  geta dregið athyglina frá ánægju lífsins. Það eru náttúruleg viðbrögð hugans þegar hann stendur andspænis sársauka að reyna að forðast hann með því að streitast á móti þessum óþægilegu tilfinningum. Að streitast á móti magnar hins vegar aðeins upp sársaukann. Betra er að horfast í augu við tilfinningar sínar og vera opinn fyrir því hvernig hlutirnir eru án þess að reyna að breyta þeim.
  6. Vittu að þú veist ekki
    Þú hefur líklega lent í því að keyra á hraðbraut og muna ekki síðustu 15 mínúturnar. Hugsanlega misstirðu jafnvel af afleggjara á leiðinni. Þessi augnablik þegar við erum á sjálfsstýringunni eru það sem Ellen Langer við Harvard háskólann kallar fjarhygli (e. mindlessness). Við verðum fjarhugul, að sögn Langer, vegna þess að um leið og við þekkjum eitthvað hættum við að veita því athygli. Við förum í gegnum umferðarteppuna á morgnana í ákveðinni þoku af því að við höfum farið sömu leið hundrað sinnum áður. Ef við erum árvökul tökum við eftir því að næstum því allt er nýtt hverju sinni – skugginn á byggingunum, landslagið, veðrið, jafnvel tilfinningar sem við upplifum á leiðinni. 

Ekki gera bara eitthvað, sittu kyrr
Gjörhygli er að veita því sem er að gerast hér og nú athygli. Hugsaðu um þig sem eilíft, þögult vitni, og taktu eftir augnablikinu. Hvað heyrirðu? Hvað sérðu? Hvaða lykt finnurðu? Það skiptir ekki máli hvernig tilfinningin er – þægileg eða óþægileg, slæm eða góð – þú skoðar hana einfaldlega af því að þetta snýst um núið.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 24. maí 2009.