Listin að gagnrýna á uppbyggilegan hátt

Góð og gjöful samskipti er sennilega það sem við flest öll óskum okkur í lífinu. Það er hinsvegar furðuflókið að halda samskiptunum í þeim farvegi sem við myndum helst kjósa og auðvelt að láta berast af leið.

Pirringur, gremja, ásakanir og önnur erfið samskipti eru full algeng, en ekki þarf að hugsa lengra en til skilnaðartíðni í nútímasamfélagi til að sjá hversu oft við erum á villigötum. Fæst okkar leggja upp með að ástunda samskipti sem skila litlu sem engu eða gera málin jafnvel enn verri en áður.

Þau tæki sem við vinnum með í samskiptum eru orðin sem við segjum, orðanna hljóðan og hin ósögðu orð líkamsmálsins. Allt eru þetta mikilvægir þættir góðra samskipta en orð eru til alls fyrst enda má fullyrða að setningar eins og; „Þú ert nú meiri ljóti hálfvitinn“ hljómi alltaf illa, hversu góðlegur tóninn er eða líkamsstaðan er vingjarnleg. Við verðum því undir öllum kringumstæðum að kunna að velja réttu orðin en sérstaklega ríður á að kunna það þegar við þurfum að tjá óánægju eða ræða viðkvæm mál. Og þar stendur hnífurinn í kúnni. Íhugum eftirfarandi dæmi sem ætla má að sé ekki svo fjarri veruleika flestra venjulegra Íslendinga.

Frúin kemur heim úr vinnunni og kemur að ostinum óvörðum á eldhúsborðinu og kexmylsnu um allt borð. Bóndinn er inni í sjónvarpsholi, nokkuð sæll enda nýbúinn að gæða sér á uppáhaldskexinu sínu með osti. Eftirfarandi orðasena á sér stað:

Frúin:
-Þú gengur aldrei frá ostinum eftir þig!
-Þetta er óþolandi sóðaskapur.
-Þú verður að fara að ganga betur frá eftir þig!
-Annars get ég alveg eins hætt að kaupa þennan bannsetta ost fyrir þig.

Í þessum samskiptum má greina ásökun; þú gengur aldrei frá ostinum, dóm; þetta er óþolandi sóðaskapur, kröfur; þú verður að ganga frá og hótun; annars hætti ég að kaupa ostinn. Samskipti af þessu tagi eru líkleg til að valda viðtakandanum gremju - hann fer í vörn og jafnvel gagnárás. Það sem lagt var upp með, að breyta hegðun varðandi umgengni, verður að aukaatriði og mjög líklega árangurslaus tilraun til að fá eiginmanninn til að breyta hegðun sinni. Því miður eru samskipti sem þessi ekki bundin við hjónabönd heldur má greina þau m.a. á vinnustöðum og í uppeldi barna.

Ofbeldislaus samskipti
Sem betur fer er til einföld aðferð eftir Marshall Rosenberg sem kunnastur er fyrir nálgun sem kennd er við „ofbeldislaus samskipti“ (Non Violent Communication). Lykilþættir aðferðarinnar eru þeir að lýsa aðstæðum eða atburðum án þess að leggja dóm á þá, að lýsa eigin upplifun eða tilfinningum tengdum atburðinum eða aðstæðum, að útskýra þarfir, langanir, gildi eða annað sem kveikir þessar tilfinningar okkar og að setja fram einlæga og skýra ósk um aðra hegðun. Aðferð Rosenbergs er víðfræg og notuð um allan heim til að auðvelda samskipti við ólíkar aðstæður. 

Skref 1. Að lýsa án þess að dæma

Að greina milli hegðunar og persónunnar sem sýnir hegðunina er mikilvægt því þegar við dæmum fólk með orðum eins og „latur“, „óstundvís“ og „neikvæður“ gefum við um leið til kynna að viðkomandi hafi til að bera persónueinkenni sem ekki sé hægt að gera neitt í. Viðbrögð við slíkum dómum hljóta því alltaf að vera einhverskonar vörn eða mótbárur.

Betra er að vísa til sértækrar hegðunar með því að lýsa atburði hlutlægt og forðast þar með dóma og gífuryrðin sem algengt er að fylgi slíkum dómum. Þú ert alltaf of seinn eða Þú ert aldrei með viðeigandi verkfæri með þér eru allt dæmi um slíka dóma sem innihalda gífuryrði sem ólíklegt er að standist nána skoðun.

Hér verður í hverju skrefi lýst dæmi þar sem vísað er til vinnufélaga þar sem annar hefur þann leiða ávana að skilja eftir sig óhreina kaffibolla á kaffistofunni.

Dæmi: Þú skildir eftir tvo óhreina kaffibolla á skrifstofunni í gær.

Skref 2. Að lýsa eigin upplifunum eða tilfinningum sem þessi atburður eða hegðun vekur
Skref tvö í aðferðinni er að lýsa okkar eigin upplifunum tengdum hegðuninni. Það er vænlegt til árangurs að vera hreinskilinn varðandi þessar tilfinningar þar sem með því aukast líkur á að orð okkar hljóti hljómgrunn.

Dæmi: Mér gremst þetta svolítið vegna þess að ég borða morgunmat í vinnunni og mér finnst ólystugt að koma að kaffistofunni á morgnana þar sem óhreint leirtau er á borðinu.

Skref 3. Að spyrja um ástæðu hegðunarinnar
Þriðja stig orðræðunnar er að spyrja viðkomandi um ástæðu hegðunarinnar og gefa viðkomandi tækifæri til að útskýra.

Dæmi: Er einhver ástæða fyrir því að þú skildir bollana eftir á borðinu?

Skref 4. Að setja fram skýrar óskir um hvað það er sem við viljum að fólk geri
Skref fjögur er að setja fram skýrar kröfur varðandi það sem við viljum að fólk geri og við sjáum sem leið til að geta bætt líf okkar, líðan, vinnuskilyrði, skilvirkni eða hvað sem vakir fyrir okkur. Mikilvægt er að setja fram kurteislega orðaða ósk.

Dæmi: Værir þú til í að ganga frá kaffibollunum þínum áður en þú ferð heim á kvöldin?

Ef við rifjum upp dæmið um hjónin þar sem ófrágenginn ostur var bitbeinið þá gæti það litið svona út:

-Jón, þú skildir ostinn eftir á borðinu í dag.
-Ég var pirruð þegar ég sá ostinn á borðinu því osturinn er svo dýr og mér finnst leitt að sjá hann skemmast.
-Værir þú til í að setja ostinn framvegis í ískápinn um leið og þú ert búinn að fá þér af honum svo við getum komið í veg fyrir aukaleg útgjöld?

Að lýsa sameiginlegum ávinningi breyttrar hegðunar
Oft er gagnlegt að setja óskir um breytta hegðun í eitthvað það samhengi sem dregur upp sameiginlegan ávinning þeirra sem um ræðir og auka þannig enn á líkur þess að fólk sjái ástæðu til að breyta hegðun sinni. Með þeim hætti erum við ekki einungis að leggja að fólki að það bregðist við óskum okkar heldur erum við líka að setja fram rök fyrir því að það sé í þágu beggja aðila að hegðun breytist. Við getum ímyndað okkur algengt dæmi þar sem einstaklingur hefur tamið sér það að koma of seint á fundi. Dæmið gæti þá litið þannig út:

-Jón, þú hefur komið 15 mínútum of seint á tvo síðustu fundi.

-Ég er ekki sátt við þetta því fundir okkar dragast á langinn og við eigum erfitt með að ljúka yfirferð dagskrárliða.

-Er einhver ástæða fyrir að þessum mætingum?

-Gætirðu hér eftir gætt þess að mæta á réttum tíma?

-Þannig gætum við náð meiri skilvirkni á fundum og jafnvel fækkað þeim eitthvað.

Fleiri dæmi

Verra:

-Þú hendir alltaf óhreinu fötunum þínum á gólfið.

-Ég þoli ekki þennan sóðaskap og hirðuleysi.

-Þú verður að hætta þessu.

-Ef þú heldur þessu áfram þá hendi ég fötunum þínum næst þegar ég sé þau á gólfinu. 

Betra:

-Ég sé að óhreinu fötin þín eru á gólfinu.

-Mér sárnar að sjá þetta vegna þess að ég keypti þessi föt handa þér og þau kostuðu mig töluvert fé.

-Værir þú til í að setja fötin þín beint í þvottavélina ef þau eru óhrein svo ekki sé stigið á þau? 

Verra:

-Þarftu alltaf að vera klukkustundum saman inná baði?

-Þetta er óþolandi tillitsleysi við aðra á heimilinu!

-Þú verður að stytta tímann!

-Annars verður maður að fara að míga út í garði! 

Betra:

-Bæði í gær og í dag varstu í klukkutíma á baðherberginu.

-Þetta pirrar mig vegna þess að ég er að bíða eftir að komast á klósettið og bursta tennurnar og kemst ekki í háttinn.

-Gætirðu stytt tímann sem þú ert inni á baðinu?                                                

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Frjálsri verslun í ágúst 2013.