Kórónuveiran kennir okkur að æfa „seigluvöðvann“

Kórónuveiran hefur fært okkur tækifæri til að æfa „seigluvöðvann“. 

Seigla er hæfileikinn til að sigrast á mótlæti lífsins og gefast ekki upp þótt á móti blási. Við getum tekist á við mótlæti með því að tileinka okkur bjartsýni og lausnamiðað hugarfar og með því að viðhafa jákvætt sjálfstal. Við getum líka leitað eftir félagslegum stuðningi og sótt styrk í fólkið sem stendur okkur næst. Mótlæti fær okkur oft til að uppgötva hæfileika og innri styrk sem við vissum ekki að við hefðum.

Seigla virkar eins og vöðvi sem við getum styrkt
Öll búum við yfir seiglu og öll höfum við möguleika til að takast á við mótlæti með seiglu að vopni. Seigla samanstendur af ýmiskonar færni eins og að stjórna eigin tilfinningum og hegðun, halda aftur af hvötum, leggja raunhæft mat á örsök vandamála og hafa trú á eigin getu. Þegar við nýtum þessa færni erum við betur í stakk búin til að þrauka í gegnum erfiða tíma. Við höfum svo sannarlega þurft að sýna aðlögunarhæfni undanfarna mánuði og velta fyrir okkur hvernig best sé að takast á við nýjan veruleika. Seigla er ekki sjálfgefin og hún virkar eins og vöðvi. Þegar við notum seigluvöðvann styrkist hann en ef við notum hann ekki rýrnar hann, alveg eins og með aðra vöðva.  

Við getum stjórnað miklu sjálf
Aðstæðurnar í dag gefa okkur færi til að byggja upp seiglu sem samfélag og sem einstaklingar. Fyrir faraldurinn bjuggum við í frekar hvatvísum heimi þar sem við vorum að allan sólarhringinn án þess að hvíla okkur almennilega og þakka fyrir hlutina. Undanfarna mánuði höfum við fengið kærkomið tækifæri til að hægja aðeins á okkur, vera meira til staðar og gera hlutina af ásetningi. Við verjum meiri tíma með fjölskyldum okkar og upplifum þakklæti. Þó að efnahagslega og félagslega landslagið hafi tekið breytingum, er mikilvægt að hafa í huga að það er margt sem við getum stjórnað. Við getum hlúð að okkur sjálfum. Við getum tekið ákvarðanir um hreyfingu, mataræði, svefn, hugleiðslu og útivist. Við getum haft áhrif á eigið hugarfar og vellíðan. Við getum sýnt frumkvæði og metnað og valið viðbragð okkar við því sem lífið færir okkur í fang. Við getum aukið félagslega virkni og eflt samskipta- og félagsfærni.

Sjálfsþekking er lykillinn að seiglu
Sjálfsþekking skiptir sköpum því ef við áttum okkur ekki á því að eitthvað er að, munum við ekki laga það. Við þurfum sjálfsþekkingu til að átta okkur á því að við getum stjórnað tilfinningalegum viðbrögðum okkar og þurfum ekki að láta stjórnast af neikvæðum tilfinningum. Hluti þess sem gerir okkur fær um að takast á við mótlæti er að skoða okkur sjálf og laga okkur að kröfunum sem aðstæðurnar sem við erum í gera til okkar. Það er gott að staldra við, vera í fullri vitund og spyrja sig hvaða færni og viska gagnist okkur í núverandi aðstæðum og hvernig best sé að bregðast við. Það að skima eftir tækifærum til að læra meira um sjálfan sig getur aukið persónulegan þroska.

Það er mikilvægt að efla seiglu til að þrífast í lífsins ólgusjó og láta ekki erfiðar andlegar aðstæður buga sig.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Kjarnanum 8. september 2020.