Hversu full er fatan þín?

Við vitum öll að neikvæðni er ekki góð. Fæstir átta sig þó á því að neikvæðni getur verið skaðleg. Rannsóknir í Bandaríkjunum hafa leitt í ljós að neikvæðni á vinnustað kostar efnahagslífið 300 miljarða dollara á ári auk þess sem hún fælir burt viðskiptavini.

Fyrirtæki sem hvetja til jákvæðra persónulegra samskipta geta því skapað sér mikið samkeppnisforskot.

Þó að jákvæðni á vinnustað hljómi eins og nýtt hugtak hafa hugmyndir um það verið að bræðast í svolítinn tíma. Hálfri öld áður en bandaríska sálfræðingafélagið tilnefndi hann sem “Faðir jákvæðnisálfræðinnar” árið 2002 var Dr. Donald Clifton þegar upptekinn við að rannsaka áhrif jákvæðni á fólk og vinnustaði. Niðurstöðurnar fengu hann til að trúa því að jákvæð samskipti hefðu mun meiri áhrif en fólk almennt áttaði sig á.

Kenningin um ausuna og fötuna
Donald Clifton þróaði kenningu sem gjarnan er nefnd “kenningin um ausuna og fötuna”. Við eigum öll okkar myndrænu, ósýnilegu fötu sem við tökum með okkur hvert sem við förum. Í fötunni geymum við tilfinningar okkar. Fatan fyllist af jákvæðum samskiptum eins og klappi á bakið eða fallegum orðum í okkar garð – oftast litlum hlutum, sjaldnast stórum hlutum eins og stöðu- eða launahækkun. Fatan okkar tæmist af neikvæðum samskiptum eins og t.d. neikvæðum hugsunum eða gagnrýni annarra. Okkur líður frábærlega þegar fatan okkar er full, og hörmulega þegar hún er tóm. Því meira sem er í fötunni okkar, því auðveldara verður að deila umframmagninu með öðrum.

Við eigum einnig ósýnilega ausu sem við getum notað til að tæma eða fylla fötur annarra – en þegar við fyllum fötur annarra fyllum við einnig á okkar eigin fötu. Þannig er jákvæðari orka til á vinnustöðum þar sem starfsfólkið er með fullar fötur – og það nær þar af leiðandi meiri árangri og skapar meiri arðsemi - en á vinnustöðum þar sem föturnar eru tómar. Myndlíkingin fór að lifa sínu eigin lífi og í dag hafa fleiri en 500 fyrirtæki og meira en milljón einstaklingar komið kenningunni í framkvæmd.

Árið 2002 greindist Donald Clifton með krabbameini og fann að hann átti ekki langt eftir. Hann varði síðustu mánuðum lífs síns í að skrifa bók um kenninguna sína sem svo margir höfðu beðið hann um og fékk Tom Rath hjá Gallup International til að aðstoða sig við það. Þeir luku við bókina rétt áður en Clifton dó og afrakstur vinnu þeirra How Full is Your Bucket? Positive Strategies for Work and Life kom út í ágúst 2004. Bókin er metsölubók í Bandaríkjunum hjá bæði New York Times og tímaritinu Business Week.

20.000 augnablik á dag
Kenningin um fötuna og ausuna fjallar um dagleg samskipti okkar við fólk. Þessi samskipti geta verið hlutlaus, neikvæð eða jákvæð. Einn virtasti rannsakandi Gallup, Daniel Kahnemann, segir að hér sé um að ræða um 20.000 augnablik á hverjum einasta degi, og að hvert augnablik vari í um þrjár sekúndur. Þessi samskipti eru sjaldnast hlutlaus, þau eru nær alltaf annaðhvort jákvæð eða neikvæð. Og við getum með ráðnum huga valið að hafa þau jákvæð eða neikvæð.
 
Tengslin okkar myndast með litlum augnablikum – og tengsl hafa úrslitaáhrif í viðskiptum. Gögn frá bandaríska viðskiptamálaráðuneytinu sýna að aðalástæða þess að fólk segir upp hjá fyrirtækjum er sú að því finnst það ekki verið metið að verðleikum. Könnun Gallup á síðasta ári sýndi að 65% starfsfólks sagðist ekki fá viðurkenningu og hrós fyrir vel unnin störf. Þannig að það eru klárlega ekki nógu mörg jákvæð samskipti á vinnustöðum.

Kostnaðarsöm áhrif
Rannsóknir Gallup sýna að 99% starfsfólks vill hafa jákvæðara andrúmsloft á vinnustaðnum og 90% segjast vera afkastameiri þegar þeir eru umkringdir jákvæðum einstaklingum. Starfsmenn sem hafa fengið hrós og viðurkenningu á síðastliðnum sjö dögum skila meiri afköstum, fá betra mat frá viðskiptavinum, eru líklegri til að vera áfram hjá fyrirtækinu og gera færri mistök. Þeir eru einfaldlega áhugasamari og meira tilbúnir til að leggja sig fram.

Starfsmenn sem eru á hinn bóginn búnir að missa áhugann – starfsmenn sem eru ekki aðeins óánægðir með hlutverk sitt en fæla einnig viðskiptavini frá – kosta bandaríska efnahagslífið um 300 miljarða dollara á ári. Þegar veikindadögum, starfsmannaveltu, meiðsli og öðrum þáttum sem tengjast neikvæðni eða áhugaleysi er bætt við nemur kostnaðurinn miljón milljónir dollara, sem er nærri 10% af þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna. Rannsóknir í öðrum löndum sýna sambærilegar niðurstöður. Það væri betra fyrir fyrirtæki ef mjög neikvæðir starfsmenn sætu heima frekar en að mæta í vinnuna.

Leiðir til að fylla fötuna
Bókin How Full is Your Bucket segir frá nokkrum mikilvægum leiðum til að fylla fötuna sína. Í fyrsta lagi er mikilvægt að koma í veg fyrir að fata manns tæmist með því að spyrja sjálfan sig hvort maður sé að fylla eða tæma fötuna annarra. Ertu að gera stöðugt grín að einhverjum? Bendir þú fólki aðeins á það sem það gerir rangt? Í öðru lagi er gott að beina orkunni og athyglinni að því sem er jákvætt í stað þess að einblína á hið neikvæða. Samkvæmt höfundunum Tom Rath og Don Clifton þarf maður að segja að minnsta kosti fimm jákvæða hluti við fólk áður en maður getur sagt eitthvað neikvætt. Sálfræðingurinn John Gottman komst að því í merkilegri rannsókn að hjónabönd endast ekki ef hlutföllin eru ekki betri en 1 jákvætt á móti einu neikvæðu. Í þriðja lagi er mikilvægt að eignast bestu vini þar sem þessi sambönd leiða til aukinnar ánægju. Segðu fólki í kringum þig að þér þyki vænt um það og hvers vegna. Veittu öðrum stuðning og hvatningu og vertu sá sem það getur leitað til. Í fjórða lagi er um að gera að gefa óvæntar gjafir, sem geta verið hlutir, traust, virðing, ábyrgð eða hrós. Það að fá óvænta gjöf fyllir fötuna óvæntri orku. Síðast en ekki síst er mikilvægt að snúa gullnu reglunni við: Að koma fram við aðra eins og þeir vilja að þú komir fram við þá. Maður þarf að beita einstaklingsbundinni nálgun og finna út hvað knýr hvern og einn áfram. Sumir upplifa hvatningu þegar þeir fá áþreifanleg verðlaun eða gjafir á meðan öðrum finnst orð og viðurkenning vera mikilvægari. Sumir vilja fá hrós í hópi, aðrir vilja frekar fá hól í einrúmi eða frá þeim sem þeir virða mikils.

Jákvæðar hugsanir geta orðið að venju alveg eins og neikvæðar hugsanir. Þar sem líf okkar allra tvinnast saman er mikilvægt að einblína á hið jákvæða og njóta samskiptanna við annað fólk.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 26. janúar 2005.