Hvað boðar nýárs blessuð sól?

Nýtt ár er handan við hornið og á tímamótum sem þessum er til siðs að staldra ögn við, líta yfir farinn veg og velta fyrir sér núverandi stöðu. .

Of margir burðast með byrðar gærdagsins með því að velta sér upp úr eigin misbrestum eða mistökum liðins árs.

Táknræn leið inn í nýtt ár er að segja skilið við fortíðina með athöfn sem mætti kalla „persónulega áramótabrennu“. Þú skrifar einfaldlega niður allt það sem hefur haldið aftur af þér, dregið þig niður, eða truflað þig. Þegar allt hefur verið skráð niður er kveikt í blaðinu og horft á það brenna. Það er eitthvað sérlega græðandi við að horfa á áhyggjur sínar og sjálfsásakanir brenna til kaldra kola.  

Dæmi um það sem væri hægt að segja skilið við:

  • „Ég ætla að segja skilið við óöryggið á liðnu ári. Ég hef verið með miklar efasemdir um eigið ágæti eftir að hafa farið í mörg árangurslaus atvinnuviðtöl.“
  • „Ég ætla að hætta að láta líðan annarra hafa áhrif á eigin líðan.“
  • „Ég ætla að hætta að fara hjá mér þegar einhver hrósar mér.“ 
  • „Ég ætla að draga úr fullkomnunaráráttunni sem hefur hrjáð mig í mörg ár.“
  • „Ég ætla að hætta að tuða yfir smámunum sem skipta engu máli þegar upp er staðið.“
  • „Ég ætla að hætta að hafa áhyggjur af því hvernig ég kem fyrir sjónir eða hvort fólki líki við það sem ég hef fram að færa.“
  • „Ég ætla að hætta að hafa áhyggjur af öllu því sem gæti mögulega gerst eða ekki gerst í framtíðinni.“
  • „Ég ætla að hætta að vera óánægð(ur) með útlitið.“
  • „Ég ætla að hætta allri meðvirkni þar sem hún hefur neikvæð áhrif á líðan mína.“
  • „Ég ætla að hætta að láta aðra vaða yfir mig.“ 
  • „Ég ætla að hætta að láta sjálfa(n) mig sitja á hakanum.“

Hvað langar þig að segja skilið við í lok ársins sem nú er að renna sitt skeið?

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 26. desember 2016.