Horft til framtíðar - erum við tilbúin í slaginn?

Í kjölfar hins alvarlega hruns sem efnahagskerfi okkar hefur farið, og er að fara í gegnum, hafa heyrst raddir um nauðsyn þess að byggja samfélag og fyrirtæki upp frá grunni á nýjum gildum.

Mikið er rætt um að viðskiptasiðferði hafi verið ábótavant og gróðahyggjan ein hafi verið við stjórnvölinn. Hvort þetta er satt og rétt skal hér látið liggja milli hluta en þó er margt sem bendir til að íslenskt samfélag þurfi að hugsa gildi sín uppá nýtt. Þessu til stuðnings má nefna rannsókn sem Richard Barrett gerði hérlendis vorið 2008 á gildum Íslendinga. Niðurstöður hans sýndu að þau gildi sem Íslendingar vilja standa fyrir eru allt önnur en þau sem Íslendingar telja að séu við lýði í samfélaginu. Óhætt er að tala um hrópandi mótsögn í þessu samhengi og sú mynd sem Íslendingar draga upp af samfélagsgildum er hreint ekki hugguleg en þar fara hátt efnisleg gildi, forréttindahyggja, spilling, sóun auðlinda og skammsýni. Þau gildi sem Íslendingar vilja sjá eru hinsvegar eru meðal annars ábyrgð, fjölskyldan, atvinnumöguleikar, bjartsýni, heiðarleiki og samfélagsleg ábyrgð. Þetta mikla misræmi verður ekki skýrt með því að benda á einhvern einn hóp manna, til að svona megi fara þurfa fleiri að leggjast á árar með það. 

 Íslendingar vilja hafa  Íslendingar telja að séu
Ábyrgð Forréttindahyggja
Fjölskyldan Spilling
Atvinnumöguleikar Sóun auðlinda
Bjartsýni Skammsýni
Heiðarleiki Efnisleg gildi
Samfélagsleg ábyrgð Óvissa með framtíðina

 

Íslenskt atvinnulíf stendur frammi fyrir því að þurfa að endurskipuleggja, hagræða, endurhugsa og í sumum tilfellum reisa úr rústum. Það er verulegt umhugsunarefni með hvaða hætti við höfum hugsað okkur að gera það. Á hvaða grunni munum við vilja byggja slíka endurreisn? Það er væntanlega nauðsynlegt  að huga að samhljómi milli atvinnulífs og hins vinnandi Íslendings og hafa að einhverju leyti sem veganesti þau gildi sem Íslendingar vilja standa fyrir við þá endurreisn. Nú þarf hugur og hönd að starfa saman, við þurfum öll að koma að verkinu.

Það eru ekki ný sannindi að fyrirtækjum sem setja sér gildi sem eru æðri og ganga fyrir kröfunni um hagnað vegnar betur en þeim fyrirtækjum sem ekki setja inn slík leiðarljós í rekstur sinn. Þetta hefur verið sýnt fram á í fjölda rannsókna og má nefna  einstaklega áhugaverðar bækur Jim Collins og Jerry I. Porras, Built to Last og Good to Great sem gefnar voru út árið 1994 sú fyrri og árið 2001 sú seinni. Þar greina höfundar frá metnaðarfullum rannsóknum sínum á langlífum og árangursríkum fyrirtækjum og stjórnendum þeirra. Segja má að niðurstöðurnar kristallist í því að til að skapa slíkt fyrirtæki þarf það að hafa hjarta sem slær, einhvern æðri tilgang sem gefur næringu til góðra verka og árangurs. Það er ekki nóg að skapa fyrirtæki sem hefur það að markmiði að hámarka hagnað hluthafa, hversu markvert sem okkur kann að þykja það. Niðurstöðurnar segja okkur líka að höfuðið sem stýrir hendinni, stjórnandi fyrirtækisins, þarf að hafa ákveðna eiginleika svo tryggja megi farsæld. Hann þarf að vera harðduglegur, heiðarlegur, árangursdrifinn og hugsa fyrst og fremst um sjálfan sig sem manneskju í þjónustu vinnustaðar, samstarfsmanna og samfélags. Það má benda á að þessi prófíll af stjórnanda passar mjög vel við líkanið um Servant leadership eða Þjónandi forystu. En sú afstaða til stjórnunar gengur út á að stjórnandinn og reyndar starfsmenn allir séu fyrst og fremst þjónar hvers annars, vinnustaðar síns og samfélagsins í heild. Það er áleitin hugsun hvort slík afstaða væri ekki íslensku viðskiptalífi og samfélagi í heild ákaflega gagnleg núna í þessum miklu erfiðleikum sem steðja að.

Samkvæmt niðurstöðum Collins og Porras eru fyrirtæki þar sem gildi og framtíðarsýn eru höfð að leiðarljósi einfaldlega mun árangursríkari en önnur. Þegar upp er staðið vegnar þeim betur en þeim fyrirtækjum sem eru meira hagnaðardrifin. Þetta er staðfest í fjölda rannsókna, meðal annars rannsóknum Richard Barretts sem framkvæmdi áðurnefnda rannsókn á gildum Íslendinga. Hann segir í bók sinni Building a Values-Driven Organization. A Whole System Approach to Cultural Transformation (2006) að til að byggja upp gilda-drifið fyrirtæki með framtíðarsýn þurfi þrennt að koma til. Í fyrsta lagi verða stjórnendur að tileinka sér gildin, fara fyrir varðandi upptöku gildanna og í raun þurfa þeir að vera holdgervingar gildanna. Breytingaferlið í átt að gilda-drifnu fyrirtæki þarf að hefjast hjá stjórnendateyminu. Í öðru lagi þurfa sýnin, gildin og markmiðin og allar gjörðir að vera áhrifavaldar í allri ákvarðanatöku. Gildin og sýnin verða að endurspeglast í öllum ferlum, kerfum og öðrum hliðum formgerðar fyrirtækjanna. Til dæmis verða allar ráðningar, stjórnendaþjálfun, nýliðamóttaka og þjálfun, reglur varðandi stöðuhækkanir og í raun allt verk- og vinnulag að taka mið af gildunum og sýninni. Í þriðja lagi þarf að taka reglulega stöðumat á menningarþáttum og fylgjast með hvort skipulagsheildin er raunverulega að halda sig á þeirri stefnu sem sett hefur verið.

Samkvæmt niðurstöðum Collins og Porras er ástæða velgengni gilda-drifinna fyrirtækja sú að gildin og hinn æðri tilgangur eru sterkari drifhvatar til árangurs frekar en hagnaðarvonin. Þau veita starfsmönnum öllum meiri innblástur en ella. Einnig segja þeir að gilda-drifin fyrirtæki taki yfirvegaðri ákvarðanir og freistist síður til skammsýnna aðgerða og segja má að gildin og tilgangurinn virki þannig sem vitinn í myrkrinu sem beinir rétta leið þegar erfiðleikar steðji að eða freistingar um skammvinnan hagnað verða í vegi.

Hvorki tilgangur né gildi verða hirt upp eftir hentugleika eða „smart“ heitum, hvorutveggja verða að spretta upp úr sönnum jarðvegi grasrótarinnar þar sem spurningunum; Hver er tilgangur okkar? og Fyrir hvað viljum við standa? er svarað af fyllstu einlægni en mikilli festu. Skipulagsheildin öll, menn og mýs, þurfa síðan að verða holdgervingar gildinna þar sem tilgangurinn varðar veginn.

Samfélag í sátt og árangursrík fyrirtæki og stofnanir er það verkefni sem blasir við okkur að ráðast í. Erum við tilbúin í slaginn?

Greinarhöfundur: Þórhildur Þórhallsdóttir.