Hlúum að vellíðan á óvissutímum

Heimsfaraldurinn sem nú geisar hefur haft mikil áhrif á daglegt líf og það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að hlúa að andlegri vellíðan. Hvað getum við gert?

Sleppum tökunum á því sem við stjórnum ekki
Að sleppa tökunum á því sem við getum ekki stjórnað getur dregið úr áhyggjum og bætt líðan. Við getum sem dæmi ekki stjórnað því fullkomlega hvort við munum smitast eða hvort við fáum fjórðu bylgjuna. Við stjórnum heldur ekki hvort allir fari eftir sóttvarnareglunum. 

Setjum hlutina í samhengi 
Margir standa frammi fyrir stærri áskorunum en við sjálf og eru sem dæmi í áhættuhópi fyrir veirunni, hafa misst ástvini eða glíma við eftirköst. Sumir hafa misst vinnuna eða reksturinn sinn. Það er hollt að reyna að setja sig í spor annarra. Við erum lánsöm að búa á Íslandi þar sem er gott heilbrigðiskerfi og öflug framvarðasveit. Við höfum líka alla burði til að vinna okkur út úr kreppunni.

Veljum athafnir okkar og fókus 
Við getum á hverju augnabliki valið hvað við gerum og veitum athygli. Í stað þess að hafa áhyggjur er gott að einbeita sér að uppbyggilegum hlutum í lífinu, eins og t.d. samveru með fjölskyldunni, áhugamálum eða hreyfingu úti í náttúrunni. Þegar við veitum góðum hlutum athygli fáum við meira af þeim.

Ræktum félagsleg tengsl 
Nærandi og gefandi samskipti við aðra hafa sterk jákvæð tengsl við vellíðan. Undanfarna mánuði hafa verið töluverðar takmarkanir á félagslegum samskiptum, sem eru nauðsynlegar til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar, en ekki eins góðar fyrir andlega heilsu okkar. Þess vegna er mikilvægt að rækta félagsleg tengsl við vinnufélaga, vini og ættingja. 

Gerum góðverk
Þegar við sýnum gæsku og náungakærleik örvast vellíðanar- og umbunarstöð heilans og gefur frá sér dópamín, sem er taugaboðefni sem framkallar ánægju og yljar hjartarótunum. Vellíðanartilfinningin er einnig afleiðing endorfína. Auk þess losar um oxýtósín, sem er hormón sem m.a. styrkir hjartað og eflir tilfinningabönd. Góðverkið þarf ekki að vera stórt, það er hugurinn sem skiptir mestu máli.

Höldum í húmorinn 
Hlátur á sinn þátt í því að styrkja ónæmiskerfið og draga úr streitu. Þegar við hlæjum framleiðir líkaminn m.a. dópamín sem hefur róandi áhrif og minnkar kvíða. Hlátur hefur góð áhrif á hjarta- og æðakerfið og bætir minnið. Húmor og hlátur virka sem nokkurs konar ventill sem losar um spennu og veitir útrás fyrir bældum tilfinningum. 

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á man.is 18. desember 2020.