Hættu að flækja málin

Markmið flestra í lífinu er að öðlast sanna hamingju. Það sem heldur aftur af okkur og kemur í veg fyrir að við látum drauma okkar rætast er í langflestum tilfellum við sjálf.

Við setjum, viljandi eða óviljandi, takmarkanir á okkur sjálf. Til að öðlast auka hamingju er mikilvægt að hætta að flækja málin og lifa lífinu.

Gott er að sleppa eftirfarandi takmarkandi tilfinningum og hugmyndum:

  1. Viðurkenningarþörf. Vertu ekki upptekin(n) af því hvað öðrum finnist. Ef þú ert ánægð(ur) með líf þitt hvers vegna þá að láta skoðanir annarra afvegaleiða þig. Ímyndaðu þér hversu miklu þú gætir áorkað ef þú hættir að láta skoðun annarra stjórna því hvernig þú lifir þínu lífi. Hættu að geðjast öðrum og hlustaðu á þina innri rödd.  
  2. Reiði/gremja. Reiði étur þig upp að innan. Lærðu að sættast við þá sem hafa beitt þér órétti. Þetta snýst ekki um að sleppa viðkomandi heldur frekar að lina vondu tilfinningarnar sem þú upplifir. Hafðu í huga að sá sem reytir þig til reiði hefur vald yfir þér. 
  3. Neikvætt líkamsálit. Það er aðeins eitt álit sem þú ættir að láta þig varða þegar kemur að líkamanum og það er þitt eigið. Enginn einn getur ákveðið hver er „rétt“ líkamsstærð. Það að líða vel í eigin skinni og vera hraustur er það eina sem skiptir máli. Láttu ekki aðra telja þér trú um að þú sért ekki falleg(ur) því að ef þú trúir því þá er það sannleikurinn.
  4. Fullkomið líf. Hið fullkomna líf er ekki til. Lífið er það sem þú gerir úr því þannig að þú verður að vera tilbúin(n) til að leggja þig fram. Þær ákvarðanir sem þú tekur hafa bein áhrif á líf þitt. Það er undir þér komið að skapa bestu mögulegu aðstæður fyrir þig. 
  5. Að treysta á heppni. Það er ekki hægt að vera í aftursætinu og bíða eftir að hlutirnir gerist heldur er mikilvægt að hafa frumkvæði og leita leiða til fyllra lífs. Vert þakklát(ur) fyrir það sem þú hefur og hvernig þú lifir lífinu. Mettu mikils hverja mínútu og hvern dag. Lifðu eins og enginn sé morgundagurinn, og gerðu það besta úr öllum aðstæðum.
  6. Afsakanir. Hættu að afsaka þig. Þig langar að hreyfa þig en segist ekki hafa tíma? Vaknaðu snemma og mættu í ræktina. Afsakanir eru aðeins réttlæting sem fær þig til að líða betur fyrir að gera ekki eitthvað sem þú vilt gera eða ættir að vera að gera. Ef þú vilt ná árangri þá skaltu einfaldlega hefjast handa.
  7. Frestunarárátta. Hættu að fresta verkefnum til morgundagsins. Lifðu í núinu og láttu verkin tala. Nýttu tíma þinn og hæfileika sem best. Ljúktu við hvert verkefni eins fljótt og unnt er. Þetta losar þig við streitu og áhyggjur. Þú færð einnig meiri tíma fyrir það sem þú hefur ánægju af. 
  8. Neikvæðni. Það sem þú sendir út í alheiminn færðu tilbaka þannig að viðhorf þitt er gríðarlega mikilvægt. Ákveddu að glasið sé hálf fullt en ekki hálf tómt. Þú hefur svo mikið sem þú getur verið þakklát(ur) fyrir. Ekkert er ómögulegt í huga bjartsýnna. 
  9. Að fella dóma. Margir finna sig knúna til að dæma hegðun og ákvarðanir annarra. Ef við myndum verja jafn miklum tíma í að hugsa um okkur og við verjum í að hugsa um aðra væri líf okkar miklu innihaldsríkara. Við höfum ekki hugmynd um hvað er að gerast í lífi annarra og ættum þar af leiðandi ekki að vera að fella neina dóma. 
  10. Öfund. Hamingja er ekki að fá það sem þú vilt heldur að vilja það sem þú hefur. Því er mikilvægt að hætta að öfunda aðra af því sem þeir eiga og læra að meta það sem þú hefur. Líf okkar er einstakt og við búum öll yfir sérstökum hæfileikum. Öfund færir okkur aðeins neikvæðar tilfinningar. Við græðum á engan hátt á þeim.  
  11. Óöryggi. Hamingjusamir einstaklingar hafa yfirleitt heilbrigt og gott sjálfsálit. Þeir eru sáttir við sjálfa sig og ljóma af sjálfstrausti. Þeir eru stoltir af eigin frammistöðu og gefa frá sér jákvæða strauma. Það er engin ástæða til að vera óöruggur í lífinu. Þú getur breytt því sem þú ert ekki ánægð(ur) með. Þú ein(n) getur skapað bestu útgáfuna af sjálfum/sjálfri þér.   
  12. Að treysta á að aðrir geri okkur hamingjusöm. Þegar upp er staðið þá ert þú eina manneskjan sem þú getur treyst 100% á. Varastu að gera þau mistök að leggja hamingju þína í hendur annarra. Ekki er hægt að ætlast til þess að annað fólk geri þig hamingjusama(n). Hamingjan kemur innan frá. Við verðum að byrja á okkur sjálfum. 
  13. Fortíðin. Hættu að lifa í fortíðinni. Þú græðir ekkert á því að velta þér upp úr henni. Lærðu af mistökum, taktu fortíðina í sátt og haltu áfram. Þú getur ekki skapað þér betri framtíð ef þú horfir stöðugt í baksýnisspegilinn. Slepptu takinu.
  14. Þörfin fyrir að stjórna. Stundum þarf einfaldlega að láta lífið hafa sinn gang. Þú getur ekki varið lífi þínu í áhyggjur af hlutum sem þú hefur ekki stjórn á. Reyndu að slaka á og taktu því óvænta opnum örmum. Leyfðu öllu og öllum að vera eins og þeir eru og gefðu frá þér þörfina fyrir að stjórna öllu.
  15. Væntingar. Væntingastjórnun er lykillinn að hamingjunni. Þegar þú býst ekki við því sem aldrei getur orðið verður þú ekki fyrir vonbrigðum. Oft erum við með fyrirfram mótaðar skoðanir um framkomu eða hegðun annarra og verðum síðan fyrir vonbrigðum. Nálgastu hverja reynslu því með opinn hug. Það hefur gagnast mörgum vel að vera bjartsýnn og á sama tíma raunsær. 

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 14. mars 2014.