Faðmlög eru undrameðal

Áhrif líkamlegrar snertingar eru óumdeild. Rannsóknir hafa til dæmis sýnt fram á að ungbörnum gengur mun betur ef þau fá knús og faðmlag. Þau vaxa hraðar, og byrja fyrr að skríða og ganga.

Þau eru auk þess með betra ónæmiskerfi, sofa betur og eru virkari. Ef ungbörn fá ekki snertingu getur það haft áhrif á tilfinningalegan þroska þeirra.

Tiffany Field, prófessor í barna- og geðlækningum við háskólann í Miami, segir að snerting sé jafn mikilvæg fyrir vöxt og velferð barna og hollt mataræði og hreyfing. 

Fullorðið fólk þráir ekki síður snertingu og faðmlög. Vilborg Arna Gissurardóttir, sem náði á Suðurpólinn eftir að hafa gengið ein síns liðs í sextíu daga, lýsir því mjög vel í bókinni Ein á enda jarðar: „Óskaplega var ég búin að bíða lengi eftir að þrýsta örmum mínum um aðra manneskju. Og ég gleymi mér um stund. Það hvarflar ekki að mér að sleppa faðminum, sem kann að vera neyðarlegt fyrir hina félagana, en það má einu gilda; ég þarf nauðsynlega á þéttu og góðu knúsi að halda.“  

Áhrif innilegs og hlýs faðmlags eru ótvíræð:

 • Sú nærandi snerting sem felst í faðmlagi skapar traust og öryggistilfinningu, sem stuðlar að opnum og heiðarlegum samskiptum.
 • Faðmlög leysa úr læðingi hormón sem kallað er oxytósín, en það auðveldar tengslamyndun og eykur vellíðan. Sömu áhrifin koma fram þegar við klöppum gæludýrum. Sama hormón lækkar blóðþrýsting og minnkar þannig hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.
 • Faðmlag sem varir í að minnsta kosti 20 sekúndur hækkar magn serótóníns og dópamíns í blóðinu, en þau eru vellíðunarefni sem hafa áhrif á skapferli og almenna virkni. 
 • Faðmlög styrkja ónæmiskerfið með því að örva hóstakirtilinn en hann stjórnar framleiðslu líkamans á hvítum blóðkornum sem halda okkur heilbrigðum og koma í veg fyrir sjúkdóma. 
 • Faðmlög losa spennu í líkamanum og lina verki með því að örva taugaenda og auka blóðflæðið í mjúku vefjunum.
 • Faðmlög koma jafnvægi á taugakerfið. Þegar við fáum knús breytist leiðni í húðinni. Breytingin á rakastigi og rafmagni í húðinni skapar jafnvægi í taugakerfinu.
 • Faðmlag eykur marktækt magn hemóglóbín í blóðinu sem ber ábyrgð á flutningi súrefnis til líffæra eins og heila og hjarta. Aukning á hemóglóbíni styrkir líkamann, kemur í veg fyrir sjúkdóma og hraðar bata.  
 • Faðmlög styrkir sjálfsálitið. Frá því við fæðumst sýnir snerting fjölskyldumeðlima okkur að við erum elskuð og sérstök. Faðmlögin sem við fengum frá foreldrum okkar í æskunni eru innstimpluð í taugakerfi okkar.
 • Orkuskiptin milli tveggja einstaklinga sem faðmast er fjárfesting í sambandinu. Snerting ýtir undir samkennd og skilning og skapar nánd.
 • Faðmlög kenna okkur að gefa og þiggja. Það er jafn mikilvægt að taka á móti og vera móttækilegur fyrir hlýju og að gefa og deila. Faðmlög kenna okkur að ást er gagnkvæm.
 • Faðmlög virka að mörgu leyti eins og hugleiðsla og hlátur. Þau kenna okkur að sleppa fram af okkur beislinu og lifa í núinu. Við tengjumst tilfinningum okkar, hjörtum og öndun. 

Faðmlög hafa engar aukaverkanir og ekki þarf lyfjaávísun frá lækni. Þau eru einfaldlega undrameðal.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 14. desember 2016.