Er fjögurra daga vinnuvika besta leiðin til að auka vellíðan?

Víða um heim er verið að gera tilraunir með fjögurra daga vinnuviku. En er þetta besta leiðin til að auka vellíðan, bæta afköst og draga úr neikvæðum afleiðingum langvarandi álags eins og kulnunar? 

Í þessari grein er fjallað um það sem rannsóknir Gallup í Bandaríkjunum hafa leitt í ljós.

Vinnutímastytting lofar góðu
Við fyrstu sýn virðist fækkun vinnustunda skila árangri. Tilraun sem var gerð hér á landi frá 2015-2019 sýndi sem dæmi að með því að fækka vinnustundum gegn sömu launum jókst framleiðni. Einnig var meiri vellíðan og minna um kulnun hjá starfsmönnum. Í Japan eru atvinnurekendur hvattir til að leyfa starfsmönnum að vinna 10 tíma á dag fjóra daga vikunnar. Skotland hefur tilkynnt áform um að stytta vinnuvikuna um 20% án lækkunar launa. Spánn hrinti nýlega af stað þriggja ára tilraun með 32 klukkustunda vinnuviku en yfir 200 vinnustaðir taka þátt í þeirri tilraun á landsvísu. 

Hér á Íslandi er útfærslan á vinnutímastyttingunni víða þannig að starfsmenn eru í fríi annan hvern föstudag. Eftir reynsluna í kórónuveirufaraldrinum, þar sem margir unnu fjarvinnu nær eingöngu, bjóða margir vinnustaðir upp á svokallað „hybrid fyrirkomulag“ sem er blanda af fjarvinnu og vinnu á staðnum.

Tengslin milli vinnustunda, starfs og vellíðanar eru flókin
Í mars 2020 spurði Gallup 10.364 bandaríska starfsmenn í fullu starfi hversu marga daga þeir ynnu að jafnaði. Aðeins 5% sögðust vinna fjóra daga vikunnar, 84% sögðust vinna fimm daga og 11% sex daga.

Gallup safnaði einnig gögnum um helgun starfsmanna (e. engagement) og vellíðan þeirra. Af þeim sem unnu sex daga vikunnar sögðust 38% upplifa kulnunareinkenni oft eða alltaf. Af þeim sem unnu fimm daga vikunnar voru 26% með kulnunareinkenni oft eða alltaf samanborið við 23% hjá þeim sem sögðust vinna fjóra daga. Að auki reyndust þeir sem unnu fjögurra daga vinnuviku upplifa mestu vellíðanina (63%) samanborið við þá sem unnu fimm daga (57%) og sex daga (56%).

Það vekur athygli að á meðan hlutfall þeirra sem upplifðu helgun í starfi var svipað í hópunum þremur (36%-38%) var hlutfall þeirra sem upplifðu litla helgun í starfi hæst hjá þeim sem unnu fjögurra og sex daga vinnuviku eða 17%. Lægst var helgun í starfi hjá þeim sem unnu fimm daga vinnuviku eða 12%.

Þetta sýnir að áhrif fjölda vinnustunda á vellíðan og helgun er aðeins flóknara er virðist í fyrstu. Vellíðan eykst með fjögurra daga vinnuviku en ekki helgun starfsmanna. Það er líklegt að styttri vinnuvika bjóði fleiri tækifæri til að hlúa að félagslegri, líkamlegri og andlegri vellíðan jafnvel þótt hún auki mögulega hlutfall þeirra sem ekki upplifa helgun í starfi.

Þetta snýst ekki um fjölda vinnudaga heldur vinnustaðinn
Umræður um vinnutímastyttingu eru ekki nýjar af nálinni. Það er hins vegar ekki bara fjöldi vinnustunda sem skiptir máli eins og eftirfarandi staðreyndir sýna:

  • Rannsóknir Gallup hafa ítrekað leitt í ljós að starfsmenn vilja meiri sveigjanleika og að sveigjanleikinn tengist aukinni helgun í starfi. Sveigjanleiki gerir starfsmönnum kleift að stuðla að vellíðan á öðrum sviðum lífsins og skipuleggja lífið eins og þeim hentar, sem minnkar streitu. 
  • Rúmlega tveir þriðju starfsmanna blómstra burtséð frá því hversu marga klukkutíma þeir vinna.
  • Greining á vinnandi fólki á sjö stöðum í heiminum leiddi í ljós að starfsmenn sem upplifa litla starfsánægju og hafa fá tækifæri til að gera það sem þeir kunna best meta lífið minna og upplifa færri jákvæðar stundir eftir því sem vinnutíminn eykst. Starfsmenn sem upplifa meiri starfsánægju og hafa tækifæri til að gera það sem þeir kunna best upplifa á hinn bóginn fleiri jákvæðar stundir eftir því sem vinnustundum fjölgar auk þess sem það hvernig þeir meta lífið versnar ekki marktækt.   
  • Þegar kemur að almennri vellíðan hefur gæði upplifunar í starfi 2,5 til þrisvar sinnum meiri áhrif en fjöldi vinnustunda. 

Ef markmiðið er að byggja upp hvetjandi vinnustaðarmenningu og auka vellíðan starfsmanna er fækkun vinnustunda hugsanlega ekki rétta leiðin þó að fjögurra daga vinnuvika geti vissulega gagnast sumum. Þær forsendur sem gjarnan liggja til grundvallar því að reyna að samþætta starf og einkalíf eru frekar vafasamar: 1) að það ætti að draga sem mest úr fjölda vinnustunda þar sem vinnan hafi neikvæð áhrif á líðan fólks og 2) að þessi eina lausn virki fyrir alla.

Starf sem hefur tilgang
Stór hluti af því að lifa góðu lífi er að vera í starfi sem hefur tilgang. Samkvæmt alþjóðlegri könnun Gallup er það að hafa góða vinnu ein algildasta mannlega þráin. Margir þeirra sem eru hættir að vinna komast sem dæmi að því að þeir þrá tilganginn, örvunina og félagstengslin sem vinnan gaf þeim.

Til að auka vellíðan starfsmanna er hugsanlegra betra að einblína á sveigjanleika frekar en fjölda vinnustunda, sérstaklega í ljósi þess að starfsmenn kunna að meta hann mest. Einnig að starfsmenn sjái skýran tilgang með starfinu og það sé í takt við gildi þeirra.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 21. október 2021.