Áhrif jákvæðrar forystu á líðan starfsmanna og frammistöðu

Í bók sinni Positive Leadership: Strategies for Extraordinary Performance fjallar Kim Cameron, prófessor við háskólann í Michigan og stofnandi Center for Positive Organizations, um hugtakið jákvæða forystu.

Jákvæð forysta á rætur sínar að rekja til jákvæðrar sálfræði og byggist á fjórum lykilþáttum: 

  1. Jákvætt vinnuumhverfi en það felur m.a. í sér að veita starfsmönnum stuðning og hvatningu, koma fram við þá af heilindum og meta þá að verðleikum. Jákvætt vinnuumhverfi gerir starfsmönnum kleift að fara fram úr væntingum og ná framúrskarandi árangri. Með því að einblína á styrkleika og hæfileika þeirra, veita þeim umboð til athafna og bjóða upp á þjálfun og leiðsögn fá starfsmenn tækifæri til að blómstra og nýta sína hæfileika til fulls.
  2. Jákvæð tengsl: Jákvæðir leiðtogar beita virkri hlustun, hafa opin samskipti, sýna einlægan áhuga á starfsmönnum sínum og er umhugað um velferð þeirra. Þeir leggja ríka áherslu á að byggja upp traust og sterk tengsl við starfsmenn. Rannsóknir Camerons hafa sýnt að jákvæð tengsl leiða til aukinnar starfsánægju, meiri hollustu starfsmanna og aukins árangurs.
  3. Jákvæð samskipti eru opin, gagnsæ og uppbyggileg. Jákvæðir leiðtogar fagna árangri, veita skýra og uppbyggilega endurgjöf og stuðla að opinni umræðu til að fá sem fjölbreyttust sjónarmið. Cameron bendir á að þó að jákvæð samskipti séu mikilvæg þurfi leiðtogar einnig að vera færir um að hjálpa starfsmönnum við að takast á við áskoranir með því að einblína á lausnir og tækifæri til vaxtar.
  4. Jákvæður tilgangur: Jákvæðir leiðtogar móta skýra og sannfærandi sýn og hjálpa starfsmönnum að átta sig á því hvernig starf þeirra tengist stærri tilgangi. Cameron hefur sýnt fram á að þegar fólk finnur jákvæðan tilgang í því sem það er að gera eykur það líkurnar á að það blómstri í starfi auk þess sem það upplifir minna álag. Veikindadagar eru færri hjá starfsmönnum sem upplifa starfið mikilvægt, þeir sýna meiri áhuga, eru ánægðari og endast lengur í starfi. Þeir hafa auk þess meiri siðferðisvitund.

Grunnstoðir jákvæðrar forystu

Samkvæmt kenningum Camerons er grunnhugmyndin sú að allar lífverur laðist að jákvæðri orku, rétt eins og plöntur sem leita í átt að ljósi, og forðist neikvæða orku (myrkur). Við mannfólkið erum til dæmis yfirleitt fljótari að vinna úr og muna jákvæðar upplýsingar en neikvæðar. Rannsóknir hafa sýnt að við verjum allt að 20% meiri tíma í að hugsa um jákvæðar fullyrðingar en neikvæðar og allt að 50% meiri tíma í jákvæðar en hlutlausar fullyrðingar. Jafnframt hafa jákvæð orð hærri tíðni í flestum tungumálum heims.

Víðtækar rannsóknir hafa jafnframt undirstrikað tengsl jákvæðni við lengri lífslíkur. Eitt slíkt dæmi er rannsókn David Snowden og samstarfsfólks hans á dagbókum 180 nunna í Systraskóla Notre Dame. Niðurstöðurnar bentu til þess að þær nunnu sem notuðu jákvæð orð um líðan sína á þrítugsaldri lifðu að meðaltali um 12 ár lengur en þær sem tjáðu sig um leiða, vonleysi eða svartsýni.

Jákvæðar tilfinningar víkka sjóndeildarhringinn

Ofangreindar niðurstöður samræmast „breikka og byggja“ (e. broaden and build) kenningu Barbara Fredrickson sem hún fjallar um í bók sinni Positivity en samkvæmt Fredrickson geta neikvæðar tilfinningar þrengt fókus okkar og einbeitingu á meðan jákvæðar tilfinningar víkka sjóndeildarhringinn. Að upplifa jákvæðar tilfinningar, svo sem hamingju og vellíðan, eykur ekki aðeins færni okkar til að tengjast öðrum á dýpri hátt heldur stuðla jákvæðar tilfinningar einnig að aukinni hugmyndaauðgi og sköpunarkrafti. Auk þess gera þær okkur úrræðabetri og auka þol okkar gagnvart mótlæti.

Leiðtogar gangi á undan með góðu fordæmi

Leiðtogar hafa djúpstæð áhrif á menningu, gildi og árangur vinnustaða. Til að skapa og viðhalda því sem Cameron kallar „gnægð jákvæðrar menningar“ (e. positive deviance) þurfa þeir að vera góðar fyrirmyndir þar sem starfsmenn spegla sig í hegðun þeirra og viðhorfi. Þegar leiðtogi sýnir gott fordæmi eykst traust og virðing starfsmanna. Með því að sýna starfsmönnum að hann meti þá og styðji eykst hollusta þeirra auk þess sem frammistaðan verður betri. Leiðtogi sem tekst á við erfiðleika og áskoranir með jákvæðni og seiglu sýnir starfsmönnum hvernig er hægt að takast á við mótlæti. Leiðtogi sem leggur áherslu á sjálfsþekkingu og persónulegan vöxt og passar vel upp á sjálfan sig sýnir starfsmönnum mikilvægi þessara þátta.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist sem viðtal á Vísi 5. febrúar 2024.