„Ætlarðu ekki að fá þér?“

Þó að við státum okkur reglulega af því að vera fordómalaus og fagna fjölbreytileika mannlífsins virðist mér stundum sem við þurfum að læra að virða fólk sem hagar lífi sínu öðruvísi.

Sá sem t.d. leggur sig fram um að lifa heilbrigðu líferni og velur að borða hollan mat getur lent í því að fá spurningar á sig eins og:  

„Ætlarðu ekki að fá þér (meira)?“
 „Er þetta svona vont hjá mér?“
 „Ertu í megrun?“
„Maður verður nú að lifa lífinu. Einn konfektmoli hefur ekki skaðað neinn.“
„Ætlarðu bara að lifa meinlætalífi?“
„Það verður nú að njóta lífsins.“
„Maður verður að deyja úr einhverju.“
„Þú þarft nú ekki að léttast.“

Eflaust eru spurningarnar vel ætlaðar og spurðar af góðum hug. En auðvelt er að túlka þær eins og að það sé óeðlilegt að sneiða hjá óhollustu. Staðreyndirnar í málinu eru þær að jarðarbúar eru í dag rúmir 7 milljarðar. Af þeim þurfa 2 milljarðar að kljást við afleiðingar ofþyngdar og offitu. Sextíu prósent Íslendinga eru of þungir eða of feitir. Lífsstílstengdir sjúkdómar eins og æða- og hjartasjúkdómar, sykursýki II og krabbamein eru alvarleg ógn í nútímasamfélagi. Talið er að 86% dauðsfalla í Evrópu megi rekja til þeirra. Á Íslandi glatast tíunda hvert æviár eftir fertugt vegna ótímabærs dauða eða örorku. 

Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að ekki einungis getur fólk komið í veg fyrir lífsstílstengda sjúkdóma með heilbrigðum lífsstíl heldur einnig snúið við slíkum sjúkdómum með því að grípa inn í ferlið og byrja að lifa á heilbrigðan hátt. Þess vegna er það mjög öfugsnúið að við skulum reyna að fá fólk til að skipta um skoðun og hvetja það beinlínis til að fá sér óhollan mat. Af hverju er það eitthvað eðlilegra en að borða hollt? Þeir sem stunda óheilbrigða lifnaðarhætti eru nefnilega sjaldan inntir eftir því hvers vegna þeir fái sér þrisvar á diskinn, hvort þeir séu að reyna að fitna eða hvort markmiðið sé að deyja um aldur fram?

Fólk sem leitar leiða til þess að viðhalda heilbrigði sínu og tekur ábyrgð á eigin heilsu ætti ekki að þurfa að réttlæta ákvarðanir sínar fyrir öðrum og vera innt eftir skýringu á því hvers vegna það fái sér frekar epli eða hnetur milli mála en sætabrauð. Hvers vegna það hafi ákveðið að sleppa sykri. Hvort það sé ekki allt í lagi að fá sér smá af því að það er jú sunnudagur. 

Við þá sem kannast við þessa umræðu langar mig að segja:

  • Verum frekar hvetjandi og styðjandi einstaklingar. 
  • Samgleðjumst þeim sem breyta um lífsstíl og unum þeim velgengni. Lærum af þeim. 
  • Einbeitum okkur að okkur sjálfum og eigin markmiðum. Hættum að bera okkur saman við aðra. 
  • Æfum okkur í að hrósa frekar þeim sem reyna að bæta lífsstíl sinn.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 5. febrúar 2014.