Að vinna land

Ég er fædd og uppalin í Amsterdam í Hollandi. Árið 1991 kom ég til Íslands til að stunda hér nám í íslensku fyrir erlenda stúdenta og útskrifaðist 1993 með B. Phil. gráðu frá Háskóla Íslands.

Námið var mér frábært veganesti. Það var reyndar svolítið erfitt að læra íslenskuna þar sem Íslendingar byrjuðu yfirleitt að tala ensku um leið og þeir uppgötvuðu að ég var af erlendu bergi.

Aðlögun að annarri menningu er merkilegt ferli. Fyrsta árið mitt á Íslandi varð mér allt að undrunarefni, gullfagurt landslagið, hverirnir, litskrúð fjallanna, hálendið, jöklarnir, hraunið, næturhúmið sem breiddi sig yfir landið, norðurljósin, víðáttan, loftslagið, fámennið, bókaáhuginn, nýyrðin og síðast en ekki síst þjóðarstoltið. Ég skynjaði þetta mjög sterkt og varð ástfangin af landi og þjóð.

Þegar hveitibrauðsdögunum lauk fór að bera meira á pirringi gagnvart hlutum sem voru öðruvísi en ég átti að venjast frá mínu heimalandi. Sérstaklega þjóðarstoltið fór að virka tvírætt. Íslendingum hefur verið innrætt að selja land sitt, og flestir eru með tölulegar upplýsingar á hreinu: besti fiskurinn, hæsti meðalaldurinn, lægsta glæpatíðnin, besta landið til að ala upp börn, hreinasta loftið, besta vatnið, sterkustu mennirnir, mesta hamingjan, fallegustu konurnar og það að trúa á íslenska lagið í Eurovision allt til lokatalningar. Einnig sú staðreynd að Reykjavík býður upp á flest listgallerí og bíó í Evrópu, auðvitað miðað við höfðatölu. Mér fannst þetta merkilegt, að 300 þúsund eyjaskeggjar skyldu státa sig af því að vera best í heimi á öllum sviðum. Auðvitað þykir flestum sinn fugl fagur, ég hafði bara aldrei kynnst slíku þjóðarstolti.

Sá sem kynnist ólíkum menningarheimum kemst auðvitað ekki hjá því að bera saman það sem hann hefur séð og reynt. Ég tók t.d. oft strætó niður í bæ og fyrsta daginn sem ég mætti í strætóskýlið bauð ég öllum góðan dag. Fólk horfði á mig eins og ég væri frá annarri plánetu enda ekki venjan að bjóða góðan dag á þeim tíma. Mín fyrstu jól á Íslandi eru líka eftirminnileg. Í Hollandi eru jólin yfirleitt tími tilrauna í eldhúsinu en þegar nær dró jólum fékk ég oft spurnuna: „Hvort ætlarðu að hafa í jólamatinn?“, en þá var átt við annaðhvort rjúpur eða hamborgarahrygg.  Ég man eftir að hafa spurt verðandi eiginmann minn hvort það væru bara tveir jólaréttir í boði á Íslandi. Munurinn birtist einnig þegar strákurinn okkar fæddist árið 1992 en þá beið fjölskyldan í Hollandi óþreygjufull eftir nafninu enda skylda þarlendis að nefna börn innan 48 klst. frá fæðingu. Það var ekki mikill skilningur á því að hér fengju nýbakaðir foreldrar allt að 6 mánuði til að hugsa sig um.

Það reynir mjög á aðkomumenn fyrstu mánuðina og árin og aðlögunin er mikið lærdómsferli. Fyrstu mánuðina talar maður tungumálið ekki fullkomlega og það er ljóst að svo lengi sem það heyrist að maður er af erlendu bergi er sigurinn ekki í höfn. Það er eins og það liggi í eðli manna að efast um dómgreind aðkomumannsins. Hann er alltaf í þeirri stöðu að bera sönnunarbyrðina.

Það virðast líka gilda önnur lögmál um útlendinga en Íslendinga. Þegar Íslendingur notar t.d. enskar slettur þá þykir það töff (þið fyrirgefið slettuna), en þegar útlendingur gerir það er dregin sú ályktun að viðkomandi hafi ekki nógu mikinn orðaforða. Mér þykir vænt um íslenskuna og hef lagt mig fram um að tala fallegt mál. Þau fáu skipti sem ég nota enska slettu hefur yfirleitt einhver komið til mín til að leiðrétta mig. Maðurinn minn, sem er Íslendingur og notar miklu fleiri enskar slettur, lendir sjaldan í þessu.

Þegar tveir menningarheimar mætast liggur það í hlutarins eðli að aðkomumaðurinn stendur veikar að vígi. Hann á erfitt með að útskýra sinn gamla heim í smáu og stóru af því að hann er hvergi nærtækur. Fólkið í viðtökulandinu veit eðli málsins samkvæmt ekkert um þá sögu og vitneskju sem aðkomumaður flytur með sér að heiman.

Líf aðkomumanns snýst um það að vinna land og verða fullgildur þegn þjóðfélagsins. Til þess þarf hann að læra tungumálið, sem er lykillinn að góðri aðlögun og öllum tjáskiptum. Hann þarf einnig að kynnast fólkinu, hugsunarhættinum, siðum og venjum, húmornum, sorginni, þjóðarsálinni, óskráðu reglunum og sögu þjóðarinnar. Þetta er mikil en lífsnauðsynleg vinna. Maður getur ekki tjáð sig um málefni sem maður veit ekkert um, það er ekki hægt að mynda sér neinar skoðanir nema öðlast þekkingu fyrst.

Líf mitt er í dag bundið íslensku þjóðlífi sterkum böndum, ég hef búið hér í um 15 ár og eignast fortíð og minningar í þessu landi. Ég er orðin það mikill Íslendingur að móðurland mitt Holland er ekki lengur þægilegt. Það tekur mig alltaf dálítinn tíma að venja mig við lífshætti, hugsunarhátt og tákn minnar eigin menningar. Því meira sem ég ferðast erlendis, því meira átta ég mig á því að það eru mikil forréttindi að fá að lifa og starfa á Íslandi. Ég tel mig afar lánsama að hafa fengið tækifæri til að setjast hér að.  Við Íslendingar eigum jú hreinasta loftið, besta vatnið,  fallegustu náttúruna, besta fiskinn, sætustu kýrnar og mestu hamingjuna.   

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. 
Birtist í Morgunblaðinu 2. maí 2012.