Að viðhalda vellíðan á tímum kórónuveirunnar

Áhrifa kórónuveirunnar er farið að gæta víða. Mörg hundruð manns eru í sóttkví eða einangrun og öll þekkjum við fólk með áhættuþætti fyrir alvarlegri COVID-19 sýkingu sem við þurfum sérstaklega að passa upp á með því að huga vel að eigin hreinlæti og hegðun, innan og utan heimilisins.

Sums staðar, eins og t.d. í Ástralíu og Bretlandi, flykkist fólk í búðirnar til að hamstra klósettpappír og dósamat þannig að hillurnar tæmist. Ástæðan fyrir því er ótti við hið óþekkta: Fólk trúir að fordæmalausar aðstæður réttlæti fordæmalaus viðbrögð. 

En hvernig er hægt að viðhalda vellíðan á þessum víðsjárverðu tímum? Eftirfarandi fjögur atriði geta hjálpað til:

1. Að skilja tilfinningar sínar
Í fyrsta lagi þurfum við að skilja tilfinningar okkar. Rannsóknir Nico Frijda og félaga hafa sýnt að tilfinningar okkar eru tengdar hugsunum okkar og viðbrögðum. Þær tengjast aðgerðum eða aðgerðaleysi og stjórn eða stjórnleysi. Sem dæmi taldi fólk sem upplifði gleði að það hefði stjórn á aðstæðum; það vildi hitta aðra og upplifa skemmtilega hluti. Fólk sem upplifði ótta og kvíða taldi á hinn bóginn að það hefði litla stjórn á aðstæðum. Óvissan sem það upplifði leiddi til sjálfsvarnarviðbragða. 

Um leið og við skiljum hvað við erum að upplifa getum við reynt að komast að því hvaða áhyggjur tengjast tilfinningum okkar og fundið leiðir til að bregðast við þeim. Það er líklegt að við upplifum kvíða og ótta af því að við vitum af þessari „óværu“ þarna úti en við vitum ekki hversu mikið við þurfum að undirbúa okkur eða hvort við getum stjórnað henni að einhverju leyti. Við gætum jafnvel fundið fyrir reiði. Þegar við erum reið, beinum við neikvæðum tilfinningum okkar að öðru eða öðrum til að auka tilfinningu okkar um stjórn. Reiðin gæti t.d. beinst að opinberum aðilum fyrir skort á fullnægjandi upplýsingum. Því miður getur reiði haft neikvæðar afleiðingar. Í fyrsta lagi getur hún leitt til kynþáttafordóma, eins og sumir Kínverjar fundu fyrir hérlendis þegar þeim var kennt um veiruna. Í öðru lagi getur hún haft þau áhrif að við öflum ekki upplýsinga, en það eru ekki hjálpleg viðbrögð við kvíða. 

2. Að afla upplýsinga á réttum stöðum
Vitandi að kvíði stafar af óvissu og hinu óþekkta er mikilvægt að afla upplýsinga. Það getur hins vegar verið erfiðara en maður heldur að finna og skilja upplýsingarnar sem eru aðgengilegar. Við höfum tilhneigingu til að velja frekar upplýsingar sem staðfesta trú okkar. Ef við viljum t.d. ekki líta á okkur sem veika, gæti verið að við tökum ekki mark á greinum sem benda til að við séum í áhættuhópi. Það getur leitt til þess að við vöfrum um á netinu þangað til við finnum upplýsingar sem við viljum finna, frekar en upplýsingar sem við þurfum. Til að forðast flökkusögur og falsfréttir er gott að ákveða fyrirfram hvaða vefsíður maður ætlar að skoða. Heimasíða Embættis Landlæknis, www.landlaeknir.is inniheldur sem dæmi áreiðanlegar og greinargóðar upplýsingar sem eru uppfærðar daglega.

3. Að grípa til aðgerða 
Þegar við höfum vopnað okkur með upplýsingum getum við gripið til aðgerða. Gott er að velja aðgerðir sem auka trú okkar á eigin getu og tilfinningu fyrir stjórn. Trú á eigin getu er sú tilfinning að telja sig hafa nauðsynleg úrræði til að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Hvað varðar kórónuveiruna er um að ræða tvenns konar getu, annars vegar getu okkar til að forðast smit og hins vegar trú okkur á getu okkar til að takast á við möguleg veikindi. Handþvottur með vatni og sápu, notkun handspritts og það að forðast mannamót eru dæmi um aðgerðir sem við getum gripið til til að minnka líkurnar á smiti. En þær aðgerðar nægja hugsanlega ekki til að draga úr kvíða ef okkur finnst við ekki í stakk búin til að takast á við mögulegt smit. Að hamstra klósettpappír og mat er fyrir marga leið til að upplifa meiri stjórn og aukna trú á getuna til að takast á við sóttkví eða smit. Aðrar leiðir geta verið að skoða heimsendingar á mat, deila áætlunum með vinum, eða undirbúa samverustundir fyrir fullorðna og börn sem eru heima (í sóttkví eða veik). Gagnlegt getur einnig verið að ná tökum á nauðsynlegri tækni til að geta unnið heima. Ofangreind atriði auka trú okkar á að við getum tekist á við hvað sem er.

4. Að tapa ekki húmornum 
Samkvæmt lausnarkenningu Sigmunds Freud virkar húmor og hlátur sem nokkurs konar ventill sem losar um spennu einstaklings eða samfélags og veitir útrás fyrir bældum tilfinningum. Til að eyða óöryggi og óvissu snúum við myrkrinu upp í grín. Húmorinn hjálpar okkur við að takast á við erfiðleika með því að skapa ákveðna fjarlægð. Húmor gefur okkur færi á að tjá tilfinningar okkar án þess að andrúmsloftið verði of alvarlegt. Hann gerir það líka að verkum að við finnum fyrir samstöðu innan samfélagsins og betri tengslum við aðra.

Kórónuveiran hefur ekki aðeins áhrif á lungu okkar heldur einnig huga okkar og líðan. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði um daginn að við ættum ekki láta óttann ná tökum á okkur og leyfa áhyggjum að breytast í angist. Stöndum vörð um vellíðan okkar með því að skilja hvað við erum að upplifa, afla áreiðanlegra upplýsinga, grípa til aðgerða og hafa húmor fyrir sjálfum okkur og aðstæðunum. Tökumst á við þessa áskorun saman með umhyggju fyrir öðrum, skynsemi, og umfram allt óbilandi viðleitni til að leita sannleikans, staðreynda og þekkingar.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Kjarnanum 12. mars 2020.