Að þrífast á umbreytingatímum

Það er ekki hægt að neita því að heimsfaraldurinn hefur haft áhrif á okkur á margvíslegan hátt. Heimavinnan hefur sem dæmi gert auknar kröfur til okkar og aukið streitu hjá sumum.

Og jafnvel þótt við stefnum hægt og rólega í átt að nýju „eðlilegu“ ástandi sem líkist næstum því gamla lífi okkar, gætu ný afbrigði af COVID ógnað þeirri stöðu enn á ný.

Með þessa óvissu í loftinu hefur verið áskorun fyrir suma að viðhalda jákvæði viðhorfi. Á nýlegu Happify vefnámskeiði ræddi Stella Grizont, sérfræðingur í jákvæðri sálfræði, fyrirlesari og stjórnendamarkþjálfi, hvernig hægt sé að þrífast á þessu umbreytingatímabili. Hér fyrir neðan eru fjögur af ráðum hennar.

1. Temjum okkur jákvætt hugarfar gagnvart hinu óþekkta

Þegar við mætum óvissu höllum við okkur oft of mikið að náttúrulegri eðlishvöt okkar sem er að veita öllu því athygli sem er hugsanlega slæmt, rangt eða ógnandi, að sögn Grizont. Til að koma í veg fyrir að við verðum þessari neikvæðu hlutdrægni að bráð mælir hún með að við lítum á hið óþekkta sem eitthvað nýtt og spennandi.

Auðveldasta leiðin til að rækta þetta hugarfar er að endurskoða hvernig við tölum við okkur sjálf. Í stað þess að segja „Ég verð að (…mæta í ræktina)“ er betra að segja „Ég fæ að (…mæta í ræktina).“ Og í stað þess að gera ráð fyrir því að hlutirnir muni klúðrast er betra að velta fyrir sér hvað muni koma manni á óvart eða hvað maður gæti lært af því að takast á við nýja hluti.

2. Leitum stuðnings

Það er miklu auðveldara að bregðast við hinu óþekkta þegar maður upplifir stuðning frá öðrum. Við getum leitað stuðnings á margan hátt, t.d. með því að skipuleggja líkamsræktaræfingu með vinum, finna mentor eða ræða við samstarfsmenn um áþreifanlegar leiðir til að vera til staðar fyrir okkur.

Stuðningur getur líka komið innan frá, t.d. með því að sjá fyrir okkur þann stuðning sem við þurfum, sérstaklega þegar hlutirnir eru okkur ofviða eða þegar okkur finnst við vera ein. Bara með því að skynja stuðning upplifum við hlutina sem minna krefjandi. Lokaðu augunum og gefðu þér smá stund til að sjá fyrir þér einstakling sem þykir vænt um þig og trúir á þig. Ímyndaðu þér að hann segi við þig: „Þú ert með þetta. Þú getur þetta.“ Þessi sjónsköpun getur gert gæfumuninn.

3. Fögnum afrekum okkar

Stundum er auðvelt að líða eins og maður sé ekki að gera nóg, sérstaklega þegar maður vinnur að stóru verkefni eða stendur andspænis mikilli óvissu. Að taka saman litla sigra og framfarir getur hjálpað til við að setja hlutina í samhengi. Með því minnum við okkur á að við höfum val, tökum ákvarðanirnar og getum haft áhrif á líf okkar og veruleika. Við öðlumst sjálfstraust þegar við grípum til aðgerða og tökum ákvarðanir um það sem er mikilvægt fyrir okkur.

4. Hægjum á okkur

Á óvissutímum sem þessum hröðum við okkur oft í gegnum lífið án þess að huga að raunverulegum þörfum okkar. Grizont mælir með því að taka okkur tíma til að viðurkenna innri átökin sem við stöndum frammi fyrir í stað þess að byrgja þau inni eins og þau skipti ekki máli. Því ef við streitumst á móti hugsunum og tilfinningum geti það valdið því að þær styrkist. Að þykjast vera hamingjusamur þegar maður er það ekki geti sem dæmi gert vanlíðanartilfinninguna sterkari. Grizont mælir með því að við gerum nokkurs konar úttekt á öllum þeim mismunandi röddum sem við tökum eftir innra með okkur og spyrjum okkur síðan spurninga eins og: „Hvernig líður mér?“, „Hvert er sjónarhornið hér?“, „Hvaða tilfinningar tengjast því? Mikilvægt er að hlusta á sjálfan sig af heilum hug og í fullri vitund.

Að staldra við er nauðsynlegt fyrir andlega heilsu okkar, sérstaklega á álagstímum. Því meira sem við reynum að bæla hluta af okkur sjálfum, þeim mun háværari verður bældi hluturinn, að sögn Grizont. Við ættum því að nefna og viðurkenna neikvæðu tilfinningarnar frekar en að ýta þeim frá.

Aukin meðvitund

Með því að nota ofangreindar leiðir verðum við meðvitaðri um þarfir okkar og árangur og betur í stakk búin til að þrauka í gegnum umbreytingatíma.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 27. september 2021.