Að skapa starfsanda sem örvar árangur

Árið 2002 kom út metsölubókin Primal Leadership eftir Richard Boyatzis, Daniel Goleman og Annie McKee. Í bókinni segir frá kenningu Litwin og Stringer um stjórnun og rannsóknum fyrirtækjanna McBer, HayGroup og McClelland Center for Research and Innovation.

Höfundar halda því fram að leiðtogar sem eru þeirra skoðunar að tilfinningar eigi ekki heima í atvinnulífinu stofni fyrirtæki sínu í hættu. Allt frá því bók Daníels Goleman um tilfinningagreind kom út árið 1995 hefur umræðan um hlutverk tilfinninga í árangri aukist. Kenningar Golemans um tilfinningagreind hafa breytt mjög skilgreiningum á því hvað gerir leiðtoga árangursríkan. Rannsóknir hans leiddu í ljós að tilfinningagreind skýrir allt að 90% af frammistöðu leiðtoga. Stjórnun fjallar að mjög stórum hluta um tilfinningar, að vinna með þær og hafa áhrif á þær og árangur leiðtoga mælist í því hvernig þeim gengur að fá annað fólk til að ná árangri.

Að laða fram það besta hjá starfsmönnum
Í bókinni Primal leadership greina Goleman og félagar frá niðurstöðum á viðamiklum rannsóknum á frammistöðu 3.870 leiðtoga um allan heiminn og hvernig þeir ná að laða fram það besta hjá sínu fólki. Niðurstöður þeirra sýna að árangursríkir leiðtogar treysta ekki á einn stíl heldur beita mismunandi leiðtogastílum til skiptis, allt eftir aðstæðum og einstaklingnum. Líkja má stílana við mismunandi golfkylfur þar sem golfarinn velur hentuga kylfu eftir aðstæðum. Stundum þarf hann að íhuga valið en yfirleitt velur hann án þess að velta þessu fyrir sér. Hann metur áskorunina, velur réttu kylfuna og beitir henni. Þannig ganga árangursríkir leiðtogar einnig til verks, þeir aðlaga hegðun sína að aðstæðunum hverju sinni og velja réttu aðferðina. Fjölbreytileiki leiðtogastíla leiðtogans ræður því hversu áhrifaríkur hann er.

Leiðtogar skapa starfsanda
Rannsóknir Goleman og félaga sýnir að 50-70% af starfsanda á vinnustað skýrist af þeim stíl sem leiðtoginn beitir og allt að 28% af fjárhagslegum árangri fyrirtækja skýrist af starfsanda á vinnustað. Þeir sex þættir sem hafa áhrif á starfsanda á vinnustað eru sveigjanleiki og möguleiki til að sýna frumkvæði, upplifuð ábyrgð starfsfólks gagnvart fyrirtækinu, frammistöðuviðmiðin sem fólk setur sér, endurgjöf á frammistöðu og umbunakerfið, þekking starfsfólksins á stefnu og sýn fyrirtækisins og hollusta við hlutverk fyrirtækisins.

Fjórir áhrifaríkir leiðtogastílar
Þeir leiðtogastílar sem Goleman, Boyatzis og McKee fjalla um í bókinni Primal Leadership eru sex talsins og henta allir í vissum aðstæðum. Allir þessir leiðtogastílar byggjast á mismunandi þáttum tilfinningagreindar. Fjórir leiðtogastílanna hafa mjög jákvæð áhrif á starfsanda en tveir þeirra hafa ekki jákvæð áhrif og í sumum tilfellum neikvæð áhrif en eru engu að síður áhrifaríkir og nauðsynlegir í vissum aðstæðum. Hér að neðan verður gerð grein fyrir þessum mismunandi leiðtogastílum:

Framsýni leiðtogastíll. Framsýnir leiðtogar hafa sterka sýn og sameina fólk að sameiginlegum draumum og markmiðum. Þeir móta og útskýra framtíðarsýnina, sannfæra starfsfólkið, setja kröfur og fylgjast með frammistöðu í stærra samhengi. Þeir hvetja með bæði styrkjandi og leiðréttandi endurgjöf.
Þessi leiðtogastíll er árangursríkastur þegar breytingar krefjast nýrrar sýnar eða frammistöðuviðmiða eða þegar skýr stefna er nauðsynleg. Hann hentar þegar leiðtoginn er sérfræðingur á sviðinu eða nýtur sérstakrar virðingar. Hann er miður áhrifaríkur þegar leiðtoginn getur ekki leiðbeint starfsmönnum, þegar hann er ekki talinn verðugur og við sjálfsstýrandi hópa þar sem allir eru virkjaðir í ákvörðunartöku.

Leiðbeinandi leiðtogastíll. Leiðbeinandi leiðtogar tengja það sem starfsmaður vill við markmið fyrirtækisins. Þeir hjálpa starfsmönnum að leggja mat á styrkleika sína og það sem þeir mættu bæta og hvetja þá til að setja og ná langtímamarkmiðum sínum.

Leiðbeinandi stíllinn er árangursríkastur þegar aðstoða á starfsmann við að bæta frammistöðu sína með því að þróa hæfni. Hann er miður áhrifaríkur þegar leiðtogann skortir þekkingu eða þegar starfsmenn þarfnast mikillar stýringar og endurgjafar. Hann hentar líka síður í neyðaraðstæðum.

Hvetjandi leiðtogastíll. Hvetjandi leiðtogar leitast við að skapa gott andrúmsloft með því að styrkja tengslin milli fólks. Þeir hafa fólkið í fyrirrúmi og vilja að allir séu sáttir og ánægðir. Þeir fá fólk til að vinna saman og reyna að koma í veg fyrir ágreining.

Hvetjandi leiðtogastíllinn er árangursríkastur við að fá hópa sem eiga í ágreiningi til að vinna saman eða þegar hann er notaður með öðrum leiðtogastílum. Hann hentar síður þegar starfsmenn eru ekki að skila viðeigandi frammistöðu, í neyðaraðstæðum eða í flóknum aðstæðum þar sem krafist er skýrrar stefnu og stjórnunar. Einnig við starfsmenn sem leggja meiri áherslu á verkefni og hafa lítinn áhuga á miklum samskiptum við leiðtogann.

Lýðræðislegur leiðtogastíll. Leiðtogi sem beitir lýðræðislegum leiðtogastíl virðir framlag hvers og eins og skapar hollustu með því að virkja alla. Hann hvetur starfsmenn til að taka þátt í ákvörðunartöku, heldur fundi og hlustar á álit allra.

Lýðræðislegi leiðtogastíllinn er árangursríkastur við að skapa samstöðu eða til að fá mikilvæga þátttöku frá starfsmönnum. Hann hentar vel þegar starfsmenn eru hæfir og sjálfstæðir og þarfnast lítillar stjórnunar. Lýðræðislegi leiðtogastíllinn er miður áhrifaríkur í neyðaraðstæðum og þegar starfsmenn eru ekki hæfir eða skortir nauðsynlegar upplýsingar og þarfnast skýrra leiðbeininga.

Tveir miður æskilegir leiðtogastílar
Þeir leiðtogastílar sem hafa almennt ekki jákvæð áhrif á starfsanda eru heimtandi leiðtogastíllinn og skipandi leiðtogastíllinn:

Heimtandi leiðtogastíll. Leiðtogi sem beitir heimtandi leiðtogastíl setur háleit og ögrandi markmið og sýnir gott fordæmi: "Gerið eins og ég, núna." Hann krefst framúrskarandi frammistöðu og hefur litla þolinmæði gagnvart slakri frammistöðu. Hann á erfitt með að dreifa valdi og ábyrgð og tekur yfir verkefnin ef viðkomandi er ekki að skila viðunandi árangri.

Heimtandi leiðtogastíllinn er árangursríkur þegar hann er notaður við starfshóp sem er mjög árangursdrifinn og býr yfir mikilli hæfni. Hann er miður áhrifaríkur þegar starfsmenn þarfnast stefnu, leiðbeininga og þjálfunar.

Skipandi leiðtogastíll. Leiðtogi sem beitir skipandi leiðtogastílnum krefst skilyrðislausrar hlýðni: ?Gerðu eins og ég segi.? Hann gefur mikið af skipunum og hvetur með því að refsa óhlýðni.

Skipandi leiðtogastíllinn er áhrifaríkastur í neyðaraðstæðum, við störf sem eru frekar einföld í framkvæmd og þegar frávik frá hlýðni munu leiða til stórra vandræða. Hann getur einnig skilað árangri við þá starfsmenn sem erfitt er að eiga við og þegar aðrar leiðir hafa verið reyndar. Skipandi leiðtogastíllinn er minnst áhrifaríkur þegar hann er notaður yfir langan tíma, við þá sem eru áhugasamir og hæfir í starfi og við störf sem eru frekar flókin í framkvæmd.

Leiðtogar þurfa marga stíla
Leiðtogar sem nota fjóra eða fleiri stíla ? og þá sérstaklega framsýna, leiðbeinandi, hvetjandi og lýðræðislega stílinn  - ná  mestum fjárhagslegum árangri og skapa bestan starfsanda. Þeir áhrifaríkustu nota alla stílana til skiptis. Alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið HayGroup hefur þróað leiðtogapróf sem mælir ofangreinda leiðtogastíla og er eitt vinsælasta leiðtogaprófið í Evrópu og Bandaríkjunum í dag. Prófið er einkar hentugt fyrir þjálfun og byggir bæði á sjálfsmati stjórnanda og mati undirmanna á stjórnandanum. Prófið mælir helstu atriðin sem bæði örva og hamla frammistöðu starfsmanna. Próftaki fær mat á frammistöðu sína á ofangreindum sex leiðtogastílum. Þannig er m.a. hægt að sjá hvort menn noti alltaf sömu golfkylfuna og hvort þær gólfkylfur sem notaðar eru séu viðeigandi.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 10. september 2003.