Að sigrast á fullkomnunaráráttu og ná meiri árangri

Finnst þér oft að það sem þú gerir sé ekki nógu gott? Frestar þú oft að skila inn verkefnum af því að þú vilt hafa þau pottþétt? Finnst þér þú verða að gera allt 100%? Reynir þú að forðast mistök?

Ef svo er, þá er líklegt að þú þjáist af fullkomnunaráráttu en hún er skilgreind sem sú hugsun og hegðun sem miðar að því að ná mjög háleitum og óraunhæfum markmiðum.

Algengt er að fullkomnunaráráttu og árangri sé ruglað saman. Rannsóknir hafa leitt í ljós að hegðun sem miðar að fullkomnun stendur jafnvel í vegi fyrir árangur. Þörfin fyrir að vera fullkominn getur dregið úr ánægju auk þess sem hún kemur í veg fyrir að þú náir eins miklum árangri og fólk með raunhæfari markmið.

Ástæður fullkomnunaráráttu
Fullkomnunarsinnar læra oft snemma á lífsleiðinni að þeir fái virðingu frá öðru fólki fyrir árangurinn sem þeir ná. Þetta leiðir oft til þess að þeir byggja sjálfsvirðingu sinni á viðurkenningu annarra. Sjálfsálitið verður þá háð utanaðkomandi viðmiðun. Afleiðingin er að þeir verða mjög viðkvæmir og varnarlausir gagnvart skoðunum og gagnrýni annarra. Eina leiðin til að verja sig gegn gagnrýni, höfnun og vanþóknun er að stefna á fullkomnun.
Fullkomnunarþörf tengist oft eftirfarandi neikvæðum tilfinningum, hugsunum og trú:

 • Ótti við mistök. Fullkomnunarsinnar setja oft samasemmerki á milli mistaka og þess að vera misheppnaður. Þeir leggja áherslu á að forðast mistök og missa þar af leiðandi af mikilvægum tækifærum til að þroskast og þróast.
 • Ótti við að standa sig ekki. Fullkomnunarsinnar setja oft samasemmerki milli þess að ná ekki markmiðum og skorts á sjálfsvirðingu.
 • Ótti við vanþóknun. Fullkomnunarsinnar óttast það að fá ekki viðurkenningu ef þeir sýna öðrum veikleika sína.
 • Allt-eða-ekkert hugsun. Fullkomnunarsinnar halda að þeir séu vonlausir ef árangur þeirra er ekki 100%. Þeir eiga erfitt með að sá hlutina í réttu samhengi. Sem dæmi þá getur framúrskarandi námsmaður sem fær einkunnina 7 haldið að hann sé algjörlega misheppnaður.
 • Of mikil áhersla á reglur. Fullkomnunarsinnar fara oft eftir löngum lista af endalausum reglum um það hvernig þeir ættu að lifa lífinu. Þeir taka þar af leiðandi sjaldan tillit til eigin þarfa og óska.
 • Trú á að aðrir nái auðveldlega árangri. Fullkomnunarsinnar halda að annað fólk búi yfir miklu sjálfstrausti og nái góðum árangri án þess að þurfa að leggja mikið á sig og án þess að gera mistölk og upplifa streitu. Á sama tíma líta þeir á eigin tilraunir sem óendanlegar og aldrei fullnægjandi.

Vítahringur fullkomnunaráráttu
Fullkomnunarsinnar lenda oft í vítahring. Þeir setja sér óraunhæf markmið sem þeir ná svo ekki, af augljósum og óhjákvæmilegum ástæðum. Álagið við að ná fullkomnun og forðast mistök dregur úr skilvirkni þeirra og árangri. Vegna þess hve sjálfsgagnrýnir þeir eru kenna þeir sjálfum sér um þennan lélega árangur, sem hefur aftur neikvæð áhrif á sjálfsálit þeirra auk þess sem kvíði og þunglyndi geta skotið upp kollinum. Á þessum tímapunkti gefast margir þeirra upp og setja sér ný markmið, sannfærðir um að þeir muni ná þeim ef þeir leggja aðeins meira á sig. Þetta hugsanamynstur kemur vítahringnum af stað aftur.

Vítahringurinn lýsir sér líka í því að fullkomnunarsinnar gera oft ráð fyrir eða óttast vanþóknun eða höfnun í samskiptum við annað fólk. Óttinn hefur þau áhrif að þeir fara í vörn þegar þeir fá gagnrýni. Fullkomnunarsinnar eru líka oft gagnrýnir sjálfir og gera ómeðvitað mjög háleitar og óraunhæfar kröfur til annarra. Auk þess reyna margir að fela mistök í stað þess að átta sig á því að með því að opna sig eru meiri líkur á að fólki líki við þá. Vegna þessa vítahrings eiga margir erfitt með að byggja upp náin tengsl. 

Leiðir til að takast á við fullkomnunaráráttu
Fyrsta skrefið við að breyta óæskilega fullkomnunaráráttu í heilbrigða árangursþörf er að átta sig á því að fullkomnunarárátta er blekking, sem aldrei er hægt að ná. Síðan þarf að takast á við hugsanirnar sem kynda undir fullkomnunaráráttuna. Hafðu eftirfarandi atriði í huga:

 • Settu þér raunhæf markmið byggð á eigin þörfum og því sem þú hefur áorkað hingað til. Þetta gerir þér kleift að ná árangri og bæta sjálfsálitið.
 • Settu þér ný og aðeins meiri ögrandi markmið um leið og þú nærð fyrri markmiðum.
 • Gerðu tilraunir með mismunandi viðmiðanir fyrir árangur. Veldu verkefni og reyndu að gera það 90%, 80% eða 70% í stað 100%. Þetta hjálpar þér að átta þig á því að heimurinn ferst ekki þó að þú sért ekki fullkomin(n).
 • Leggðu áherslu á það sem þú ert að gera en ekki aðeins á lokaniðurstöðuna. Reyndi að meta árangur þinn ekki aðeins með tilliti til útkomunnar heldur einnig með tilliti til hve mikla ánægju þú hafðir af verkefninu.
 • Notaðu tilfinningar eins og kvíða eða þunglyndi til að spyrja sjálfan þig hvort þú hafir mögulega gert óraunhæfar væntingar til sjálfs þíns í viðkomandi aðstæðum.
 • Takstu á við mögulegan ótta með því að spyrja þig: “Hvað óttast ég mest”, “Hvað er ég smeyk(ur) við?”
 • Gerðu þér grein fyrir því að margir jákvæðir hlutir lærast aðeins með því að gera mistök. Veltu fyrir þér hvað er hægt að læra af gerðum mistökum.
 • Forðastu allt-eða-ekkert hugsun. Forgangsraðaðu verkefnum eftir mikilvægi þeirra og verðu minni tíma í léttvæg verkefni.

Fullkomnunarárátta er þér ekki gagnleg né nauðsynleg. Það er heilsuvænlegra að sýna árangursþörf en reyna að ná fullkomnun. Þú munt ekki aðeins ná meiri árangri heldur einnig líða betur í leiðinni. 

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 21. janúar 2004.