Að njóta hins góða í lífinu

Nægar rannsóknir og bækur eru til um það hvernig við getum tekist á við neikvæða atburði lífsins.

En hvað getum við gert til að styrkja áhrif hins góða í lífinu, t.d. þegar við náum á topp fjallstindar, sjáum barnið okkar taka fyrsta skrefin, eða horfum á uppáhaldshljómsveitina spila uppáhaldslagið? Gengið hefur verið út frá því að fólk upplifi ósjálfrátt ánægju þegar góðir hlutir gerast. 

Rannsóknir Fred Bryant, félagsfræðings við Loyola háskólann í Chicago og höfundur bókarinnar Savoring: A New Model of Positive Experience, hafa hins vegar leitt í ljós að svo er ekki endilega heldur þurfum við að leggja okkur meðvitað fram um að njóta hins góða í lifinu. Áhrifin eru jákvæð á hamingju okkar bæði til lengri og skemmri tíma litið auk þess sem við myndum sterkari tengsl, búum við betri andlega og líkamlega heilsu og erum meira skapandi. 

Hér fyrir neðan eru 10 leiðir til að njóta:  

1. Deildu góðum tilfinningum með öðrum
Hvað er það fyrsta sem þú gerir þegar þú færð góðar fréttir? Þú segir þeim sem skiptir þig máli í lífinu eins og maka, barni eða góðum vini frá. Við ættum að umgangast jákvæða atburði alveg eins. Segðu öðrum frá því þegar þú upplifir þakklætistilfinningu, hvort sem um er að ræða hlátur í góðra vina hópi eða fallegt náttúrulandslag. Rannsóknir á því hvernig fólk bregst við jákvæðum atburðum hafa sýnt að þeir sem deila jákvæðum tilfinningum með öðrum eru almennt hamingjusamari en þeir sem gera það ekki. Jafnvel hugsunin ein um að segja öðrum frá kemur okkur upp á hærra hamingjustig. „Að njóta er límið sem bindur fólk saman“, að sögn Fred Bryant, „fólk sem nýtur saman helst saman.“

2. Taktu ljósmynd í huganum
Staldraðu við í augnablík og vertu meðvitaður/-uð um þá hluti sem þú ætlar að muna seinna, eins og hlátur einhvers nákomins eða hjartnæmt augnablik milli tveggja fjölskyldumeðlima. Ein rannsókn sýndi að þeir sem fóru í 20 mínútna göngutúr daglega í viku og leituðu meðvitað að jákvæðum hlutum sögðust vera hamingjusamari en þeir sem fengu fyrirmæli um að leita að neikvæðum hlutum. 

3. Óskaðu sjálfum/sjálfri þér til hamingju
Hikaðu ekki við að klappa sjálfum/sjálfri þér á bakið og eigna þér heiðurinn af góðri vinnu. Rannsóknir sýna að þeir sem njóta eigin árangurs eru líklegri til að fagna útkomunni. Hér er reyndar um að ræða menningarlegan mun. Í Asíu sem dæmi gera menn yfirleitt lítið úr eigin árangri og hafa þá trú að eitthvað slæmt fylgi góðri upplifun.  

4. Skerptu á skilningarvitunum
Að gefa sér tíma til að nota skynfærin á meðvitaðri hátt hefur mikil áhrif en getur verið áskorun í þeim heimi sem við lifum í sem einkennist af miklum hraða og truflunum. Rannsókn sýndi t.d. að háskólanemendur sem einbeittu sér að súkkulaðinu sem þeir voru að gæða sér á upplifðu meiri ánægju en þeir sem urðu fyrir truflun á meðan þeir voru að borða. Erica Chadwick, doktor í sálfræði við háskólann í Wellington í Nýja Sjálandi, mælir með því að við hægjum á okkur við matarborðið og gefum okkur tíma til að skerpa á einu skynfæri á meðan við útilokum önnur. Við eigum að gefa okkur tíma til að finna lyktina og bragðið af matnum. Lokum augunum á meðan við erum að gæða okkur á úrvalsvíni. 

5. Sýndu jákvæðar tilfinningar út á við
„Hlæðu upphátt, hoppaðu hátt, og öskraðu af gleði þegar eitthvað gott hendir þig“, segir Fred Bryant. Þeir sem tjá jákvæðar tilfinningar sínar út á við líður sérlega vel vegna þess að þeir færa huganum sönnun fyrir því að eitthvað gott hefur gerst. Fleiri en ein rannsókn hafa leitt í ljós að þátttakendur sem tjáðu tilfinningar sínar og hlógu meðan þeir voru að horfa á grínmynd höfðu meira gaman af henni en þeir sem bældu niður tilfinningum sínum. 

6. Berðu útkomuna saman við eitthvað verra
Fred Bryant segir að mikilvægt sé að magna jákvæðar tilfinningar með því að minna sig á að hlutirnir hefðu getað verið verri. Ef þú mætir t.d. of seint til vinnu er gott að minna þig á alla þá sem hafa enga vinnu. Það að bera saman góðar upplifanir við óþægilegar gefur okkur viðmið og bætir núverandi stöðu. 

7. Sökktu þér niður í augnablikið
Reyndu að slökkva á meðvituðum hugsunum þínum og taka inn jákvæðar tilfinningar, t.d. þegar þú ert að skoða listaverk. Rannsóknir á jákvæðum upplifunum hafa sýnt að fólk nýtur sín best þegar það sogast algjörlega inn í verkefni eða augnablik og missir tímaskynið, ástand sem sálfræðingar kalla „hugflæði“. Börn eru mjög góð í þessu, en fullorðið fólk lætur auðveldlega truflast af t.d. símanum og tilhneigingunni að vilja gera margt í einu. Gott er að stalda við og velta fyrir sér jákvæðum upplifunum á stað og stund. 

8. Þakkaðu fyrir
Segðu ástvinum þínum hversu lánsamur/-söm þú ert að eiga þá að, eða gefðu þér tíma til að þakka fyrir matinn þinn áður en þú borðar. Rannsóknir sýna að það að tjá þakklæti upphátt getur gert okkur hamingjusamari þar sem við staðfestum þar með jákvæðar tilfinningar. Bryant leggur til að við hugsum um nýja blessun sem við höfum ekki þakkað fyrir áður á hverju kvöldi áður en við förum að sofa. Að rifja upp upplifun með því að þakka fyrir hana mun hjálpa okkur við að njóta hennar. 

9. Forðastu gleðispillandi hugsanir
„Það að forðast neikvæðar hugsanir er jafn mikilvægt og að hugsa jákvæðar hugsanir“, segir Fred Bryant. Eftir erfiðan dag eigum við með öðrum orðum ekki að dvelja við eða einblína á það neikvæða sem gerðist. Rannsóknir sýna að því fleiri neikvæðar hugsanir sem við höfum eftir persónulegt afrek þeim mun minna njótum við þess. „Þeir sem njóta eru hamingjusamari þegar upp er staðið“, að sögn Bryant. 

10. Minntu þig á að tíminn flýgur
Mundu að verðmæt augnablik líða fljótt hjá þannig að mikilvægt er að hafa yndi af þeim. Að átta sig á því hversu stutt sum augnablik eru og óska þess að þau vöruðu lengur hvetur okkur til að njóta þeirra meðan á þeim stendur. Það að rifja upp góða tíma eða endurskapa þá, eða þá ímynda sér augnablik í framtíðinni þar sem við munum horfa tilbaka með stolti hjálpar okkur við að njóta betur. Ef þú ert að vinna verkefni í dag, gefðu þér þá tíma til að virða fyrir þér það sem þú hefur afrekað og hvernig þú munt horfa tilbaka með fullt af góðum minningum. 

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 20. janúar 2014.