Að hlúa að og leita stuðnings sem viðbragð við streitu

Að hlúa að og leita stuðnings („tend and befriend“) er viðbragð við streitu sem sálfræðingurinn Dr. Shelley E. Taylor og samstarfsmenn hennar við Kaliforníuháskóla í Los Angeles (UCLA) lögðu fyrst til árið 2000.

Hugtakið var kynnt sem valkostur við hið almennt þekkta „flótta- eða árásarviðbragð“ („flight or fight response“) en í því felast líffræðileg ferli í líkamanum sem búa hann undir átök þegar hætta steðjar að, hvort sem það er með því að flýja af hólmi eða berjast.

Viðbragð sem leið til að draga úr streitu
Að hlúa að og leita stuðnings felur í sér tvo meginþætti, annars vegar að annast og hlúa að afkvæmum sínum eða öðrum viðkvæmum einstaklingum í hópnum til að stuðla að öryggi þeirra og vellíðan á álagstímum. Þessi hegðun er talin hafa þróast til að auka líkurnar á að afkvæmi lifðu sem og umönnunaraðilarnir sjálfir. Þegar við hjálpum öðrum upplifum við meiri samkennd, tengsl og traust og meiri þörf fyrir að tengjast öðrum og vera nálægt þeim. Áhrifin eru einnig að ótti minnkar og hugrekki eykst.

Hins vegar snýst viðbragðið um að leita félagslegs stuðnings, oft með því að mynda tengsl við vini, fjölskyldu eða aðra meðlimi samfélagsins, hlusta og verja tíma saman. Talið er að viðbragðið hafi þróast sem leið til að draga úr streitu, stuðla að samvinnu og auka lífslíkur fyrir bæði einstaklinginn og hópinn hans. Hugmyndin um að hlúa að og leita stuðnings hefur dýpkað skilning okkar á því hvernig við bregðumst við streitu.

Mikilvægt hlutverk oxýtósíns
Talið er að ofangreind viðbragð um að hlúa að og leita stuðnings sé algengara hjá konum vegna þróunarlegra og líffræðilegra þátta eins og t.d. umönnunarhlutverks kvenna og hlutverks oxytósíns en líkaminn losar þetta hormón m.a. í barnsburði og við brjóstamjólkurgjöf. Það fer út í líkamann þegar við upplifum streitu, bæði hjá konum og körlum. Oxýtósín hvetur okkur ekki bara til að leita stuðnings heldur hefur einnig verndandi áhrif á hjarta- og æðakerfið. Það hefur bólgueyðandi áhrif og hjálpar æðum að vera slakar á meðan á streitu stendur og getur þannig dregið úr neikvæðum heilsufarsáhrifum sem tengjast langvarandi streitu. Heilinn losar meira af oxýtósíni eftir því sem við eldumst.

Kelly McGonigal, sem er heilsusálfræðingur, rithöfundur og fyrirlesari við Stanford háskóla, hefur rannsakað og skrifað töluvert um streitu og áhrif hennar á heilsu og vellíðan. Í bók sinni The Upside of Stress leggur hún áherslu á að skynjun okkar á streitu sé mikilvæg fyrir áhrif hennar á heilsu okkar. Ef við lítum á streitu sem áskorun (frekar en ógn) sem hægt er að sigrast á og trúum því að hún geti gert okkur þrautseigari, erum við líklegri til að hlúa að og leita stuðnings og njóta góðs af jákvæðum áhrifum þess. McGonigal heldur því fram að hugarfar okkar varðandi streitu geti umbreytt streitu úr hugsanlegri heilsuógn í tækifæri til persónulegs þroska og sterkari félagslegra tengsla.

Að draga úr neikvæðum áhrifum streitu
Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi um hvernig við getum hlúð að og leitað stuðnings og þar með dregið úr neikvæðum áhrifum streitu:

  • Veittu tilfinningalegan stuðning: Bjóddu vini eða fjölskyldumeðlimi sem er að ganga í gegnum erfiða tíma hlustandi eyra eða öxl til að gráta á. Að veita huggun, skilning og samkennd getur styrkt félagsleg tengsl og hjálpað til við að draga úr streitu, bæði fyrir þann sem veitir og þann sem þiggur stuðning.
  • Réttu fram hjálparhönd: Hjálpaðu einhverjum sem á við áskoranir að etja með því að rétta fram hjálparhönd, eins og að sýna stuðning í verki, aðstoða nágranna við viðgerðir á húsi eða taka þátt í sjálfboðaliðastarfi.
  • Byggðu upp stuðningsnet: Ræktaðu tengsl við vini, fjölskyldu, samstarfsmenn og nágranna sem geta veitt gagnkvæman stuðning á álagstímum. Taktu þátt í félagsstarfi eða áhugamálum sem stuðla að félagslegum samskiptum og tilfinningu um að tilheyra, eins og í íþróttum, bókaklúbbi eða hópþjálfunartíma.
  • Tjáðu þakklæti: Tjáðu þeim sem eru í kringum þig reglulega þakklæti fyrir stuðning þeirra og góðvild. Þetta getur hjálpað til við að styrkja félagsleg tengsl og stuðlað að jákvæðu hugarfari.
  • Vertu opinskár: Deildu tilfinningum þínum, áhyggjum og reynslu með traustum vinum og fjölskyldumeðlimum. Opin samskipti geta hjálpað til við að skapa traust stuðningsumhverfi þar sem hægt er að leita ráða.
  • Hrósaðu og veittu uppörvun: Viðurkenndu og fagnaðu afrekum þeirra sem eru í kringum þig og veittu uppörvun á erfiðum tímum. Þetta getur hjálpað til við að skapa jákvætt andrúmsloft og styrkja félagsleg tengsl.

Með því að hlúa að og leita stuðnings getum við stuðlað að sterkari félagslegum tengslum og þar með dregið úr streitu og stuðlað að almennri vellíðan.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á heimildin.is 27. ágúst 2023.