Að eiga yndislegan dag

Hvernig væri að lifa og verja einum degi með öðrum hætti en venjulegum dögum? Með því að gera smá breytingar á þínu daglega lífi er hægt að skapa  ánægjulegan og yndislegan dag.

Undirbúningurinn hefst kvöldið áður. 

Sittu á rúmstokknum áður en þú ferð upp í rúm og segðu við sjálfa(n) þig að á morgun munir þú vakna klukkutíma fyrr en venjulega. Endurtaktu það nokkrum sinnum til að fá hugann til að samþykkja þessa hugmynd. Hugsaðu í smástund um kosti þess að fara snemma á fætur, og um allt það sem þú gætir gert á þessum aukaklukkutíma.

Það er ekki nóg að bara vakna snemma. Oft liggjum við áfram í rúminu eftir að klukkan hringir, og sofnum svo aftur. Þú þarft að sannfæra og útskýra fyrir sjálfum/sjálfri þér að þú þurfir að fara á fætur um leið og þú vaknar. Það er þægilegt að kúra undir sæng, sérstaklega á köldum vetrarmorgni, en á þessum sérstaka degi þarftu að rísa á fætur án tafar. 
Stilltu klukkuna og farðu upp í rúm. Fylgistu með hugsunum þínum skjótast upp í hugann, en reyndu að gera það úr fjarlægð og án spennu. Horfðu einfaldlega á þær á yfirvegaðan, rólegan og afslappaðan hátt, þangað til þú sofnar. 

Farðu strax á fætur um leið og klukkan hringir morguninn eftir, með bros á vör. Ekki láta undan löngun þinni að kúra aðeins lengur. Hlustaðu heldur ekki á huga þinn sem mun líklega reyna að sannfæra þig um að vera í rúminu í nokkrar mínútur til viðbótar. Þú munt strax finna ánægju og mátt með því að fara strax á fætur, og þessi tilfinning er sterkari en ánægja þess að dvelja áfram í rúminu.
Farðu á fætur og stundaðu hugleiðslu í 20 mínútur. Ef þú hefur aldrei stundað hugleiðslu er gott að setjast einfaldlega niður og rifja upp skemmtilega og ánægjulega atburði úr fortíðinni.

Hver og einn þarf síðan að finna sér sína leið til að verja deginum. Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi og hugmyndir:

 • Með því að vakna snemma færðu meiri tíma þannig að hægt væri að verja honum í að njóta nærandi og bragðgóðs morgunmatar. Búðu eitthvað til sem þú ert hrifin(n) af, eitthvað sem þú hefur ekki tíma til á morgnana. Í dag hefurðu allan tímann í heiminum.
 • Vertu meðvitaður/-vituð um það sem þú gerir þennan dag. Þegar þú borðar t.d. er mikilvægt að einblína á matinn, og lesa ekki dagblaðið eða horfa á sjónvarpið á meðan. Þú munt njóta matarins miklu betur. Á sama hátt er gott að veita öllu því sem þú tekur þér fyrir hendur athygli. Að einbeita þér að því sem þú ert að gera hjálpar þér við að gera allt betur og á skilvirkari hátt.
 • Mundu eftir að brosa oftar á þessum sérstaka degi. Það er mikilvægt að brosið sé ekki gervibros heldur komi innan frá. Að brosa gleður okkur sjálf og aðra.
 • Gerðu ráð fyrir því besta og gerðu þitt besta.
 • Vertu þolinmóð(ur) og umburðarlynd(ur) gagnvart öðrum.
 • Taktu ákvörðun um að vera umburðarlynd(ur) gagnvart öðrum bílstjórum. Stoppaðu við gangbrautir til að hleypa gangandi vegfarendum yfir. Vertu kurteis og tillissamur/-söm í umferðinni. Þessi hegðun mun skapa vellíðan hjá þér og öðrum bílstjórum og vegfarendum. Þeir munu síðan sýna sama umburðarlyndi gagnvart öðrum í umferðinni, að minnsta kosti í einhverja stund.
 • Góður morgunn með brosi hefur frábær áhrif á alla. Heilsaðu samstarfsmönnum þínum, jafnvel þó að þú hafir aldrei gert það áður. 
 • Mættu til vinnu með sterk áform um að eiga yndislegan dag og höndla allt á jákvæðan og ákveðinn hátt. Það mun hafa áhrif á alla þá sem þú þarft að eiga samskipti við og hjálpar þér að breiða út frið, góðan vilja og ánægju.
 • Gerðu þitt besta til að vera vingjarnleg(ur) og kurteis í dag, við fjölskyldu þína, samstarfsmenn, vini, afgreiðslumanninn í búðinni, strætóbílstjórann og alla þá sem þú hittir í dag. 
 • Taktu ákvörðun um að höndla allt á yfirvegaðan og rólegan hátt. Ef þú þarft að hitta einhvern sem gerir þig yfirleitt stressaða(n) eða pirraða(n) er gott að ræða við sjálfa(n) þig fyrirfram. Segðu við sjálfa(n) þig að þú ætlir að halda ró þinni, og munir höndla allt á sem bestan hátt. 
 • Farðu í gegnum daginn án þess að flýta þér. Minntu þig á að þetta er þinn sérstaki, yndislegi dagur. Bjóddu ánægjulegar tilfinningar velkomnar og rifjaðu upp aðstæður og atburði úr fortíðinni þar sem þér leið sérstaklega vel. Njóttu þeirra.
 • Hvernig væri að færa makanum eða börnunum blóm, bók eða aðra litla gjöf eftir vinnu? Eða jafnvel bara bros, faðmlag eða koss? Þú ert búin(n) að leggja þig fram í allan dag um að vera góð(ur) við aðra og jákvæð(ur). Haltu þessu áfram heima hjá þér. Verðu gæðatíma með þeim sem þér þykir vænt um. 
 • Leggðu þig fram um að nýta tímann á skilvirkari hátt. Ekki horfa of mikið á sjónvarpið og styttu tímann sem fer í lestur dagblaða. Það er betra að nota tímann í að lesa eitthvað uppbyggilegt, eitthvað sem veitir þér innblástur.
 • Verðu einnig tíma með sjálfum/sjálfri þér. Gerðu það sem hefur yndi af, eins og að lesa bók, skrifa, sinna áhugamáli, ganga o.fl.

Reyndu að eiga einn yndislegan dag og síðan annan dag alveg eins. Ef þú heldur þessu áfram, kemst það upp í vana.

Mundu að í dag er þinn sérstaki og yndislegi dagur.  

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman