Heilandi hetjuferðir

Hetjuferðin (The Hero´s Journey) er vel þekkt bókmenntahugtak sem í síauknum mæli er notað til sjálfskoðunar og valdeflingar: Hetjan í sínu þekkta umhverfi heyrir kall til breytinga og til að hlýða því þarf hún að yfirstíga ýmsar ytri og innri hindranir. Hún stígur inn í óþekktan heim ævintýrisins þar sem bíða hennar ögrandi þroskaverkefni, hún hlýtur eldskírn og í ferli friðþægingar hlotnast henni gjöf.

Umbreytt snýr hetjan aftur til síns heima en gjöfin gagnast samfélagi hennar öllu.

Ævafornt minni Hetjuferðarinnar hefur fylgt mannkyni síðan við fórum að segja hvert öðru sögur og átta okkur á umbreytingarmætti sagnalistarinnar. Fyrstur til að taka saman hugmyndir Hetjuferðarinnar var bandaríski goðsagnafræðingurinn Joseph Campbell (A Hero with a Thousand Faces, 1939) en bandaríski handritshöfundurinn Christopher Vogler (The Writer´s Journey, 1992) átti drjúgan þátt í  að skapa bylgju fantasíufrásagna sem byggðar eru á Hetjuferðinni. Í fyrirlestrinum er sagt frá hugmyndum Campbell og Vogler og aðferðum leikhússmannsins Paul Rebillot sem þróað hefur Hetjuferðina sem sjálfsvinnu. Einnig er bent á tengsl Hetjuferðarinnar við tólfsporaaðferðina, útbreiddasta sjálfshjálparkerfi heims.

Áheyrendur öðlast færni í að greina Hetjuferðina í bókmenntum og bíómyndum og yfirfæra vísdóminn á eigið líf.

Fyrirlesturinn hentar öllum sem leitast við að öðlast aukinn þroska. Hægt er að fá bæði fjar- og staðbundinn fyrirlestur.

Fyrirlesari: Björg Árnadóttir, rithöfundur og ritlistarkennari, MA í menntunarfræðum og eigandi Stílvopnsins.