Þetta unga fólk!

Oft heyrast þær raddir að erfitt sé að hafa ungt fólk í vinnu. Þessi umræða gengur jafnvel svo langt að heyra má þau sjónarmið að unga fólkið sé latt, ábyrgðarlaust, kunni ekki að vinna og hafi jafnvel engan metnað.

Það endist ekki í vinnu og vart taki því að þjálfa það upp því það sé farið áður en vari. Spyrja má hvort eitthvað sé til í þessu? Getur það verið að svona sé virkilega komið fyrir ungu fólki í dag?

Það er hollt að minnast þess að það er ekkert nýtt að raddir heyrist meðal þeirra eldri um að unga fólkið sé bæði óalandi og óferjandi. Þetta hefur að sjálfsögðu verið svona lengi, kannski alltaf. Þeir eldri gleyma því gjarnan að eitt sinn voru þeir í hópi þeirra sem voru einmitt svona, óalandi og óferjandi. Samt er næsta víst að það rætist úr öllu þessu unga fólki, það rættist jú úr mér og þér, ekki satt?

En einhverjar ástæður hljóta að vera fyrir þessari neikvæðu umræðu og hennar gætir töluvert í dag. Það er því um vert að reyna að greina ástæður þessara viðhorfa til ungs fólks á vinnumarkaði og jafnframt leita leiða til að minnka kynslóðabilið með auknum skilningi á báða bóga.

X og Y kynslóðirnar
Þegar rýnt er í skrif höfunda eins og, Jean M. Twenge (Generation Me, 2007), Nadira A. Hira (Attracting the Tventy Something Worker, vefslóð: http://money.cnn.com/magazines/fortune/fortune_archive/2007/05/28/100033934/ og Claire Raines (Beyond Generation X, 1998) má greina að á vinnumarkaði í dag séu tvær yngri kynslóðir sem séu um margt líkar þó sú samlíking nái að sjálfsögðu ekki til allra þátta. Fyrst ber þó að nefna að ekki er endilega auðvelt að ákvarða hvar draga skuli mörkin varðandi kynslóðabil. En oft er miðað við að svokölluð X-kynslóð sé kynslóðin sem fædd er á tímabilinu 1961-1980. Þetta er kynslóðin sem er alin upp af Barna-bombu-kynslóðinni (The Baby Boomers), líka kölluð Eftirstríðsára-kynslóð. Y-kynslóðin, einnig kölluð Aldamótakynslóðin (Millenials) er fædd á árunum 1981-2000 en hún er óðum að tínast inn á vinnumarkaðinn núna. Þessar tvær kynslóðir eiga ýmislegt sameiginlegt varðandi uppeldisaðstæður þó það sé ýmislegt líka sem er ólíkt þar að lútandi. Það sem er sameiginlegt er til dæmis að sjónvarp og fjölmiðlar hafa komið mjög við sögu í uppvextinum, atvinnuþátttaka kvenna hefur verið almenn á tímabilinu þó hún hafi vissulega aukist jafnt og þétt og skilnaðir hafa þekkst og verða æ algengari, en voru nánast óþekktir áður, og þessar kynslóðir hafa því kynnst flóknari fjölskyldumynstrum en voru almennt séð þekkt áður. Eins eru margir af þessum kynslóðum úr litlum systkinahópi, þó sérstaklega sú seinni. Báðar þessar kynslóðir hafa líka upplifað í gegnum fjölmiðla að þeir sem áður voru á nokkurskonar hetjustalli, til dæmis stjórnmálamenn og kvikmyndastjörnur, hafa fyrir tilstuðlan fjölmiðla, þyrstra í söluhvetjandi hneyksli, hrapað af stalli sínum. Þetta, í bland við breyttar uppeldisaðferðir og vaxandi velmegun, hefur sett mark sitt á samskipti þessara kynslóða við yfirmenn og viðhorf til valdhafa almennt.

Sé skoðað það sem hinir ýmsu hafa skrifað um þessar kynslóðir má sjá að sem starfskraftar þykja þær eiga margt sameiginlegt líka.

Samband yfir- og undirmanna
Þar ber helst að nefna að X og Y fólk vill hafa samband sitt við yfirmenn á jafningjanótum. Báðar kunna að meta að finna að umhyggja sé borin fyrir þeim á vinnustað og í raun gerir fólk á þessum aldri kröfu til þess. Þetta vilja bókahöfundar eins og Claire Raines útskýra með þeim hætti að vegna fyrrgreindra ástæðna sem leiddu til falls hetjanna hafi virðing fyrir yfirvaldi minnkað verulega. Virðing við yfirmenn byggist því ekki á hugmyndinni um vald og samþykkt þess að einhver sé yfir viðkomandi settur heldur á gagnkvæmri virðingu og upplifun af þessum tiltekna yfirmanni. Annað sem talið er að hafi áhrif varðandi þetta er að þessar kynslóðir fengu uppeldi þar sem þau voru metin sem vinir foreldra sinna, frekar en foreldrar hafi komið fram við þau sem yfirvald. Þetta, ásamt því að tími með foreldrum var af nokkuð skornum skammti, vilja fyrrgreindir bókahöfundar meina að hafi skapað þá stemmningu að starfsfólk á þessum aldri vill gjarnan fá tíma með yfirmanni sínum, spjall yfir kaffibolla, nú eða kókglasi, boð um að koma með á fund eða fá annan sérstakan tíma með yfirmanni sínum. Góðar móttökur þegar störf eru hafin og fleira af þessum toga eru því vel þegnar og taldar nauðsynlegur vottur þess að fólk sé metið að verðleikum hjá tilteknu fyrirtæki. Í bókinni Beyond Generation X eftir Claire Raines segir höfundur frá því að algeng ástæða þess að fólk af þessari kynslóð hættir í vinnu sé ónóg athygli frá yfirmanni eða að yfirmanni hafi virst vera sama um starfsmanninn. Tengt þessu er einnig sú krafa yngra fólksins að vinnustaður fóstri ákveðið liðsviðhorf, sköpuð sé liðsheild sem stjórnandi fari fyrir.

Viðhorf til endurgjafar
Annað sem getur ýtt undir þessar tilfinningar yngra starfsfólks um að það sé ekki metið sem skyldi er ákaflega mismunandi viðhorf kynslóða á vinnumarkaði til endurgjafar eða hróss. Á vinnumarkaði eru fjórar kynslóðir og segja má að skörp skil séu milli þeirra tveggja eldri og yngri. Elsta kynslóðin á vinnumarkaði (Þögla kynslóðin 1922-1943) var hreint ekki alin upp við endurgjöf nema ef vera skyldi skammir ef eitthvað var ekki sem skyldi. Segja má að hennar viðhorf sé í þeim anda að engar fréttir séu góðar fréttir. Með Barna-bombu kynslóðinni komu starfsviðtöl, formleg eða óformleg, þar sem gjarnan var farið yfir málin einu sinni á ári eða svo og það dugði þeirri kynslóð sem endurgjöf. Næsta kynslóð, X-kynslóðin er alin upp í töluvert frábrugðnu umhverfi frá þeim fyrri. Minni systkinahópar og foreldrar með samviskubit vegna fjarvista frá þeim vegna mikillar vinnu gerði þessa kynslóð að vissu marki að meiri stjörnum heimavið. Mjög margir af þessari kynslóð fóru í leikskóla en leikskólar fóru fljótt að huga að mikilvægi endurgjafar og nýta hana sem stjórntæki varðandi hegðun og til að styðja við sjálfstraust barnanna. En þessi kynslóð er líka alin upp við afþreyingartæki eins og sjónvarpið og fyrstu tölvuleikina. Tölvuleikir hafa þann eiginleika að endurgjöf fæst strax, stöðugar upplýsingar berast um hvernig spilarinn er að standa sig. Margt hefur því stuðlað að því að móta hegðun X-kynslóðarinnar í þá átt að vilja, og hafa þörf fyrir, tíða endurgjöf.

Nýjasta kynslóðin á vinnumarkaði, Y-kynslóðin, hefur fengið enn frekari mótun í þessa átt. Þar fyrir utan hefur fólk af þessari kynslóð fengið vænan skammt af athygli og því haldið mjög að þessum einstaklingum boðskap um að þau eigi að vera þau sjálf, þau eigi að trúa á sjálf sig, þau geti allt ef þau bara trúi á það og svo framvegis. Þannig hefur verið mikil áhersla lögð á að hrósa börnum og að þeim haldið þeirri hugmyndafræði að engin takmörk væru fyrir því hvað þau gætu áorkað í lífinu. Jean M. Twenge hefur rannsakað kynslóðirnar og kynnir í bókinni Generation Me (2006) þá niðurstöðu sína að þessi uppeldisaðferð sé handónýt og skili ungu fólki sem sé nánast veruleikafyrrt á eigið ágæti og getu. Sjálflægni þessarar kynslóðar sé á áður óþekktum skala og hún skýrir kynslóðina Ég – kynslóðina samanber bókartitillinn Generation Me. Það þarf ekki að koma á óvart að þessi niðurstaða hefur fengið harða gagnrýni en jafnframt á hún sér einnig fylgismenn. Þeir sem eru fylgjandi þessu benda gjarnan á þætti eins og Idolið þar sem svo virðist sem til séu heil ósköp af fólki sem haldið er ranghugmyndum um eigin hæfileika, svo vægt sé til orða tekið. Gagnrýnendur hafa bent á það á móti að þessi kynslóð er jafnframt sú sem hefur virkilega þurft að puða í lífinu, þau séu vön því að hafa daginn fullskipaðan og dagskráin nái frá morgni til kvölds. Skóladagur þeirra er lengri en nokkur önnur kynslóð hefur upplifað og eftir skóla taka við endalausir aukatímar í hinu og þessu. Einnig hefur verið bent á að skólakerfi þessarar kynslóðar hefur í flestum tilfellum ekki verið til að ýta undir þá hugsun að allt fáist fyrir ekki neitt, en þetta er sennilega þrautprófaðasta fólk sem gengið hefur jörðina auk þess að vera hópur sem hefur sáralítið átt af lausum tíma, tími þeirra er skipulagður út í ystu æsar. Sá hluti þeirra sem ekki hafa átt velgengni að fagna í skóla hafa síður en svo fengið að heyra að þau geti allt, þau hafa hinsvegar fengið drjúgan skerf af skilaboðum um að ef þau standi sig ekki í skólanum verði ekkert úr þeim. Að sjálfsögðu leiðir þetta af sér margvíslegar aðrar ályktanir, til dæmis felst í þessu sú hugmynd að ekkert sé í raun merkilegt nema vinna sem krefst háskólanáms. Um þetta má margt segja en allavega er hugsanlegt að sjálflægni þessarar kynslóðar sé að hluta til birtingarmynd mikilla krafna sem á þeim hvíla um að þau verði að standa sig, verði að verða eitthvað merkilegt. Ekki er ólíklegt að þetta stafi af einhverju leita af því að þau eru mörg hver einbirni, eða tilheyra allavega langflest litlum systkinahópi. Hvert og eitt barn er því eina tækifæri foreldranna til að eiga stjörnu! Hver elur upp börnin sín með það að markmiði að verða meðaljón eða undir því? Svari hver fyrir sig. Kröfurnar sem hvíla á þessum hópi kristallast kannski svolítið í því að í bandarískum rannsóknum hefur komið fram að allt að 70% ungs fólks segist hafa það að markmiði að stofna sitt eigið fyrirtæki í framtíðinni. Meðal þeirra sem eru bjartsýnir á þessa kynslóð og getu hennar eru höfundar eins og Neil Howe og William Strauss sem skrifuðu bókina Millennials Rising, en þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu að þessi kynslóð eigi eftir að verða mjög kröftug og muni endurreisa ýmis mannvæn gildi eins og fjölskyldugildin.

Að auki má benda á að fjölbreytni starfa, tíðar breytingar og flókin störf hafa ennfremur kallað á þá stýringu eða leiðbeiningu sem tíð endurgjöf veitir.

Viðhorf til vinnu og lífsgæða
Höfundarnir Nadira A. Hira og Claire Raines segja að Y kynslóðin sé staðráðin í að njóta dagsins í dag vegna þess að þau sjái ekki að morgundagurinn sé endilega tryggur. Hryðjuverk, gróðurhúsaáhrif og önnur umhverfisslys hafi kennt þeim að rétt sé að njóta dagsins meðan það er mögulegt. Þetta hafi þau áhrif að þessi kynslóð krefjist þess að störf hafi einhverja þýðingu og það sé skýring þess að algengt sé að unga fólkið spyrji gjarnan “afhverju” þegar yfirmenn gefa skipanir um að eitthvað sé gert. Það má segja að það styðji þetta að þess er farið að gæta að ungt fólk velur sér frekar að vinna fyrir samfélagslega ábyrg fyrirtæki, fyrirtæki sem eru til dæmis með virka umhverfisstefnu. Unga fólkið vill sjá að störf þess hafi einhvern tilgang og er mjög sátt við svör sem sýna fram á að störfin muni leiða til aukins persónulegs þroska eða færni. Þessari kynslóð er hinsvegar ekki hægt að bjóða uppá svarið; af því ég segi það. Þessir höfundar vilja einnig meina að þess utan sé þessi kynslóð fær um að vinna hlutina enn hraðar en hingað til hefur þekkst vegna mikils sveigjanleika, tæknivæðingar og hve jákvæð þau eru varðandi það að tileinka sér nýja hluti og færni. Þessi kynslóð leiti leiða til að vinna hlutina hraðar og nota tímann síðan til að njóta lífsins á annan hátt fremur en vinna yfirvinnu.

Góð ráð
Ef því er slegið föstu að unga fólkið eigi að einhverju leiti skilið þá umsögn sem því er oft gefið af eldra fólkinu, þ.e. að það sé latt, ábyrgðarlaust, skorti frumkvæði og vinnuvilja, er ekki annað en sanngjarnt að leita skýringa einnig í því vinnuumhverfi sem því er boðið uppá. Ljóst er að ungt fólk er ekki vant því að sitja lengi við það sama til dæmis. Það hefur verið alið upp við mikinn fjölbreytileika, mikla skipulagða dagskrá og almennt séð mikinn hraða á hlutunum. Það er ekki galið að velta fyrir sér myndböndum sem gerð eru fyrir þennan aldurshóp en þar eru klippingar svo hraðar að eldra fólki finnst gjarnan að lítið sé hægt að sjá út úr þessu myndmáli meðan yngra fólkið virðist ekkert eiga í vandkvæðum með að meðtaka þetta. Í ljósi þessa má segja að það sé dæmt til að mistakast að láta unga fólkið vinna við sama hlutinn í marga klukkutíma svo eitthvað sé nefnt. Réttara sé að láta það skipta oft um starfsstöðvar og reyna að tryggja ákveðna fjölbreytni í vinnunni. Annað er í raun sóun á hæfileikum. Einnig má telja næstum tryggt að ungt fólk sem er að koma inn á vinnumarkaðinn hefur takmarkaða reynslu af því að stýra tíma sínum sjálft, frá unga aldri er fólk nú til dags undir skipulagi frá morgni til kvölds, skipulagi sem er sett af öðrum. Því er ekki ósennilegt að til að byrja með þurfi það mikla verkstjórn. Það gæti jafnframt skýrt af hverju það fær stimpilinn að það sé latt, það er einfaldlega að bíða eftir skipunum og er svolítið ósjálfstætt.

Ungt fólk er undir miklu álagi og pressu í nútíma skólaumhverfi og það er mjög vant samkeppni og kann því vel að meta hverskyns keppni. Það er ekki galið að mæta þessu með því gera vinnustaðinn að stað þar sem þau fá útrás fyrir keppnisskapið og nota þessa leið til að virkja kraftinn og samkeppniseðlið í þeim. Krafan um að njóta dagsins er í raun aðeins sóknarfæri fyrir fyrirtæki og virkjun þessarar leikgleði ætti að geta nýst öllum framsæknum vinnustöðum. Þetta má gera með því að gera vinnustaðinn að vettvangi þar sem unga fólkið fær útrás fyrir þessa þörf sína. Pílukastkeppni í hádeginu og stigakeppni um hreinustu deildina eru einföld dæmi um slíkt.

Lokaorð
Í umræðu sem þessari má ekki gleyma að þegar dregin er upp staðalmynd af hópi fólks er aldrei um neitt annað að ræða en einmitt það, þetta er staðalmynd sem getur aldrei verið skýring á hegðun eða viðhorfum allra sem falla undir flokkinn. Meiri munur er á einstaklingum innan kynslóða heldur en milli þeirra. Okkur er þó mjög tamt að draga upp staðalmyndir og umræðan um unga fólkið á vinnumarkaði í dag er mjög lituð af því.

Í ljósi ólíkra viðhorfa og sjónarhorna kynslóðanna má ljóst vera að hér eru spennandi áskoranir sem vert er að hugsa um.  Við þurfum að vara okkur á því að dæma ekki ungu kynslóðina of hart en hún fær það mat að vera ekki nógu dugleg. Hún hefur klárlega aðra styrkleika en sú á undan. Allt snýst þetta samt um það eitt að láta þetta allt ganga upp á vinnustaðnum og nýta það besta sem hver og einn hefur að bjóða því saman erum við sterkari.

Greinarhöfundur: Þórhildur Þórhallsdóttir.