Svartsýni vinnur engar orrustur

Hugsanir okkar hafa ekki aðeins áhrif á skap okkar og andlega líðan heldur einnig á tilfinningar okkar. Á yfirborðinu virðist sem atburðir í lífi okkar ákvarði hvernig okkur líður.

Hið sanna er hins vegar að það er alveg öfugt. 

Rannsóknir margra ára hafa leitt í ljós að það er viðhorf okkar og túlkun á því sem gerist í lífi okkar sem ræður því hvernig okkur líður. Einnig hefur verið vísindalega sannað að bjartsýnt folk býr við betri andlega heilsu. Þetta ræðst sem sagt allt af því hvernig við hugsum.

Vonleysi virkar lamandi
Margir komast að því þegar þeir hlusta á innri rödd sína að margt sem fer í gegnum huga þeirra er neikvætt. Hugsanir eins og “Ég gæti þetta aldrei” eða “Hvað ef mér mistekst?” geta haft alvarleg áhrif á líðan okkar og hegðun. Vonleysi er líklega með verri neikvæðum tilfinningum sem hægt er að upplifa. Þegar vonin er til staðar er allt hægt, en án vonar er allt vonlaust. Þetta er líklega stærsti munurinn á bjartsýnum og svartsýnum einstaklingum. Bjartsýnt fólk lítur á neikvæðar aðstæður sem tímabundnar og leitar leiða til að yfirstíga hindranir og snúa þeim yfir í eitthvað jákvætt. Svartsýnn einstaklingur lítur á neikvæðar aðstæður sem eitthvað sem hann getur ekki haft áhrif á. Hann hefur ekkert annað val en að lifa slæma veðrið af og er viss um að meira slæmt veður sé á leiðinni. Hann er án vonar og upplifir þar af leiðandi litla gleði í lífi sínu. 

Annar munur á bjartsýnum og svartsýnum einstaklingum er hversu alvarlegan þeir telja atburð vera. Bjartsýnn einstaklingur lítur á slæman atburð sem sjálfstætt atvik sem er ótengt öðrum atburðum í lífi hans. Svartsýnn einstaklingur lítur á neikvæðan atburð sem atvik í röð neikvæðra atburða sem hann lendir í vegna þess að lífið er óréttlátt. Hann trúir því ekki að hann geti stjórnað því sem gerist í lífi hans og notar alhæfingu eins og: “Ég klúðra öllu því sem ég tek mér fyrir hendur” í stað þess að segja: “Ég klúðraði þessu eina verkefni.”

Bjartsýni borgar sig
Lykillinn að hugsunum bjartsýnna einstaklinga þegar þeir mæta mótlæti er að draga úr neikvæðu tilfinningunum sem fylgja mótlætum með því að finna orsökina í ytra umhverfinu (“Atvinnuástandið er erfitt þessa dagana”) á meðan svartsýnn einstaklingur skellir skuldinni frekar á sjálfan sig: “Ég hef ekki það sem til þarf” eða “Ég er ekki góður í mannlegum samskiptum.” Bjartsýnn einstaklingur sem lendir í árekstri er feginn að enginn skuli hafa slasast. Þetta var bara óhapp og ekki ástæða til að halda að það sé meira illt í vændum. Svartsýnn einstaklingur aftur á móti lítur á óhappið sem sönnun fyrir því hversu óheppinn hann er og  leyfir reiðinni að verða heilbrigðri skynsemi yfirsterkari.

Lykillinn að því að halda andlegu og líkamlegu jafnvægi er að setja hlutina í rétt samhengi þegar eitthvað fer úrskeiðis. Þetta þýðir ekki að maður eigi að vera óraunsær varðandi mögulegar afleiðingar atburða, en heldur ekki að grafa sig í neikvæðum tilfinningum.

Að viðhafa jákvætt viðhorf
Leikarinn heitinn Christopher Reeves, sem féll af hestbaki og hálsbrotnaði, er gott dæmi um hvernig hægt er að viðhafa jákvætt viðhorf þrátt fyrir harmleikinn sem bar að höndum. Bjartsýnn einstaklingur finnur alltaf einhverja leið til að breyta beiskum sítrónum í svaladrykk. Mikilvægt er að átta sig á því að bakslög í lífinu eru tímabundin og að maður geti þraukað þó að það geti þýtt líffstílsbreytingu eins og Christopher Reeves stóð frammi fyrir. Einnig er gott að einangra neikvæða atburði og muna að þeir eru sjálfstæð atvik og ekki hluti af neikvæðri keðju sem hefur valið þig til að ráðast á.

Fylgdu viðhorfskúr
Hér fyrir neðan er að finna fjögurra daga viðhorfskúr sem gott er að endurtaka þangað til búið er að setja inn jákvætt viðhorf:

Dagur 1: Fylltu huga þinn jákvæðum hugsunum
Mundu að hugsanir þínar stjórna viðhorfi þínu og heilsu. Hlustaðu á innri rödd þína og snúðu neikvæðum hugsunum yfir í jákvæðar. Gott er að fæða huganum jákvæðum hugsunum. Lestu uppbyggilegar bækur, hlustaðu á hressandi tónlist, eða hringdu í jákvæðan einstakling. Forðastu bölsýnismenn og nöldrara. Haltu dagbók og skrifaðu niður 50 jákvæða hluti sem henda þér á þessum fyrsta degi og láttu fylgja lítil atriði eins og að finna tíkall á gangstéttinni eða lesa skemmtilega frétt í dagblaðinu. Eftir smá stund muntu átta þig á því að langstærsti hluti þess sem gerist í lífi þínu er jákvæður.

Dagur 2: Farðu með jákvæðar staðhæfingar
Minntu þig á árangurinn sem þú hefur náð hingað til. Óskaðu þér til hamingju með allt það góða sem þú hefur áorkað og átt eftir að áorka. Neitaðu að láta sjálfsefa ná yfirhöndinni. Segðu við sjálfa(n) þig: “Ég er full(ur) sjálfstrausts og ég er hæfileikarík(ur).” Lærðu af gerðum mistökum og gerðu grín að sjálfum/sjálfri þér. Hnefaleikarinn Sugar Ray Robinson sagði: “Til að vera heimsmeistari þarftu að hafa trú á eigin getu, jafnvel þó að enginn annar hafi trú á þér.”

Dagur 3: Hugsaðu aðeins jákvæðar hugsanir um annað fólk
Leyfðu ekki neikvæðar hugsanir um annað fólk að ná fótfestu í huga þínum. Reyndu að finna eitthvað sem þér líkar í fari allra þeirra sem þú hittir. Sumir eru með fallegt bros, aðrir einlægir og enn aðrir mjög hollir starfi sínu. Alltaf er hægt að finna ýmislegt jákvætt í fari annarra.

Dagur 4: Mæltu aðeins jákvæð orð
Talaðu jákvætt og af bjartsýni um alla hluti – starf þitt, viðskiptavini, yfirmanninn, starfsmenn þína, börnin þín, heilsuna þína og framtíðina. Hugsanlega þarftu að temja þér jákvæðari hugsanir. Þegar maðurinn á undan þér í röðinni í bakaríinu tefur alla og og þú freistast til að gera meinlega athugasemd við konuna við hliðina á þér væri t.d. betra að segja: “Frábært að geta slakað á í nokkrar mínútur”. George Schultz fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði: “Um leið og maður byrjar að tala um hvernig maður ætlar að bregðast við tapi, er maður búinn að tapa.”

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 3. júlí 2008.