Nokkur ráð við heimsfaraldursblús

Enn og aftur leikur kórónuveiran okkur lífið grátt. Viðburðum er frestað, þúsundir eru í einangrun og sóttkví og aðrir draga sig inn í skelina og lágmarka samneyti við annað fólk.  

Geðheilsu fólks fer hrakandi með vaxandi kvíða, þunglyndi og kulnun. Ein besta leiðin til að losna við þennan heimsfaraldursblús er að einsetja sér að upplifa gleði, jafnvel þó að það hljómi ómögulegt eða jafnvel óábyrgt.

Fyrir nýju bókina sína, The Power of Fun: How to Feel Alive Again, varði höfundurinn Catherine Price fimm árum í að rannsaka spurninguna hvað auki virkni, áhuga og vellíðan. Margir virðast vanmeta stórlega mikilvægi gleði fyrir seiglu, hamingju og andlega og líkamlega heilsu. Rannsóknir Price hafa sýnt að sönn gleði, eins og hún kallar hana, verður að veruleika þegar þrír sálfræðilegir þættir renna saman: leikgleði, tilfinningaleg tengsl við aðra og flæði.

Leikgleði snýst ekki um að spila leiki heldur er um að ræða glaðværð eða kátínu sem fær okkur til að sinna daglegum verkefnum ánægjunnar vegna. Rannsóknir sýna að hægt er að örva leikgleði með því að leita leiða til að vera fjörugri og einnig að fjörugir einstaklingar eru betri í að stjórna streitu.

Annar þátturinn, tilfinningaleg tengsl við aðra, vísar til þeirrar tilfinningar að upplifa sérstaka, sameiginlega stund með annarri manneskju. Það að þróa sterkari félagstengsl eykur seiglu á krefjandi tímum.

Flæði lýsir því ástandi þegar við sogumst inn í verkefni og erum með algjöra einbeitingu, oft að því marki að við missum tímaskynjun. Flæði er virkt ástand þannig að það að hámhorfa Netflix þáttaröð telst ekki með. Hægt er að upplifa flæði þegar við erum t.d. niðursokkin í listsköpun, íþróttaiðkun eða samtal.

Sýnt hefur verið fram á að hver og einn þessara þriggja þátta bætir skap fólks og andlega heilsu. En þegar við upplifum þættina þrjá samtímis - með öðrum orðum, þegar við upplifum sanna gleði - eru áhrifin næstum töfrum lík. Þegar við upplifum sanna gleði erum við einbeitt og á staðnum, laus við kvíða og sjálfsgagnrýni. Við hlæjum og okkur finnst við tengjast, bæði öðru fólki sem og innsta kjarna okkar. 

Að hafa gaman er ánægjuleg tilfinning sem gerir okkur gott. Hvernig getum við upplifað meiri gleði, þrátt fyrir faraldurinn? Hér fyrir neðan eru fjögur einföld ráð:

1. Dragðu úr hvers konar „gervigleði“
Gervigleði innifelur allar þær athafnir sem taka frítíma okkar en hvetja ekki til leikgleði eða tilfinningalegra tengsla við aðra, né leiða þær til þeirrar algjöru þátttöku og einbeitingar sem fylgir flæði. Skroll á samfélagsmiðlum eða sjónvarpsáhorf eru dæmi um gervigleði. Með því að greina uppsprettu gervigleði og minnkar þann tíma sem fer í hana er hægt að skapa tíma fyrir sanna gleði.

2. Finndu það sem gleður þig
Þó að gleðitilfinningin sé algild, finnur hver og einn hana á mismunandi stöðum. Reyndu að bera kennsl á þrjár upplifanir úr lífi þínu þar sem þú manst eftir því að hafa virkilega skemmt þér. Hugsaðu um tíma þegar þú hlóst með öðru fólki og fannst þú altekin(n) af upplifuninni. Hvað varstu að gera? Með hverjum varstu? Hvað gerði upplifunina svona góða? Hafðu í huga að lítil augnablik skipta máli, eins og t.d. að hlaupa berfættur í grasi eða leika við köttinn.
Markmiðið ætti að vera að bera kennsl á athafnir, aðstæður og einstaklinga sem eru þér oft til gleði. Það sem einhver einn upplifir sem ánægjulega athöfn, hvort sem það er klettaklifur, leshringur eða golf, getur verið fráhrindandi í augum annarra. Með því að greina það sem gleður okkur getum við tekið skynsamlegri ákvarðanir um það hvernig við viljum verja tíma okkar.

3. Settu gleðina á dagatalið
Það er ómögulegt að skipuleggja gleði þar sem gleði er tilfinningaleg upplifun sem ekki er hægt að þvinga fram. Það er hins vegar hægt að auka líkurnar á gleði, einfaldlega með því að forgangsraða því sem er líklegast að skapa þér gleði. Ef það að prófa nýjar uppskriftir, leysa 1500 púsluspil með fjölskyldunni eða dansa salsa með makanum veitir þér gleði, gefðu þér þá tíma fyrir það. Hægt er að skapa ýmsar gleðistundir þrátt fyrir faraldurinn. 

4. Upplifðu gleði í litlum skömmtum
Heimsfaraldurinn gerir okkur erfitt fyrir að taka þátt í uppáhaldsathöfnum, sérstaklega þeim sem krefjast ferðalaga eða samveru í stórum hópi fólks. Þess vegna er mikilvægt að finna leiðir til að upplifa gleði í litlum skömmtum með því að skapa eins mikla leikgleði, tilfinningaleg tengsl og flæði í daglegu lífi og mögulegt er, hvort sem það er að brosa til ókunnugra, hringja í samstarfsmann í stað þess að senda tölvupóst eða gera eitthvað fallegt fyrir fólk í einangrun.

Þrátt fyrir þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir eru tækifæri til að upplifa gleði allt í kringum okkur. Við þurfum bara að minna okkur á að grípa þau. Því meira sem við gefum gleðinni gaum og þeirri orku sem hún framleiðir, þeim mun betur líður okkur.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á 24.is 13. janúar 2022.