Níu vinnubrögð framúrskarandi einstaklinga

Árið 1998 kom út bókin How to be a star at work; Nine Breakthrough Strategies You Need to Succeed eftir Robert E. Kelley. Í bókinni segir Kelley frá rannsóknum sínum hjá Bell Labs AT&T, sem er eitt stærsta rannsóknar- og þróunarfyrirtæk heims.

Þegar Kelley spurði fólk hvað það væri sem aðgreindi framúrskarandi árangur frá meðalárangri fékk hann dæmigerð svör eins og t.d.: Framúrskarandi einstaklingar hafa meira sjálfstraust, þeir eru greindari, hafa meiri drifkraft, meiri sköpunargáfu, upplifa meiri starfsánægju, vinna hjá rétta fyrirtækinu, semur vel við fólk, vinna meira o.s.frv. Eftir að hafa rannsakað þessa þætti í tvö ár kom í ljós að enginn þeirra greindi framúrskarandi einstaklinga frá þeim sem skiluðu meðalárangri. Það sem virðist gera úrslitin samkvæmt Kelley er ekki persónuleikinn okkar, félagsleg hæfni og vitsmunalegir þættir heldur hvað við gerum við þá. Framúrskarandi árangur m.ö.o. er ekki það sem við búum yfir heldur það sem við gerum úr því sem við búum yfir. Það sem sker úr um hvort við náum framúrskarandi árangri er níu vinnubrögð og við þurfum að vera góð í þeim öllum. Hér að neðan er fjallað um þessi níu vinnubrögð.

1. Að sýna frumkvæði
Frumkvæði snýst um að leggja sig fram með hagsmuni samstarfsmanna, deildarinnar eða fyrirtækisins í huga. Frumkvæði er að axla ábyrgð og fara út fyrir verksvið sitt, án þess að vera beðinn um það. Framúrskarandi einstaklingar koma með djarfar og oft virðisaukandi hugmyndir og framkvæma þær. Þeir tengja hugmyndirnar markmiðum og stefnu fyrirtækisins. Frumkvæði þýðir að bjóða sig fram til að leysa vandamál og gera það sem þarf að gera og meira en búast má við. Þeir sem sýna frumkvæði nýta sér tækifæri og skapa skilyrði fyrir framtíðartækifæri.

2. Tengslamyndun
Störfin í dag eru mörg flókin og sérhæfð og krefjast breiðrar þekkingar. Mikið af þessari þekkingu býr ekki í kollinum á okkur. Til að koma verkefnum í framkvæmd og bæta upp þennan þekkingarskort byggja framúrskarandi einstaklingar upp tengsl við fjölda fólks sem býr yfir þeirri þekkingu sem þá vantar. Þeir nýta sér sambönd til að ná markmiðum í starfi. Tengslanetið á að vera báðum aðilum í hag. Til að fá fólk til að deila þekkingu sinni með sér þarf maður að hafa eitthvað sem er þess virði að skiptast á. Við byjum öll með neikvæða innistæðu og þurfum að vera tilbúin til að hjálpa öðrum áður en við getum beðið um hjálp í staðinn.

3. Sjálfsstjórn
Sjálfsstjórn snýst ekki aðeins um stjórnun tíma og verkefna heldur einnig um það að stjórna samböndum sínum við annað fólk sem og starfsþróun sinni. Framúrskarandi einstaklingar hafa mikla sjálfsþekkingu. Þeir vita hvað þeir kunna best og skapa og nýta sér tækifæri. Þeir taka góðar ákvarðanir um starfsframa sinn og ná sér í mikilvæga starfsreynslu og hæfni. Þeir axla ábyrgð á eigin árangri og verkefnum og auka þar með virði sitt fyrir fyrirtækið sem og á vinnumarkaðinum.

4. Heildarsýn
Framúrskarandi einstaklingar sjá heildarmyndina og líta á verkefni eða vandamál í víðu samhengi og frá öllum hliðum. Kelley talar í bókinni sinni um fimm mismunandi sjónarhorn: sjónarhorn samstarfsmanna, samkeppnisaðila, viðskiptavina, yfirstjórnar fyrirtækisins og síðast en ekki síst skapandi sjónarhornið. Með því að nota mismunandi sjónarhorn ná þeir að þróa betri lausnir við vandamál. Að hafa heildarsýn snýst um að byggja upp gagnabanka, átta sig á mynstrum og samhengi og tengja upplýsingarnar saman.

5. Að vera góður fylgjandi
Að vera góður fylgjandi lýtur að samskiptum okkar við þá sem eru hærra settir. Við erum í hlutverki fylgjanda 90% af tímanum. Tveir þættir greina að framúrskarandi og meðalgóða fylgjendur: óháð, gagnrýnin hugsun og virk þátttaka. Þessir þættir gefa síðan af sér fimm mismunandi stíla fylgjenda. Þeir sem skila hvað verstum árangri eru kindurnar, sem eru algjörlega óvirkar og háðar stjórnandanum hvað varðar stefnu og fyrirmæli. Já-menn eru aðeins virkari, en samt mjög háðir stjórnandanum. Fráhverfir fylgjendur eru mjög gagnrýnir og sjálfstæðir, en óvirkir í því hvernig þeir framkvæma verkefni, oft vegna þess að þeim mislíkar starfið og yfirstjórnin.

Hentistefnumenn fylgjast með vindáttinni og beita mismunandi stílum eftir aðstæðum. Sá hópur fylgjenda sem er mest virði fyrir fyrirtækið eru þeir fylgjendur sem nota skapandi hugsun, vinna sjálfstætt og beita gagnrýnni hugsun gagnvart markmiðum, verkefnum og aðferðum. Þeir eru tryggir og sýna mikinn áhuga við framkvæmd verkefna.

6. Forysta
Framúrskarandi einstaklingar taka forystu með litlu f-i. Þeir hafa oft ekki vald til að segja fólki upp eða veita stöðu- og launahækkanir, en þeir leiða með þekkingu sinni, með því að skapa orku og með því að veita því athygli sem tengir saman fólk. Þeir nota þekkingu sína og áhrif til að sannfæra hóp af fólki um að vinna mikilvæg verkefni. Þeir hjálpa hópnum við að mynda skýra sameiginlega sýn, finna bjargir til að ljúka við verkefni og leiða það til enda. Þeir skapa orku og laða þannig að sér fylgjendur. Þeir stjórna með því að vera fyrirmynd.

7. Samstarfshæfni
Framúrskarandi einstaklingar axla sameiginlega ábyrgð á markmiðum, verkefnum, aðgerðum og árangri þeirra sem þeir vinna með. Þeir hafa jákvæð áhrif á hópandann og sjá til þess að öllum finnist þeir vera hluti af hópnum. Þeir takast á við ágreining og aðstoða aðra við að leysa vandamál. Þessir einstaklingar hugsa oft um hópavinnu eins og Charles Lindbergh þegar hann var að leggja í sögulegt flug sitt yfir Atlantshafið. Flugvélin hans gat aðeins tekið ákveðið magn af bensíni og hann varð á ákveða hvað hann myndi taka með sér og hvað hann myndi skilja eftir eftir því hvort hann þurfti á því að halda eða ekki. Framúrskarandi einstaklingar gera það sama. Þeir hugsa: Þarf þessi hópur virkilega á mér að halda – eða þarf ég virkilega á þessum hópi að halda?

8. Skipulagsleg meðvitund
Skipulagsleg meðvitund er að þekkja og skilja tilfinningalega strauma og valdatengsl innan fyrirtækisins, sem oft eru falin, og stjórna ólíkum hagsmunum þess. Framúrskarandi einstaklingar vita hvenær er best að forðast ágreining og hvenær er best að takast á við hann. Þeir ná að snúa væntanlegum óvinum í bandamenn og vita hverjum er hægt að treysta og hverja væri best að forðast. Þeir skilja óformlegar reglur og væntingar og sjá í gegnum mikilvæg tengslanet.

9. Áhrif
Framúrskarandi einstaklingar hafa hæfni til að koma skoðunum sínum á framfæri á skilmerkilegan og áhrifamikinn hátt, t.d. þegar þeir halda fyrirlestur, senda minnisbréf eða kynna nýja hugmynd. Þeir búa yfir listinni að sannfæra og laga framsetningu sína að markhópnum. Þeir velja réttu skilaboðin fyrir tiltekinn markhóp og rétta markhópinn fyrir tiltekin skilaboð.

Að skara fram úr
Jafnvel framúrskarandi einstaklingar lenda stundum í röngu starfi, röngu fyrirtæki eða hjá röngum yfirmanni. Mikilvægt er að hafa í huga að við höfum alltaf val: við getum skipt um yfirmann eða starf innan vinnustaðarins, við getum reynt að breyta vinnustaðarmenningunni eða skoðun yfirmannsins, eða við getum skipt um vinnustað. Við þurfum að passa okkur á því að vera ekki í aðstæðum þar sem við getum ekki látið ljós okkar skína. Annað mikilvægt atriði er að ”stjörnustatusinn” fylgir okkur ekki. Þegar við skiptum um starf, deild eða fyrirtæki þurfum við að byrja frá grunni. Stjörnur fæðast ekki heldur eru búnar til. Að verða framúrskarandi starfsmaður er eins og að bæta sig í golfi. Fyrst þarf maður að bera kennsl á það sem mætti bæta og hvað þyrfti að gera til þess, og síðan að æfa sig daglega. Eins og tennisstjarnan Billie Jean King orðaði það: ”Meistarar halda áfram að spila þangað til þeir ná þessu.”

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 25. maí 2005.