Meiri ávinningur af persónulegum samskiptum en samskiptum á samfélagsmiðlum

Stór hluti samskipta okkar í dag eiga sér stað í gegnum netið og þá sérstaklega samfélagsmiðla (Facebook, Instagram, Snapchat o.fl.). 

Þeir eru komnir til að vera og eiga ef til vill eftir að verða enn stærri hluti af lífi okkar. Á samfélagsmiðlum er auðvelt að tjá skoðanir sínar, fá undirtektir við stöðufærslur og samúð þegar manni liggur eitthvað á hjarta.

Nýleg rannsókn vísindamanna við Michigan State University sýnir þó að samfélagsmiðlar eru ekki besti staðurinn til að leita stuðnings þegar kemur að andlegri heilsu okkar. Samfélagsmiðlar koma ekki í stað persónulegra samskipta.

Í netkönnun sem var lögð fyrir í byrjun ársins 2021 svöruðu yfir 400 háskólanemar við áðurnefndan háskóla spurningum um félagslegan stuðning, notkun sína á samfélagsmiðlum og geðheilsu. Rannsakendur báru svör þeirra saman við svör nemenda sem sögðust fyrst og fremst leita félagslegs stuðnings í raunheimum.

Rannsóknin leiddi í ljós að þótt félagslegur stuðningur á samfélagsmiðlum hafi ekki neikvæð áhrif á geðheilsu nemendanna hefur hann heldur ekki jákvæð áhrif. Óhófleg notkun nemendanna á samfélagsmiðlum tengist hins vegar marktækt minni félagslegum stuðningi í raunheimum. Auk þess fara nemendur sem ekki fá félagslegan stuðning í raunheimum á mis við aðalávinning persónulegra samskipta sem er betri geðheilsa s.s. minna þunglyndi, minni kvíði og minni einmanaleiki.

Rannsakendur segja að áhrif deilinga, læka, broskarla, hjarta og annarra tjákna (e. emoji) og viðbragða á samfélagsmiðlum séu takmörkuð og veiti ekki þann stuðning sem persónulegt samtal getur veitt. 

Næst þegar þú átt slæman dag skaltu því frekar nota símann til að skipuleggja hitting með fólki sem þú þekkir og treystir. Persónulegt samtal er ein besta leiðin til að fá huggun og dýpka tengslin.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á www.visir.is 16. desember 2021.