Leiðir til að tileinka sér jákvæðara viðhorf

Í bók sinni My Pocket Positivity: Anytime Exercises That Boost Optimism, Confidence, and Possibility, sem kom út 2018, deilir Courtney E. Ackerman 140 fljótum og áhrifaríkum leiðum sem aðstoða fólk við að tileinka sér æðruleysi og jákvæðara hugarfar. 

M.a. er um að ræða æfingar til að auka vellíðan, stuðla að jákvæðum tilfinningum, byggja upp seiglu, auka bjartsýni, auka þakklæti, efla sjálfstraust, auka núvitund og auka sjálfást. 

Hér fyrir neðan eru þrjár æfingar úr bókinni sem geta aukið sjálfstraust og lyft andanum.

Hættu að gera ójafnan samanburð
Þú hefur líklega heyrt að það sé óhollt og gagnlaust að bera þig of mikið saman við aðra. Það er staðreynd - stöðugur samanburður getur leitt til gremju og þess að við verðum of meðvituð um okkur sjálf. Hins vegar er það ekki endilega samanburðurinn sem slíkur sem er skaðlegur heldur er vandamálið ójafn samanburður.

Þegar við berum okkur saman við aðra berum við oft saman styrkleika annarra og okkar eigin veikleika. Við berum sjaldan saman styrkleika okkar og veikleika annarra eða eigin styrkleika og annarra. Það er þessi ósanngjarni samanburður við aðra sem er skaðlegur sjálfstraustinu og -álitinu. Aðeins samanburður á jöfnum grundvelli veitir okkur gagnlegt innsæi. 

Samgleðstu og fagnaðu velgengni annarra
Fyrir utan bætt samskipt við aðra græðum við á því að vera jákvæð og hvetjandi þegar einhver annar nýtur velgengni. Þegar við leggjum okkur fram um að fagna velgengni, sama hver það er sem nýtur hennar, uppskerum við einnig velgengni sjálf. 

Næst þegar þú upplifir vanlíðan eða öfundar árangur annarra skaltu prófa neðangreindar aðferðir til að stuðla að bjartsýnum hugsunum:

  1. Hugsaðu um hversu mikinn tíma og fyrirhöfn viðkomandi fjárfesti í velgengni sinni. Afrek og árangur dettur ekki í fangið á neinum - allir verða að vinna fyrir því.
  2. Ímyndaðu þér næst hvernig viðkomandi manneskju líður með velgengni sína. Sjáðu fyrir þér gleði, afrek og stolt hennar.
  3. Settu þig í spor viðkomandi. Ímyndaðu þér að þú upplifir þessa velgengni og vertu opinn fyrir sömu tilfinningum gleði, afreka og stolts. Baðaðu þig í þessum árangurstilfinningum. Velgengni annarra ætti að veita okkur innblástur.
  4. Minntu þig á að velgengni annarra kemur ekki í veg fyrir þína eigin heldur er hún undir sjálfum okkur komin.
  5. Lærðu að samgleðjast þeim sem vegnar vel. Leyfðu þér að upplifa stolt og hamingju fyrir hönd viðkomandi og óskaðu honum til hamingju af fullri einlægni.

Snúðu vanþakklátum hugsunum við
Öll höfum við vanþakklátar hugsanir af og til, jafnvel þakklátasta manneskjan á plánetunni hugsar stundum vanþakklátar hugsanir. Það að svona hugsanir skjóti upp kollinum gerir þig ekki að slæmri manneskju heldur gefur það þér tækifæri til að þróa þakklæti þitt enn frekar. 

Taktu eftir því næst þegar vanþakklát hugsun skýtur upp kollinum og skrifaðu hana niður. Skráðu smáatriðin til að vera viss um að þú hafir fangað kjarna hugsunarinnar. Snúðu hugsuninni síðan við. Íhugaðu hvað þú getur verið þakklát(ur) fyrir í stað þess sem þú er vanþakklátur yfir. Kannski gleymdi maki þinn að gera eitthvað sem þú baðst hann um og skiptir þig verulegu máli. Til að snúa þessari hugsun við skaltu hugsa um hversu þakklát(ur) þú getur verið fyrir að vera í góðu og heilbrigðu sambandi.

Þessi æfing snýst ekki um að afsaka eða afneita hlutum sem koma þér í uppnám heldur virkar sem nokkur konar jafnvægisafl gegn vanþakklætinu. Þakklæti er undistaða sáttar og vellíðanar.

Einblínum á hið góða
Með ofangreindar æfingar í farteskinu er hægt að lýsa upp daginn og finna hið góða, sama hvað lífið færir okkur í fang.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Kjarnanum 21. febrúar 2021.