Hvað tekur raunverulega langan tíma að þróa nýjar venjur?

Dr. Maxwell Malz, sem vann sem lýtalæknir árið 1950, tók eftir því að eftir aðgerðir, t.d. á nefinu, tók það skjólstæðinga hans yfirleitt um 21 dag að venjast nýja andlitinu. 

Það sama átti við eftir aflimun á útlimum: skjólstæðingar fundu yfirleitt fyrir hand- eða fótleggnum í um 21 dag áður en þeir aðlöguðust nýju aðstæðunum. Þessi reynsla fékk Maltz til að hugsa um sinn eigin aðlögunartíma að breytingum og nýjum venjum og niðurstaða hans var að það tæki hann sjálfan um 21 dag að þróa nýjar venjur. Í bók sem kom út 1960 var vitnað í Maltz þar sem kom fram að það tæki að lágmark 21 dag að forma nýja hegðun.

Áratugina eftir að bókin kom út hafði þessi tilvitnun mikil áhrif á sjálfshjálpargúrú eins og Zig Ziglar, Brian Tracey og Tony Robbins. Vandamálið var hins vegar að fólk gleymdi orðinu „lágmark“ og breytti tilvitnuninni í: „Það tekur 21 dag að þróa nýjar venjur“. Þessi mýta lifir enn í dag, kannski af því að við viljum trúa henni. Þrjár vikur eru viðráðanlegur tími, hver myndi ekki vilja breyta lífi sínu á aðeins þremur vikum? Vandamálið er hins vegar að Maltz var einfaldlega að spá í það sem hann sá í kringum sig og ekki að tjá neinar staðreyndir. Hann tók einnig fram að það tæki að minnsta kosti þennan tíma.

En hve langan tíma tekur raunverulega að þróa með sér nýjar venjur? Phillippa Lally, heilsusálfræðingur við University College í London, og félagar rannsökuðu venjur 96 manns á tólf vikna tímabili. Hver og einn þeirra tók upp nýja venju á tímabilinu og skráði niður daglega hvernig gengi og hversu sjálfvirk venjan væri. Sumir völdu eitthvað einfalt eins og „að drekka flösku af vatni með hádegismatnum“. Aðrir völdu aðeins flóknari hluti eins og „að hlaupa í 15 mínútur fyrir kvöldmatinn“. Að tímabilinu loknu skoðuðu rannsakendur hve langan tíma það hafði tekið hvern og einn að gera nýju hegðunina sjálfvirka.

Í ljós kom að það tók þátttakendur að meðaltali meira en tvo mánuði eða 66 daga nákvæmlega. Tíminn sem það tók fór eftir þeirri hegðun sem þeir völdu, einstaklingnum og aðstæðunum. Rannsóknin sýndi að það tók fólk allt frá 18 að 254 daga (eða rúmlega átta mánuði) að taka upp nýja venju. Athyglisvert var að samkvæmt rannsókninni er allt í lagi að verða á í messunni annað slagið, það virðist ekki hafa útslitaáhrif. 

Rannsókn Lally og félaga getur haft hvetjandi áhrif fyrir nokkrar sakir. Í fyrsta lagi er engin ástæða til að dæma sjálfan sig ef ný hegðun hefur ekki orðið að venju eftir nokkrar vikur. Það tekur tíma, þolinmæði og endurtekningar að taka upp nýjar venjur. Við þurfum því að skapa raunhæfar væntingar og taka þetta í litlum skrefum. Í öðru lagi sýnir þetta okkur að við þurfum ekki að vera fullkomin. Það að mistakast nokkrum sinnum hefur ekki marktækar afleiðingar fyrir langtíma venjur. Í þriðja lagi þá er mikilvægt að átta sig á því að venjur eru ferli en ekki einstakur atburður. Við þurfum að taka virkan þátt og heitbinda okkur, hvort sem það tekur 18 daga eða 254 daga. Eina leiðin til að komast á áfangastað er að hefja leikinn á degi 1 og láta verkin tala.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 10. júní 2014.