Hrósaðu börnunum fyrir viðleitni frekar en greind

Undanfarna áratugi hafa uppeldisfræðingar og barnasálfræðingar haldið því fram að hrós bæti sjálfstraust barna og þar með frammistöðu þeirra.

En eftir að efasemdir komu fram um ágæti hróss hafa sálfræðingar í auknum mæli rannsakað hvort það að hrósa börn fyrir meðfædda hæfileika eins og t.d. greind geti jafnvel skaðað þau. 

Í einni rannsókn var hópi 128 barna á aldrinum 10-11 ára skipt í tvo hópa og látinn taka einföld vitsmunagreindarpróf. Börnunum í hópi 1 var sagt að þau hefði staðið sig mjög vel og hlytu því að vera mjög greind. Börnunum í hópi 2 var sagt að þau hefðu staðið sig mjög vel og hlytu að hafa lagt sig mikið fram. Annar hópurinn fékk s.s. hrós fyrir greind, hinn fyrir viðleitni. Aðspurð hvort þau væru til í aðeins erfiðara próf voru börnin sem höfðu fengið hrós fyrir greind treg og völdu frekar að taka aftur einfalt próf. Af þeim sem höfðu fengið hrós fyrir viðleitni voru 90% á hinn bóginn óðfús að taka meira krefjandi próf. Í lokaprófinu sýndi þessi hópur marktækt betri árangur en hópurinn sem hafði fengið hrós fyrir greind. Margir þeirra sem höfðu fengið þau skilaboð að vera mjög greind voru með lakasta árangurinn. Svo virðist sem þau hafi haldið að þau gætu náð góðum árangri án þess að leggja mikið á sig af því að þau væru mjög greind, á meðan hin börnin höfðu fengið þau skilaboð að þau gætu bætt sig með því að leggja meira á sig. 

Þróunarsálfræðingurinn Carol Dweck og teymi hennar við Columbia Háskólann gerðu rannsókn þar sem börn á aldrinum 10-11 ára tóku þrjú próf. Annað prófið hafði viljandi verið gert það erfitt að þau féllu öll. Það sem rannsakendur komust að var að börn sem höfðu fengið hrós fyrir viðleitni sína náðu sér á strik eftir að hafa fallið með því að ná 30% betri einkunnir í þriðja prófinu miðað við það fyrsta á meðan þau börn sem höfðu fengið hrós fyrir það hversu klár eða greind þau voru fengu 20% lakari niðurstöðu en í fyrsta prófinu.

Öfugt við það sem hefur áður verið haldið fram gefur hrós fyrir greind eða gáfur börnum ekki sjálfstraust og hvetur þau ekki til að ná betri námsárangri, að mati Carol Dweck sem starfar í dag við Stanford Háskólann. Dweck, sem er höfundur bókarinnar Mindset: The New Psychology of Success, segir að við ættum að hrósa börnum fyrir atriði sem þau geta haft áhrif eða stjórn á, eins og viðleitni. Þau sem fá hrós fyrir meðfæddar gáfur sínar gætu dregið þá ályktun að ekki sé nauðsynlegt að leggja sig mikið fram. Þau séu ekki eins líkleg til að taka áhættu, ofurviðkvæm fyrir því að mistakast og gera sig að fífli og líklegri til að gefast upp þegar á móti blási. Þess vegna ættu foreldrar að hafa í huga að þau eru ekki að gefa börnunum sínum gjöf þegar þau segi þeim hversu klár þau eru. Slíkt hrós fær börn til að trúa að þau séu metin aðeins fyrir að vera klár og greind og dregur úr vilja þeirra til að læra.

 Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 18. desember 2010.